Kyrkja til dauða - hljóta súrefnisskort - skilur eftir sig dóttur
13.8.2022 | 13:13
Orðlof
Þeir eða þau foreldrarnir
Þegar málfræðilegt kyn orða stangast á við náttúrulegt kyn þess sem orðið vísar til eiga málnotendur oft erfitt með að ákveða í hvaða kyni fornöfn eiga að vera. Á að segja þeir eða þau um foreldra sína eða krakkana í næsta húsi?
Orðin foreldrar og krakkar er bæði karlkyns og með þeim er yfirleitt notað þeir: Ég heimsótti foreldra mína. Þeir eru lasnir.
Þetta getur hljómað illa því bæði þessi orð vísa til blandaðs pars eða hóps.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Minnismerki í Kænugarði þakið sprengjuvarnarpúðum ásamt áköllum til heimsbyggðarinnar.
Myndatexti á blaðsíðu 6 í Fréttablaðinu 10.8.22.
Athugasemd: Þarna stendur að minnismerkið sé meðal annars þakið áköllum. Eftir myndinni að dæma eru þarna margísleg skilaboð rituð á pappaspjöld og fleira. Sprengjuvarnarpúðarnir eru greinilega bara hvítir sandpokar.
Svo er það forsetningin ásamt. Hún er óþörf önnur hefði verið betri eins og sjá má í tillögunni.
Tillaga: Minnismerki í Kænugarði er varið með sandpokum og fyrir neðan eru margvíslegar áletranir.
2.
Að minnsta kosti átta rússneskar herflugvélar virðast hafa verið eyðilagðar í kjölfar þess sem virðist hafa verið árás á flugstöð Rússa á Krímskaga á þriðjudag.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Málsgreinin er slæm. Óþarfa upptugga er virðist hafa, kallast nástaða. Oft getur verið gott að nota ekki fornafnið þess. Það er ofnotað; til dæmis mikilvægi þess, og býr til flatt og tilgerðarlegt mál.
Í fréttinni segir:
Rússland hefur í yfirlýsingum sínum um atburðinn neitað því að herflugvélar hafi skemmst, á skjön við nýju gervihnattamyndirnar.
Þarna vantar eitthvað inn í, til dæmis: sem er á skjön við nýju gervihnattamyndirnar.
Tillaga: Að minnsta kosti átta rússneskar herflugvélar virðast hafa verið eyðilagðar í því sem kann að hafa verið árás á flugstöð Rússa á Krímskaga á þriðjudag.
3.
og ekki leyfa andrúmsloftinu að kyrkja okkur til dauða.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Sögnin að kyrkja merki að drepa með því að þrengja að hálsi. Of mikið er að kyrkja mann til dauða. Sá sem hefur verið kyrktur er ekki á lífi, hann er dauður.
Í fréttinni segir:
Við erum með DNA í okkar liði
Þetta skilst ekki. Má vera að þara vanti eitt a, að fótboltaliðið sé með danskan leikmenn en hvers vegna eru þá notaður hástafir.
Of mikið er að tvítaka að þjálfarinn hafi setið fyrir svörum. Blaðamaðurinn gleymir að lesa frétt sína yfir fyrir birtingu.
Tillaga: og ekki leyfa andrúmsloftinu að kyrkja okkur.
4.
Hún hlaut mikinn súrefnisskort sem olli alvarlegum heilaskaða.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvernig er hægt hljóta súrefnisskort? Honum er ekki úthlutað og því verða menn fyrir súrefnisskorti. Eða er hægt að hljóta hungur, handleggbrot, þunglyndi eða eitthvað álíka?
Tillaga: Hún varð fyrir miklum súrefnisskort sem olli alvarlegum heilaskaða.
5.
Pure North gerir staura úr endurunnu heyrúlluplasti.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 12.8.22.
Athugasemd: Markaðurinn er á Íslandi, kaupendurnir eru íslenskir, hráefnið er íslenskt og plaststaurarnir eru settir í íslenska jörð.
Samt er fyrirtækið nefnt Pure North. Er til eitthvað bjálfalegra í íslensku viðskiptalífi? Enn eitt dæmið um hnignun íslensks máls.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Magnað sjónarspil.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 14.8.22.
Athugasemd: Tilkomumikið eldgos, sólarlag, skýjafar, brim og svo framvegis er oftar en ekki í fjölmiðlum kallað sjónarspil. Orðið er ofnotað og útjaskað, orðið nærri því merkingarlaust. Hvað er að því að tala um fegurðina í eldgosinu, sólarlaginu, skýjafarinu og briminu? Eða dulúð, ásýnd, sýning og svo framvegis. Finna upp á einhverju laglegu í stað þess að apa upp eftir öðrum.
Tillaga: Mikilfengleg sjón.
7.
Olivia Newton-John skilur eftir sig eina dóttur
Frétt á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 15.8.22.
Athugasemd: Fyrir kemur að fólk skilur eftir sig símann, vegabréfið, gleraugun og jafnvel annað þegar það fer út úr húsi. Sumir eru jafnvel vísir með að gleyma sjálfum sér.
Þegar kallið hinsta kemur skilur enginn neitt eftir sig. Á íslensku er það orða þannig að sá sem deyr lætur eftir sig nána eftirlifendur, maka, börn og jafnvel samrýmda vini.
Mikill munur er að láta eftir sig og skilja eftir sig. Fellibylur skilur eftir sig slóð eyðileggingar, segja fjölmiðlar. Varla lætur hann neitt eftir sig þó hann verðið að lægð og hverfi loks.
Tillaga: Olivia Newton-John lætur eftir sig eina dóttur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.