Grenntist um 40 kg - active joints, happier guts - skjól innan handar

Orðlof

Kynhlutlaust mál

Það er jákvætt að tungumál séu blæbrigðarík og endurspegli samfélagið á hverjum tíma og þróun þess. Um leið er mikilvægt að samband kynslóða rofni ekki alveg. 

Varðveisla og efling hafa verið kjarnaatriði í íslenskri málstefnu. Með varðveislu íslenskrar tungu er átt við að halda órofnu samhengi í máli frá kynslóð til kynslóðar, einkum að gæta þess að ekki fari forgörðum þau tengsl sem verið hafa og eru enn milli lifandi máls og bókmennta allt frá upphafi ritaldar. 

Ef kynhlutlaust mál yrði regla án undantekninga skapast augljóslega hætta á að málfar fyrri kynslóða og einnig þorra núlifandi manna verði torskildara í framtíðinni. Þar má nefna þann nýja skilning að fornöfnin , þeir, allir, nokkrir og sumir eigi eingöngu við . karlkyn.

Skýrsla um kynhlutlaust mál. Ágústa Þorbergsdóttir. Íslensk málnefnd.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Mike Pompeo, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur grennst um rúm 40 kíló frá því í júní í fyrra.

Frétt á fréttablaðinu.is.                                   

Athugasemd: Útilokað er að grennast um fjörtíu kíló. Þeir sem léttast missa kíló og grennast um leið. 

Í fréttinni segir:

Pompeo er 58 ára og lét af embætti í fyrra …

Þetta er gott, sumir blaðamenn hefðu orðað þetta svona:

Hinn 58 ára Pompeo lét af embætti í fyrra …

Vel gert hjá blaðmanni Fréttablaðsins að þessu leyti.

Tillaga: Mike Pompeo, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lést um rúm 40 kíló frá því í júní í fyrra.

2.

Vörulínan Eylíf býður upp á fjórar vörur, Active JOINTS, Stronger BONES, Smoother SKIN & HAIR og nýjasta varan er Happier GUTS, allt vörur sem hafa reynst fólki vel.“

Auglýsing í Fréttablaðinu 9.1.22.                                     

Athugasemd: Fyrirtækið framleiðir vörur fyrir Íslendinga og allar bera bera ensk heiti. Enskan er ráðandi, íslenskan er aukaatriði. 

Algjört virðingarleysi fyrir markaðnum og íslenskri tungu. Ótrúlegt.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Fundu veiruna sem olli spænsku veikinni á safni.

Frétt á dv.is.                                      

Athugasemd: Röð orða í setningu skiptir miklu. Hér mætti halda að spænska veikin hafi komið upp á safni. Nei, það er nú ekki svo, hún fannst þar í dollu. Tillagan er mun skárri og segir allt sem segja þarf. 

Heitið spænska veikin er ekki skrifuð með stórum staf en það er gert einu sinni í fréttinni.

Tillaga: Veiran sem olli spænsku veikinni fannst á safni.

4.

„Hóp­ur­inn sam­an­stend­ur af …

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Miklu betur fer á því að orða þetta eins og segir í tillögunni.

Sögnin „samanstendur“ er ofnotuð í fjölmiðlum. Hún hefur sjaldnast neitt gildi, skýrir ekkert, hjálpar ekki lesandanum.

Blaðamenn og margir aðrir skrifarar gleyma að til er sögnin að vera sem er yndislega einföld og þægileg í notkun. Alltaf er best að nota einfalt og skrautlaust mál í fréttum.

Í fréttinni segir um leið í fyrirhugaðri hjólreiðakeppi:

Sam­tals þarf þarf að klifra 15.000 metra …

Sá sem er á hjóli „klifrar“ ekki þó svo að í ensku sé í álíka tilvikum notað orðið „climb“. Mun skárra er að segja eitthvað á þessa leið:

Hækkun á leiðinni er samtals um 15.000 metrar … 

Á vef keppinnar segir á ensku:

The full route is 930km (580mi) and each stage is over 200km long

Í frétti á vef Moggans stendur:

Stysta leiðin er Smyr­ill­inn. Það er 809 km leið, þar af 18% á möl, með 11.300 metra hækk­un (rúm­lega 5,3 Hvanna­dals­hnúk­ar). Svo er það Fálk­inn sem er 1.044 km með tæp­lega þriðjung á möl. Sam­tals þarf þarf að klifra 15.000 metra (7,1 Hvanna­dals­hnúk­ur). Að lok­um er það lengsta og erfiðasta leiðin, Örn­inn. Þar er far­in 1.200 km leið …

Sé leiðirnar lagðar saman á að hjóla 3.053 km á fjórum dögum, það er meira en tvisvar sinnum allan hringveginn. Sama segir raunar annars staðar á vef keppninnar og er því meðatalið 763 km á dag sem er eins og að aka frá Reykjavík suður og austur um land og að Mývatni. Hér skal fullyrt að það sé hverjum manni ofraun, þó hann sé í toppformi. Einhver hefur misreiknað sig. 

Slæmt er að blaðamaðurinn hafi ekki komið auga á þetta og ber ruglið fram fyrir lesendur. Hann tekur upplýsingarnar gagnrýnislaust af vef keppninnar sem þykja nú ekki góð vinnubrögð. 

Tillaga: Í hópnum eru

5.

„Íbúar höfuðborgarsvæðisins fengu að kynnast hinum ýmsu veðrabrigðum í gær þegar snöggir stormar gengu yfir Reykjavíkurborg. Þá er gott að vita af skjóli innan handar undan vætu og vindi.

Myndatexti á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 12.1.22.                                    

Athugasemd: Feitletruðu orðin eru dálítið brosleg svo ekki sé meira sagt. Hvað er „skjól innan handar“? Skjól í handarkrika? Nei, varla.

Orðalagið að vera einhverjum innan handar er þekkt og merkir að vera hjálplegur. Svo ef hægt að hafa ýmislegt innan handar og merkir það að hafa eitthvað tiltækt eða auðvelt.

Orðalagið hentar alls ekki í þessu tilvik og er margt skárra til dæmis tillagan hér fyrir neðan.

Svo er það hitt, hvort skjólið sé undan eða fyrir „vætu og vindi“. Menn geta hrakist undan veðri og vindi. Í skjóli er samt var fyrir veðri og vindum.

Tillaga: Íbúar höfuðborgarsvæðisins fengu að kynnast hinum ýmsu veðrabrigðum í gær þegar snöggir stormar gengu yfir Reykjavíkurborg. Þá er gott að geta skýlt sér fyrir veðri og vindi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband