Strjáfall - gera gott aðgengi - trú á að Selfoss drífur verkefnið áfram

Orðlof

Prúttinn, óprúttinn

Lýsingarorðið prúttinn hefur tvenns konar merkingu. Annars vegar er það notað um þann sem er hneigður til að prútta og hins vegar um þann sem er grandvar og er því vel hægt að vera prúttinn án þess að því fylgi niðrun. Í síðari merkingunni er orðið þó oftast haft með neitun, ekki prúttinn eða óprúttinn.

Eins og sjá má af fyrri merkingunni er lýsingarorðið skylt sögninni að prútta ‛þjarka um verð, þrefa’. Hún er til í málinu frá því á 18. öld og er tökuorð úr dönsku prutte í sömu merkingu.

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Leit að manninum bar ekki árangur í nótt en upphafleg staðsetning hans var talin vera á Strjáfalli.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þrátt fyrir mikla leit finn ég ekki stað sem ber örnefnið „Strjáfall“. Líklega hefur orðið verið ritað vitlaust. Verður spennandi að sjá hvort það verði leiðrétt. Tveimur dögum eftir birtingu fréttarinnar hafði það ekki verið gert og er því líklegt að „Strjáfall“ sé örnefni við Hvalvatnsfjörð. Hins vegar leiðrétta fjölmiðlar sjaldan ambögur sem þeir hafa birt.

Fyrirsögn fréttarinnar getur valdið misskilningi:

Hífðu mann í sjálfheldu með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Líklega hefur þyrlan híft manninn úr sjálfheldu frekar en í hana. Annað væri þarflaust.

Í fréttinni segir:

Um 60 manns úr björgunarsveitum unnu að aðgerðinni en stefnt var á vettvang úr tveimur áttum á landi og einnig voru tveir bátar sendir á vettvang.

Greinilegt er að margir blaðamenn telja að orðið „vettvangur“ gefi fréttum trúverðugan og greindarlegan blæ. Orðið er gott og gilt en ofnotað. Tvisvar kemur það fyrir í tilvitnaðri málsgrein sem er of mikið. Í fyrr skiptið hefði mátt nota nafnorðið ’staður’ með greini og í seinna skiptið nota atviksorðið ’þangað’.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Stórvirkar vinnuvélar eru á svæðinu og er verið að reyna að gera gott aðgengi og erum við að nota þetta veður til þess.

Fésbókartilkynning frá Lögreglunni á Suðurnesjum.

Athugasemd: Hvað þýðir þessi málsgrein? Jú, verið er að lagfæra gönguleiðina að gosstöðvunum. Málsgreinin er illa samin og er það að vonum. Löggan vandar sjaldnast skrif sín eða kann ekki að skrifa.

Í tilkynningunni stendur einnig:

Það eru vinsamleg tilmæli frá okkur til ykkar

Skelfing er þetta kjánalega skrifað. Útilokað er að það fari á milli mála hver sendir tilmælin. Þeim er aðeins beint til þeirra sem ætla á gosstöðvarnar. Ekki annarra. Þó er notað orðalagið „til ykkar“ sem er afar óljóst enda er sjaldan talað á þessa leið á íslensku. Betur hefði farið að sleppa feitletruðu orðunum. Við það hefði merking málsgreinarinnar ekkert breyst.

Í tilkynningu stendur ennfremur:

… að biðla til ykkar að fara ekki þarna upp í dag þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi ykkar. 

Hvorki lögregla né björgunarsveitir geta tryggt öryggi fólks enda ekki verkefni þeirra. Annars væri hægt að kenna þeim um allt sem misferst, öll  óhöpp og slys.

Af hverju „biðlar“ löggan? Eru þeir sem biðla biðlendur á sama hátt og þeir sem biðja eru biðjendur? Eða er lokað svæði á Fagradalsfjalli biðlenda?

Ekki er að efa að tilkynningin er skrifuð af góðvild en löggan hefði átt að biðja einhvern um að lesa hana. Koma til dæmis í veg fyrir ofnotkun nafnorða og leiðrétta meinlega stafsetningavillu í upphafi tilkynningarinnar.

Tillaga: Meðan veður er slæmt til gönguferða er tíminn nýttur til að laga gönguleiðina að gosstöðvunum með stórvirkum vinnuvélum

3.

„Þau voru fjög­ur en það er búið að hirða upp ein­hverja til viðbót­ar í leiðinni.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um ferðamenn sem fóru að gosstöðvunum þó mælst hafi verið til þess að fólk léti það ógert vegna veðurs.

Í ummælum formanns björgunarsveitar í Grindavík er vanþóknunin á ferðamönnum auðsæ - og ekki í fyrsta sinn. Ferðamenn eru „hirtir upp“.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Gostímabilið gæti virkjað eldstöðvar nær Reykjavík.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Allt er nú virkjað og allt virkjast. „Viðbúnaðarstig“ er sagt virkjað, gul viðvörun er virkjuð, fallvötn eru virkjuð, gufuafl er virkjað, útkall er virkjað og svo framvegis.

Er ekki tími kominn til að virkja fjölbreytnina í tungumálinu.

Tillaga: Gostímabilið gæti vakið eldstöðvar nær Reykjavík.

5.

„Mikil trú á Selfoss drífur verkefnið áfram.

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Setningin hlýtur að stinga í augu allra. Svona er hún rugl af því að hún er höfð í framsöguhætti en orðalagið krefst þess að hún (ekki er) í viðtengingarhætti.

Tillaga: Mikil trú á Selfoss drífi verkefnið áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Alltaf góðar athugasemdir hjá þér.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.8.2022 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband