Fjöldi starfsfólks mun telja 60, vatn er í dýpsta hluta vatnsins og stígandinn þéttur

Orðlof

Knérunnur

„Eg skal það gera,“ segir Njáll. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“

Njálssaga, 55. kafli.

Mun eg segja þér að Njáll hefir spáð Gunnari og sagt fyrir um ævi hans, ef hann vægi í hinn sama knérunn oftar en um sinn að það mundi honum bráðast til bana, bæri það saman að hann ryfi sætt þá er ger væri um það mál. Skalt þú því Þorgeiri koma í málið að Gunnar hefir vegið föður hans áður og er þið eruð á einum fundi báðir þá skalt þú hlífa þér en hann mun ganga fram vel og mun Gunnar vega hann. Hefir hann þá vegið tvisvar í hinn sama knérunn en þú skalt flýja af fundinum.

Njálssaga, 67. kafli.

Þá mælti Njáll til Gunnars: „Ver þú nú var um þig. Nú hefir þú vegið tvisvar í hinn sama knérunn. Hygg nú svo fyrir hag þínum að þar liggur við líf þitt ef þú heldur eigi þá sætt sem ger er.“

Njálssaga, 73. kafli.

Orðatiltækið að höggva/vega í sama knérunn merkir: gera e-m sams konar miska á ný eða gera það sama aftur.

Orðið knérunnur merkir: ættarlína, grein ættar.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Það er ekki víst að ég á þessum tímapunkti leggi til einhverjar ákveðnar aðgerðir.

 Frétt á visir.is.                                    

Athugasemd: Mér finnst orðleysan “tímapunktur“ bölvað drasl, algjörlega gagnslaust. Hér áður þurftu menn ekki að vera með doktorsgráðu til að kunna að nota atviksorðið núna. Þvert á móti. Allir ættu að geta sagt nú, núna, nákvæmlega núna, um þessar mundir og álíka og senda „tímapunktinn“ aftur til útlanda.

Nú þykir enginn maður með mönnum nema hann noti draslorð eins og „tímapunktur“, „ákvarðanataka“, „valkostur“ og álíka.

Tillaga: Það er ekki víst að ég leggi núna til einhverjar ákveðnar aðgerðir.

2.

„… og fjöldi starfsfólks mun telja 60.

Frétt á blaðsíðu 2 í Viðskiptamogganum 4.8.21.                                     

Athugasemd: Af hverju má ekki segja verður? Hvaða töfrar er í orðalaginu „mun telja“?

Tillaga: … og fjöldi starfsfólks verður 60. 

3.

Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er dæmi um stöðuvatn sem fer illa út úr þurrkum. Vatn er nú aðeins í dýpsta hluta vatnsins.“

Myndatexti á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 5.8.21.                                     

Athugasemd: Ef vatn er aðeins í dýpsta hluta vatnsins er þá ekki vatn annars staðar í vatninu. Þetta er auðvitað aumleg tilraun til útúrsnúnings. Samt er nú ástæða til að huga að orðalaginu svo það verði ekki hjákátlegt.

Nokkur vandi er að snúa því til skárri vegar. Hugsanlega er það vatnsstæði þar sem stöðuvatn er eða var. Dæmi um slíkt eru nefnd í Ritmálasafni Orðabókar Háskólans, sjá hér.  

Þá er það dýptin. Varla er vatn grunnt þar sem ekkert vatn er. Nyrst í vatnsstæðinu er enn vatn því þar er landið lægra en annars staðar. Þegar vatn er í lægðinni telst það djúpt eða dýpra en annars staðar.

Niðurstaðan er því að skárra sé að tala um vatnsstæðið eins og segir í tillögunni.

Svo er það hitt: Væri Hvaleyrarvatn algjörlega vatnslaust hvað verður þá um örnefnið? Þetta líkist heimspekilegum vangaveltum: Ber farvegurinn árnafnið þegar áin fellur annars staðar? Aftur á móti er jökullinn Gláma horfinn en staðurinn þar sem hann var ber enn örnefnið.

Í lokin má bæta því við að fréttin er vel skrifuð og fróðleg.

Tillaga: Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði hefur farið illa út úr þurrkum. Vatnsstæðið er að mestu leyti þurrt nema nyrst þar sem það er lægst. 

4.

„… þar sem andrúmsloftið er á köflum rafmagnað og stígandinn þéttur.

Frétt/kvikmyndir á blaðsíðu 19 í Fréttablaðinu 5.8.21.                                     

Athugasemd: Í þessu tilviki er nafnorðið stígandi í kvenkyni. Orðið merkir það sem hækkar og magnast jafnt og þétt til dæmis í kveðskap og bókmenntum samkvæmt því sem segir á málinu.is.

Til er karlkynsorðið stígandi. Það merkir yfirleit sá sem gengur fram og aftur á sama bletti segir á málinu.is. Stígandi getur líka verið viðurnefni og er þá átt við sá sem ber það sé göngugarpur.

Tillaga: … þar sem andrúmsloftið er á köflum rafmagnað og stígandin þétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband