Ríkjandi, jökulfljótið milli Mývatns og Egilsstaða og þröskuldur Veðurstofunnar

Orðlof

Og

Einhver kann að hafa velt því fyrir sér hvaða orð væri algengast í íslensku. Samkvæmt „Íslenskri orðtíðnibók“, sem kom út 1991, er og algengasta orðið en fast á hæla því kemur . […]

Það vekur athygli í niðurstöðum þessarar rannsóknar að tuttugu algengustu orðin í íslensku eru öll svokölluð kerfisorð, smáorðin sem binda saman texta en hafa sjálf ekki skýra merkingu eins og samtengingar, forsetningar, fornöfn, atviksorð og hjálparsagnir. […]

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ríkjandi heims- og ólympíumeistarar Danmerkur eru komnir í úrslit á HM í handbolta …“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Er einhver munur á heimsmeisturum og „ríkjandi heimsmeisturum“? Nei. Aðeins eitt lið er heimsmeistari í einu. 

Tóm vitleysa er að nota orðið „ríkjandi“. Það bætir engu við skilninginn, þvert á móti.

Tillaga: Heims- og ólympíumeistarar Danmerkur eru komnir í úrslit á HM í handbolta …

2.

„Vatnshæð Jökulsár á Fjöllum milli Mývatns og Egilsstaða hefur hækkað um rúmlega …“

Frétt klukkan 19:00 í Ríkissjónvarpinu 30.01.21.                                     

Athugasemd: Hvernig ber eiginlega að skilja þetta? Rennur Jökulsá á Fjöllum milli Mývatns og Egilsstaða? Eða er fljótið miðsvegar milli þessara staða? Hvort tveggja er rangt. 

Þetta er eins og að segja að Þjórsá sé milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Eða að Borgarfjörður sé milli Grindavíkur og Búðardals. Vissulega má hvort tveggja til sanns vegar færa en svona taka engir til orða. 

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Jökulsá á Fjöllum fór yfir þröskuld Veðurstofunnar.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Skyldi hafa lekið inn í hús Veðurstofu Íslands eins og gerðist í Háskólanum um daginn? Nei. Veðurstofan er í Reykjavík en fljótið víðsfjarri.

„Þröskuldur er „breiður listi sem liggur þversum í dyragætt“, segir í orðabókinni.

Líklegast er hér átt við hámarks vatnshæð sem Veðurstofan miðar við, það er áður en illa fer. 

Mér finnst þröskuldur alls ekki gegnsætt orð hjá Veðurstofunni. Af hverju notar hún ekki gluggakistu, þakskegg eða mæni? Ekki nota orð sem notað er um allt annað og er í daglegri notkun.

Hins vegar kann að hafa vantað einn eða fleiri þröskulda þegar vatnið flæddi inn í Háskóla Íslands.

Tillaga: Jökulsá á Fjöllum fór yfir viðmið Veðurstofunnar.

4.

„Of margir í pottinum á Akureyri og aðgengi að lauginni lokað.

Fyrirsögn á visir.is.                                      

Athugasemd: Á málið.is segir:

Orðin aðgangur og aðgengi merkja ekki það sama. 

Orðið aðgangur vísar fremur til leyfis eða aðgangsheimildar en orðið aðgengi fremur til aðferðar eða aðstæðna.

Líklegast er að hvort tveggja hafi gerst. Aðganginum verið lokað því aðgengið var ekki heimilt. Í gamla daga auglýstu bíóhúsin: Aðgangur óheimill börnum innan tólf ára.

TillagaOf margir í pottinum á Akureyri og var sundlauginni lokað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband