Flugvél dvelur á Hornafirði - stórtækur þjófnaður - gígur sem framleiðir kviku

Orðlof

Klisja ofan á klisju

Orðið klisja er notað um orðalag sem í fyrstu var ef til vill frumlegt og nýstárlegt en verður vegna ofnotkunar útslitið og tákn um flatneskjulegan stíl. […]

Sem dæmi um klisjukennt orðalag mætti nefna, ’hún lagði skóna á hilluna’. […]

Orðalagið verður síðan klisja vegna ofnotkunar og hugsunarleysis, til dæmis á það sérstaklega illa við um sundfólk sem hættir að keppa í sinni grein. 

En rétt er að taka fram að orðalagið ’hann lagði sundgleraugun á bakkann’ er álíka mikil klisja enda er það einfaldlega mótað eftir fyrri klisjunni án nokkurs frumleika.

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… hóf stofnunin að veita vélinni athygli eftir að hún fór á hreyfingu í átt til Egilsstaða frá Hornafirði þar sem hún hafði dvalið um veturinn.“

Frétt á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 26.3.24. 

Athugasemd: Þetta er illa orðuð málsgrein. Yfirleitt er flugvélum flogið og því þarflaust að segja að þá séu þær á hreyfingu. Hreyfingarlaus flugvél á flugi myndi teljast til tíðinda.

Samgöngustofa áttaði sig á því að flugvélin var „á hreyfingu“. Orðalagið er auðvitað della. Blaðamaðurinn þarf að vera á verði og orða frétt sína á eðlilegri íslensku, geti hann það á annað borð.

Flugvélin „dvaldi“ ekki á Hornafirði. Aðeins fólk dvelur, ekki dauðir hlutir. Flugvélin var á Hornafirði í vetur eins og réttilega kemur fram síðar í fréttinni.

Tillaga:  veittu starfsmenn Samgöngustofu því athygli er henni var flogið frá Hornafirði þar sem hún hafði verið í vetur.

2.

„225 stuðnings­menn ís­lenska karla­landsliðsins …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Jafnvel blaðamenn sem hafa í mörg ár unnið á Morgunblaðinu byrja málsgreinar á tölustöfum. Það bendir til að ritstjórar og ritstjórnarfulltrúar lesi annað hvort ekki Moggann eða þeir þekki ekki regluna. Hvorugt er gott.

Reglan er þessi: Ekki skal byrja málsgrein á tölustaf.

Tillaga: … tvö hundruð tuttugu og fimm stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins …

3.

„Í ljósi þess að bróðir þinn er stjórnarmaður í VÍS og stjórn­andi eins stærsta hlut­haf­ans í VÍS – Skel – hef­ur þá komið til skoðunar van­hæfis­regl­ur af þinni hálfu?

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er spurning sem lögð var fyrir fjármálaráðherra. Seinni hluti hennar er illa orðaður og er bersýnilega ekki í samræmi við það sem átt er við. Blaðamaðurinn vill beinlínis vita hvort ráðherrann sé vanhæfur vegna kaupa Landsbankans á tryggingafélagi. En hann spyr ekki að því heldur hvort hann hafi skoðað vanhæfisreglurnar.

Spurningin er orðuð á þann hátt sem algengt er hjá yngri blaðamönnum; nafnorðin eru ráðandi.

Tillagan er mun skýrari.

Skel er nafnorð í kvenkyni. Beygist eins í öllum föllum nema eignarfall, skeljar.

Skel getur líka verið karlmannsnafn og í eignarfalli er það Skels. Heiti hluthafafélagsins er Skel og því er skotið inn í málsgreinina og er líklega rétt þarna. Umsjónarmaður hefði áreiðanlega freistast til að skrifa Skels. 

Til að átta sig er gott að setja annað orð í staðinn fyrir Skel, til dæmis Hundur. Tja, ég myndi segja Hunds og ef til vill fengið bágt fyrir.

Tillaga: Þar sem bróðir þinn er stjórnarmaður í VÍS og stjórn­andi eins stærsta hlut­haf­ans í VÍS, Skels, hef­urðu velt fyrir þér hvort þú sért vanhæf?

4.

„Skrapp til Grinda­víkur og upp­götvaði stórtækan þjófnað.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Þetta stingur í augað. Þjófnaður getur varla verið stórtækur en þjófurinn hefur verið stórtækur. Líklega ruglar blaðamaðurinn saman tveimur orðum; stórtækur og stórfelldur.

Í Málfarsbankanum segir:

Orðin stórtækur og stórfelldur merkja ekki það sama. 

Hún er stórtæk (= stórhuga) í verkum sínum. 

Hann er stórtækur (= frekur) til kvenna. 

Hins vegar: 

Það varð stórfelldur (= mikill) ávinningur af sameiningu skólanna.

Tillagan er skárri en tilvitnunin.

Tillaga: Skrapp til Grinda­víkur og upp­götvaði stórfeldan þjófnað.

5.

„Gore og Lieberman töpuðu kosningunum fyrir George W Bush, frambjóðanda Repúblikanaflokksins …

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Orðalagið er rangt. Kosningarnar týndust ekki. Gore og Lieberman töpuðu fyrir Bush í kosningunum. Kosningarnar tóku ekki þátt.

Reginmunur er á því að tapa einhverju og tapa fyrir einhverjum. Jón og Gunna töpuðu peningum á ferðalagi (ekki: töpuðu á ferðalaginu peningum). Útilokað er að sigra kosningar rétt eins og að tapa þeim.

Í fréttinni segir:

Samkvæmt tilkynningu frá aðstandendum Liebermann lést hann vegna fylgikvilla sem komu í kjölfar falls.

Heimildin er vefur CNN. Þar segir:

The former Connecticut senator passed away Wednesday due to complications from a fall in New York.

Þýðingin er léleg. Blaðamanninum tekst ekki að koma fréttinni skilmerkilega til skila. Eftirfarandi er skárra:

Lieberman hafi dottið og það dró hann til dauða.

Enska orðið „complications“ merkir ekki fylgikvillar. Aðalatriðið er að maðurinn datt og vegna þess dó hann. Banameinið er ekki gefið upp en líklega hafði fallið margvíslegar og alvarlegar afleiðingar og því fór sem fór.

Tillaga: Gore og Lieberman töpuðu fyrir George W Bush, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, í kosningunum ….

6.

Aðeins einn gígur framleiðir nú kviku.“

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 28.3.24. 

Athugasemd: Getur það verið að gígur „framleiði kviku“? Nei, ekki frekar en að malarvegir framleiði holur. Eða brattar fjallshlíðar framleiði snjóflóð. Eða að kraninn í eldhúsinu framleiði vatn. Nei, í öllum tilfellum veldur allt annað.

Öllum ætti að vera ljóst að gígur er aðeins gat í jarðskorpunni og upp úr því dælist kvika sem á yfirborði nefnist yfirleitt hraun, kalt eða heitt, rennandi eða ekki. Kvikan kemur úr kvikuhólfi skammt undir yfirborði og þar er kvikan uns þrýstingur er nægilega mikill til að hún taki að leita upp á við eða að jarðlög láti undan. Kvikan í hólfinu kemur enn neðar.

Af þessu má ráða að gígur „framleiðir“ ekki neitt, ekki frekar en vatnskrani. Úr báðum streymir þangað til eitthvað gerist sem lokar fyrir rennslið. Lesandinn skrúfar fyrir kranann og þá stöðvast „framleiðslan“.

Enginn mannlegur máttur getur lokað fyrir eldgos, úr því dregur eða það hættir þegar kvikuhólfið tæmist, þrýstingur í því minnkar eða engin kvika berst í það.

Tillaga: Kvika kemur nú úr aðeins einum gíg.


Bloggfærslur 28. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband