Versus, án sykur og möguleg sjóbúð

Orðlof

Afmæli

Elsta dæmi sem vitað er um er í skrifum Árna Magnússonar handritasafnara (1663-1730). Það bendir til þess að orðið sé nýtt og lítt þekkt þá að hann sér ástæðu til að þýða það á latínu innan sviga.  

Orðið er skylt sögninni afmæla ’afmarka í tíma eða rúmi’ en hún er lítið notuð og nafnorðið lifir sínu eigin lífi, óháð henni og mælingum yfirleitt eins og sést á því að það er oft borið fram ammæli.

Orðaborgarar.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Áslaug vill slaka verulega gagnvart sóttkví.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Þetta er ferlega illa skrifað, eiginlega vanhugsað. „Gagnvart“ er forsetning er stendur þarna í algjörri þarfleysu.

Í Málfarsbankanum stendur eftirfarandi:

Forsetningin gagnvert er upphaflega hk.-mynd af lo. gagnverður. Hún er algeng í fornu máli, t.d.:

sátu þeir [Egill og Yngvar] gagnvert þeim Skalla-Grími og Þórólfi (Egils saga 31.k);

Og þar segir líka:

Í tilgreindum dæmum öllum virðist merking fs. gagnvert, gagnvart vera bein, þ.e. andspænis; á móti en í síðari alda máli hefur merkingin breyst. 

Það er afar lærdómsríkt að velta slíkum merkingarbreytingum fyrir sér, t.d.:

vera afbrýðisamur gagnvart e-m 

Pistillinn í Málfarsbankanum er fróðlegur en ofangreint er mikið stytt.

Af þessu má ráða að orðalagið á Moggavefnum er hugsanlega í samræmi við það sem nú tíðkast. Þar með er ekki öll sagan sögð. Þegar slakað er á sóttkví verið er að tala um reglurnar, ekki kví, herbergi í sóttvarnarhúsi eða á heimili. Þar af leiðandi passar „gagnvart“ ekki.

Tillaga: Áslaug vill slaka verulega á reglum sóttkví.

2.

vs.

Auglýsing á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 21.8.21.                                     

Athugasemd: Tvö ensk lið munu keppa í fótbolta síðari hluta dagsins. Á milli skjaldarmerkja liðanna sendur skrifað „vs.“ og er ensk skammstöfun sem merkir „versus“. Í orðabókinni minni segir:

Preposition. Against (especially in sporting and legal use): England versus Australia.

Sem sagt, „versus“ merkir á íslensku gegn. Tvö lið leika gegn hvoru öðru, ekki „vs.“ hvoru öðru.

Morgunblaðið, Síminn og mbl.is skrifa undir auglýsinguna. 

Annað hvort á að tala og skrifa íslensku eða útlensku. Ekki blanda tveimur tungumálum saman. Aldrei. 

Af hverju, kann einhver að spyrja. Svarið er einfalt og flókið í senn. 

Enskt mál ryðst yfir menningu annarra þjóða með fjölbreyttri afþreyingu, bókmenntum, vísindum og fréttum. Ungt fólk gæti haldið að slettur, ensk orðaröð og beinar þýðingar úr ensku séu einfaldlega eðlilegar. Svo er ekki. Íslensk þjóð býr að mikilli menningu, ekki aðeins er tungumálið gamalt en frjótt, heldur byggjum við á kvikri menningarstarfsemi í einstöku landi.

Gefum við tungumálið eftir kunnum við að tapa tilfinningunni fyrir þjóðerni okkar og þá er líklega skammt í að við töpum sjálfstæðinu, að hluta eða öllu leyti.

Í Njálssögu segir frá Hallkatli Skarfssyni, bróður Otkels, sem þótti ekki sá skarpasti. Gunnar Hámundarson vó þá bræður en bað Hallkel áður að veitast ekki að sér því hann vildi hlífa honum:

Það mun ekki gera,“ segir Hallbjörn. „Þú munt þó drepa vilja bróður minn og er það skömm ef eg sit hjá“ og lagði til Gunnars tveim höndum miklu spjóti.

Hallbjörn hafði ekki erindi sem erfiði og var spjótslagið hans síðasta. Þetta datt mér í hug þegar ég sá auglýsinguna og nöfn fyrirtækjanna sem birta hana. Tungumálið er áberandi hluti menningar okkar og það er mikil skömm ef fólk og fyrirtæki sitja hjá þegar íslenskan á undir högg að sækja. Allan tiltækan liðstyrk þarf og enginn má skerast úr leik.

Það er skömm þegar Mogginn, Moggavefurinn og Síminn sitja hjá.

Tillaga: Gegn.

3.

„Án sykur.

Auglýsing í sjónvarpi.                                     

Athugasemd: Ölgerðin auglýsir „sevenup“ gosdrykk og segir hann vera „án sykur“.

Auðvitað ber Ölgerðinni að hafa orðið sykur í eignarfalli. Það gerir hún ekki.

Auglýsing er hvorki Ölgerðinni né auglýsingastofunni til sóma. Þvert á móti.

Tillaga: Án sykurs

4.

„Fundu óvænt mögulega sjóbúð frá landnámi í Seyðisfirði.

Fyrirsögn á ruv.is.                                      

Athugasemd: Sjóðbúðin er hugsanlega eða líklega frá landnámi. Atviksorðið mögulega á ekki við í þessu sambandi. Hins vegar er mögulegt að sjóbúðin sé frá landnámi en ef ekki eru þetta fornar minjar. Ágætt er að nota það orð.

Það sem fannst getur mögulega eða hugsanlega verið sjóbúð eða naust. Hins vegar er hún ekki möguleg sjóbúð.

Fróðlegt er að gúggla orðið mögulega á vefnum og þá kemur í ljós hversu kjánalega það er oft notað. Orðið er vinsælt meðal fjölmiðlamanna en skilningur á notkun þess virðist lítill.

Tillaga: Fundu óvænt minjar frá landnámi í Seyðisfirði.

5.

Við munum þurfa að bregðast áfram við.“

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 25.8.21.                                     

Athugasemd: Þetta er illa skrifað og blaðamaðurinn hefði átt að lagfæra orðalag viðmælanda síns.

Orðalagið að bregðast við merkir að gera eitthvað skjótlega vegna aðstæðna. Þegar það fer að rigna getur sá sem er úti brugðist við, sett upp hettu á úlpu, húfu, notað regnhlíf og svo framvegis. 

Eftir að hann hefur brugðist við vegna rigningarinnar er viðbragðinu lokið. Snúi hann heim og sæki stígvél, regnheld föt eða álíka það ekki viðbragð heldur framhald af því.

Atviksorðið áfram í frétt Moggans gefur til kynna að þeir sem um er rætt geri nú aðrar ráðstafanir við hæfi því viðbragðinu er lokið.

Svo má auðvitað spyrja hvort sá sé ekki „viðbragðsaðili“ sem bregst við vegna rigningarinnar með því að spenna upp regnhlíf. Segi þetta því orðið er eitt það kjánalegasta í íslensku máli, ómarkvisst, loðið og ofnotað í fjölmiðlum og víðar.

Tillaga: Við munum þurfa að gera meira.

6.

„Lamdi vegfaranda með hælaskó í höfuðið.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Eiga vegfarendur með hælaskó það skilið að vera lamdir í höfuðið? Líklega er þetta ekki fyndið, en það mátti reyna..

Orðaröð í setningu skiptir máli. Ofangreint er ekki beinlínis vitlaust en hægt er að orða þetta betur.

Tillaga: Lamdi vegfaranda í höfuðið með hælaskó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband