Fellt tré hafnaði á bíl - elti námið - fjarlægð við hafsbotn

Orðlof

Væl

Stundum læða ensk áhrif sér inn í málið ef svo má að orði komast. Þetta á t.d. við um notkun samtengingarinnar meðan/á meðan. Í íslensku vísar hún jafnan til tíma í merkingunni ‘á þeim tíma sem, á sama tíma og’, t.d.: 

Bíddu meðan ég sæki bókina 

hún las á meðan hún beið 

sjúklingurinn var rólegur á meðan á aðgerðinni stóð

ekkert verður unnið á meðan verkfallið stendur

Í ensku er tilsvarandi samtenging while notuð með öðrum hætti, hún samsvarar oft samtengingunni en. Í nútímamáli er samtengingin á meðan oft notuð að enskum hætti, t.d.: 

Varnarliðið kaupir um 13 þúsund mínútulítra á ári meðan [þ.e. en] sveitarfélögin á Suðurnesjum kaupa tæpa 17 þúsund mínútulítra

Þar [í S-Ameríku] er spænska gjarna notuð sem háafbrigði á meðan [þ.e. en] önnur mál eru notuð sem lágafbrigði

vegna þess hve þörfin á að sinna meðferðum sé áberandi hafa sum sveitarfélög tekið það að sér á meðan [þ.e. en] önnur haldi stíft í að …

lágmarkslaun starfsmanna á sambýlum eru núna 113 þúsund á meðan [þ.e. en] starfsmenn á hjúkrunarheimilum fá … 

Íslenskt mál – þættir Jóns G. Friðjónssonar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Lést eftir að fellt tré hafnaði ofan á bílnum.

Frétt á Vísir. 

Athugasemd: Tré sem hefur verið fellt liggur á jörðinni og útlokað er að það rísi upp aftur og falli svo á bíl eða eitthvað annað. 

Ótrúlegt er að blaðamenn semji svona vitleysu. Stundum flögrar að manni að umbrotsmenn séu að reyna að fækka eða fjölga orðum svo fyrirsögnin passi í plássið sem henni er ætlað. Góður blaðamaður lætur ekki bjóða sér svona. 

Tillaga: Maður lést þegar tré féll á bíl hans.

2.

Núna er sérstaklega horft til þess hve mikinn snjó hefur fest á jöklana síðustu mánuði …“

Frétt, Baksviðs, á blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu 14.6.24. 

Athugasemd: Skrýtið þetta orðalag „horfa til þess“. Það og önnur álíka, til dæmis „mikilvægi þess“, eru orðin svo algeng að til leiðinda er fyrir lesendur og hlustendur frétta.

Er ekki best að bannfæra ábendingarfornafnið „þetta“ (þess) til að koma í veg fyrir leiðindin. Líklega næst seint meirihluti fyrir tillögunni sem er svo sem allt í lagi.

Hér er ekki úr vegi að bæta því við að hollt er að takmarka notkun á fornafninu „það“ og „þess“. Fyrir vikið batnar málfarið oft.

Oftast er talað um ákomu þegar mæld er snjósöfnun á jöklum. „Ákoma“ getur haft ýmsar aðrar merkingar.

Tillaga: Núna er sérstaklega skoðað hve mikinn snjó hefur fest á jöklana síðustu mánuði …

3.

„Melkorka elti draumanámið til Barcelona.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Halda mætti að draumar flýi dreymandann eða hvers vegna þarf að elta þá?

Skelfing heimskulegt er að „elta“ draum jafnvel þó á enskumælandi segi „follow the dream“. 

Þannig misskilja margir bæði ensku og íslensku og ættu því að leita sér aðstoðar í skrifum.

Tillaga: Melkorka lét drauminn rætast um nám í Barcelona.

4.

„334 Grindvíkingar hafa sóst eftir að selja …

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Aldrei á að byrja málsgrein á tölustaf. Þetta eiga allir að vita, á að vera kennt í skólum. Þar að auki hljóta allir hugsandi menn að sjá að tölustafur á eftir punkti er einfaldlega ljótt.

Endurtekningar í frétt eru einnig ljótar. Í fréttinni er klifað:

Nærri 350 Grindvíkingar hafa sóst eftir að selja

334 Grindvíkingar hafa sóst eftir að selja

Nástaða er alltaf til óþurftar. 

Margt bendir til að fréttin hafi verið samin í flýti og blaðamaðurinn ekki lesið hana yfir.

Tillaga: Alls hafa 334 Grindvíkingar sóst eftir að selja …

5.

„Blóðugur ferill Ragnars Jónssonar.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Frábær fyrirsögn. Lesandinn heldur að Ragnar þessi sé grimmur glæpon en það er öðru nær. Hann er sérfræðingur í blóðferilsrannsóknum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Fréttin er vel skrifuð og mjög áhugaverð.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Haft er eftir honum í skýrslunni að hann hafi ekki séð ástæðu til að treysta á vitneskju heimamanna, heldur hafi hann reytt á rafræn líkön.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Síðasta setningin er óskiljanleg. Orðið „reytt“ er ekki til. Giska má á að þarna hafi átt að standa „treyst“ (sögnin að treysta) en þrátt fyrir það skilst ekkert. Hvað er „rafræn líkön“?

Fréttin fjallar um efni skýrslu sem gerð var vegna skipstrands. Blaðamaðurinn þýðir „electronic chart“ sem „rafrænt líkan“ en það er kolrangt en líklegast er átt við gps leiðsögutækni fyrir skip sem birtist á tölvuskjá.

Áhöfn skipsins setti ekki spurningamerki við ákvarðanir skipstjórans …

Hvað er átt við? Treysti áhöfnin ekki því sem skipstjórinn ákvað? Sé svo hvað kemur „spurningarmerki“ málinu við?

Í fréttinni segir:

Strandið átti sér stað á svokölluðu D-svæði í líkaninu, sem er þýðir að litlar upplýsingar séu um fjarlægð við hafsbotn.

Hvað er átt við með „fjarlægð við hafsbotn“. Vera má að átt sé við dýpi, það er hversu djúpt á þeim slóðum er skipið strandaði. Þarna fær blaðamaðurinn falleinkunn.

Blaðamaðurinn er greinilega ekki vanur skrifum.

Tillaga: Engin tillaga.

7.

„Þyrla á leiðinni á staðinn til að staðsetja gosið.

Fréttaborði á streymi Ríkisútvarpsins sjónvarps í stuttu eftir að gos hófst. 

Athugasemd: Á leið á staðinn til að staðsetja (staðinn). Sem betur fer hafði einhver vit á því að kippa vitleysunni úr birtingu.

Tillaga: Engin tillaga.


Bloggfærslur 16. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband