Lofsvert afrek Sveinbjörns Þórðarsonar forritara
28.3.2022 | 20:53
Menn tala um málverndarstefnu og að vernda íslenskuna og svona en síðan bara... hvar eru gögnin? Hvar eru tólin sem við þurfum til þess að nota íslensku í alþjóðlegu umhverfi? Þau eru á bak við lás og slá. Og mér finnst það bara algjör skandall.
Þetta segir Sveinbjörn Þórðarson, forritari í viðtali við Vísi. Hann hefur stofnað ensk-íslenskan vef, ensk.is. Sá sem heyrir eða les enskt orð sem hann skilur ekki ritar orðið á vefinn og fær þýðinguna samstundis. Þetta er til mikillar fyrirmyndar og stórkostlegt framtak einstaklings sem eiginlega er nóg boðið. Tekur af skarið, bíður ekki eftir öðrum.
Sveinbjörn hefur rétt fyrir sér. Svo ótalmargt er hægt að gera til að auðvelda fólki að tjá sig skilmerkilega. Hér er ekki verið að vanþakka vefinn málið.is sem er frábært hjálpartæki, ekki síst þeirra sem stunda skriftir.
Hversu mikill akkur væri það ekki fyrir íslenskt mál ef ýmsar handbækur væru nú gerðar aðgengilegar á vefnum. Frá unglingsárum hef ég haft Íslenskt orðtakasafn eftir Halldór Halldórsson í seilingarfjarlægt. Sama er með Íslenska málshætti sem Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson tóku saman. Enn fletti ég upp í þessum bókum.
í fréttinni segir Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra:
Ég tek það bara til mín að við getum gert betur. Stjórnvöld eru þó búin að fjárfesta í máltækni áætlun fyrir rúma tvo milljarða sem þýðir að við ætlum að geta talað við tækin okkar á íslensku og erum auðvitað að fjárfesta heilmikið í þessu.
Fagna ber áhuganum en verkin skipta meira máli. Sveinbjörn Þórðarson, forritari, sem ég þekki ekki neitt, er mikil fyrirmynd, afrek hans lofsvert. Slíka menn á að hvetja til frekari góðra verka. Margur hefur fengið Fálkaorðuna fyrir minna en það sem hann hefur áorkað.
Meðal þess sem þyrfti að gera er eftirfarandi:
Færa stórkostlegar bækur Jóns G. Friðjónssonar á vefinn:
- Mergur málsins
- Rætur málsins
- Orð að sönnu
Sama er með íslenskar orðabækur eins og Stóru orðabókina um íslenska málnotkun eftir Jón Hjálmar Jónsson.
Þetta er ekki nóg. Mikilvægt er að halda vefjunum við, auka og bæta. Allt kostar þetta mikið fé og líklega enn meiri fyrirhöfn. Hvað er eiginlega mikilvægara en að styðja við og efla íslenska tungu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.