Skipi gert til góða - maður tekinn niður - spila lykilhlutverk

Orðlof

Öræfi

Öræfi heita bara Öræfi en ekki Öræfasveit, jafnvel þótt næsta sveit heiti Suðursveit en ekki bara Suður. 

Páll Imsland, jarðfræðingur. „Öræfi eða öræfasveit“, grein í Morgunblaðinu 21.3.22. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ingibjörg er yngst þriggja systkina og það virðist sem færni í spurningakeppninni sé í blóðinu, enda eru bræður hennar tveir, Jón Kristinn Einarsson og Magnús Hrafn Einarsson, veðraðir keppendur.

Frétt á blaðsíðu sex í Morgunblaðinu 21.3.22.                                     

Athugasemd: Skemmtilega orðað. Lýsingarorðið veðraður getur merkt ýmislegt svo sem lífsreyndur, útlit þess sem ber merki um langa útiveru, veðurbarinn og ýmislegt fleira. 

Orðalagið segir um að bræðurnir Jón og Magnús séu reyndir keppnismenn í spurningakeppninni Gettu betur.

Ástæða er til að hrósa blaðamanninum fyrir frumlegt orðalag og vel skrifaða frétt.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Hval 9 verður gert til góða í slippnum.“

Frétt á forsíðu Morgunblaðsins 22.3.22.                                     

Athugasemd: gera til góða er orðatiltæki sem notað um að hlynna að einhverjum, einkum í mat og drykk samkvæmt því sem segir í bókinni góðu, Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson. 

Moggamenn hafa tilhneigingu til skrúðmælis en virðast ekki alltaf ráða við það. Þó ber að virða að þeir þekki gamalt orðalag.

Tillaga: Hval 9 lagfærður í slippnum.

3.

„Í gærkvöldi var maður tekinn niður af öryggisverði í verslun Hagkaupa í Skeifunni.

Frétt á dv.is.                                      

Athugasemd: Bein þýðing úr ensku er oft tómt bull. Enskir segja:

He was taken down.

Ljótt er að þýða þetta beint á íslensku. Orðalagið merkir að hann hafi verið felldur, skotinn, barinn niður og svo framvegis.

Sé maður tekinn niður merkir það á íslensku að hann hafi staðið hátt og verið fluttur neðar. Það merkir ekkert nálægt því sem segir í enskunni. 

Maður sem er handtekinn er ekki „tekinn niður“.

Í fréttinni segir:

Við það kemur annar starfsmaður búðarinnar til að hjálpa.

Miklu betra er að segja að starfsmaðurinn hafi komið til hjálpar.

Í fréttinni segir ennfremur:

Maðurinn steig fljótlega upp aftur …

Betra er: 

Maðurinn stóð fljótlega upp aftur …

Enn er sagt í fréttinni:

… og að hann hafi verið að reyna að ná sér í slagsmál. 

Varla hefur verslunin selt slagsmál. Líklegra hefur maðurinn reynt að efna til slagsmála.

Fréttin er frekar illa skrifuð og frekar óþægilegt að lesa hana.

Tillaga: Í gærkvöldi handtók öryggisvörður í verslun Hagkaupa í Skeifunni.

4.

„LEX keypti G.H. Sig­ur­geirs­son árið 2018 og frá þeim tíma hef­ur María spilað lyk­il­hlut­verk í rekstri fé­lags­ins.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Skelfing er þetta nú flatt og ómerkilegt orðalag. Gæti hafa verið skrifað af löggu eða íþróttablaðamanni. Mogginn birtir þetta orðrétt úr fréttatilkynningu frá lögmannsstofu. 

Lögmenn virðast almennt aðdáendur kansellístíls, sérhæfa sig í löngum og flóknum málsgreinum og með hræring af fjölda nafnorða en átakanlegum skorti á sagnorðum. 

Þó hafa sést reglulega góðar greinar eftir lögmenn í fjölmiðlum. Þær eru samt sjaldgæfar. 

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Kallar eftir af­sögn fjár­mála­ráð­herra vegna af­sláttar á sölu­verði.

Frétt á visi.is.                                      

Athugasemd: Enginn veit hvað orðalagið að „kalla eftir“ merkir. Er sá sem þetta segir að óska eftir afsögn fjármálaráherra, biðja um hana, krefjast, heimta eða eitthvað annað.

Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að viðmælandinn krefst afsagnar fjármálaráðherra. 

Blaðamaðurinn kannast greinilega ekki við sögnina að krefjast. Hann heldur að betra sé að tala eins og þeir sem mæla á ensku í sjónvarpsþáttum og bíómyndum og notar beina þýðingu á orðalaginu „to call for“.

Og með því að nota „kalla eftir“ þarf ekki að beygja orðið afsögn sem líklega er blaðamanninum ofviða.

Tillaga: Krefst afsagnar fjár­mála­ráð­herra vegna af­sláttar á sölu­verði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband