Svíkjast undan skatti - fara erlendis - ná utanum mál
22.8.2022 | 19:57
Orðlof
Innflutningur máltækja
Fáir íhuga lengur hvort krossa fingur eða elta drauminn séu innfædd eða aðfengin sambönd. Sama er upp á teningnum í íþróttalýsingum. Þar er ekki langt síðan fólk fór að kasta inn handklæðinu eða vera á eldi en það þótti einmitt fyndið fyrst, hlegið stórkarlalega. En ei meir. Að ekki sé minnst á við skildum allt eftir inni á vellinum
Sum þessara nýinnfluttu orðtaka krefjast þess að við skiljum þau svokölluðum óeiginlegum skilningi [ ] Þetta er myndmál sem ávinnur sér hefð.
Og þar sem við eigum sæg af rótgrónum orðatiltækjum í okkar eigin málheimi, sem dekka flest sem lýsa þarf, hlýtur að teljast sérkennilegt, ef ekki allsendis óþarft, að flytja svona viðnámslaust inn máltæki sem krefjast eiginlega meistaragráðu í málsögu, þótt málsaga heimsins sé ágæt fyrir sinn hatt (sem er orðtak).
Tungutak, Sigurbjörg Þrastardóttir. Blaðsíða 26 í Morgunblaðinu 20.8.22.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hann játaði í dag að hafa svikist undan skatti í viðskiptum sínum fyrir Trump-fjölskylduna, með því að hafa láðst að gefa upp til skatts yfir 1,7 milljónir dollara sem runnu til fyrirtækjanna.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er illskiljanleg málsgrein. Orðalagið að svíkja undan skatti er þekkt. Að svíkjast undan skatti er líklega ekki til?
Svíkja og svíkjast getur verið tvenn ólíkt.
Sá sem svíkur, hann falsar, blekkir, brýtur loforð, gengur á bak orða sinna. Svíkja undan skatti er að skjóta skattskyldum tekjum eða eignum undan svo ekki þurfi að greiða af þeim.
Svíkjast getur verið dregið af sögninni að svíkja en merkir að gera ekki það sem á að gera; svíkjast um að koma, læra, borga og svo framvegis.
Enginn svíkst undan skatti, þetta er orðleysa.
Víkjum aftur að tilvitnuninni. Hún verður ekki skilin á annan hátt en að maðurinn hafi svikið undan skatti fjárhæð sem rann ekki í vasa hans. Eitt og sér er það hvergi ólöglegt, en þetta er tóm vitleysa. Blaðamaðurinn og lesendur skilja ekkert.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Annar möguleikinn sem Ari Trausti nefnir er að gosinu lýkur brátt og hlé verður á.
Frétt á Víkurfréttum, vf.is.
Athugasemd: Þarna ættu feitletruðu orðin að vera í viðtengingarhætti. Málkenndin svíkur fæsta. Berum saman tilvitnunina við tillöguna.
Tillaga: Annar möguleikinn sem Ari Trausti nefnir er að gosinu ljúki brátt og hlé verði á.
3.
Ert þú að fara erlendis?
Auglýsing fyrirtækis á fésbókinn.
Athugasemd: Þetta stingur í stúf. Í málfarsbankanum stendur eftirfarandi:
Atviksorðið erlendis merkir: í útlöndum.
Það er því eðlilegt að segja dveljast erlendis en aftur á móti ekki erlendis frá og fara erlendis.
Fremur skyldi segja frá útlöndum og fara út (utan), fara til útlanda.
Þetta er afar skýrt og engu við að bæta.
Tillaga: Ertu að fara til útlanda?
4.
Þrír aðilar voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, tilkynning á fésbókinni.
Athugasemd: Hvað er aðili? Löggan forðast að segja að þrír menn hafi verið dæmdir í varðhald. Hún telur sig þurfa að upphefja sig, tala löggulega, nota orðalag sem alþýða manna grípur aldrei til. Fyrir vikið verður tilvitnunin skrýtin en rembingurinn leynir sér ekki.
Aðili er ofnotað orð. Er átt við karl, konu, barn, fyrirtæki í einkaeigu eða hlutafélag, opinbera stofnun ?
Í málfarsbankanum segir:
Athuga að ofnota ekki orðið aðili.
Hjá löggunni er ekki farið eftir þessari ágætu reglu. Sumir blaðamenn ættu að tileinka sér hana.
Tillaga: Þrír menn voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald
5.
Sjálfur er að hann enn að reyna að ná utan um málið.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Venjulega reyna menn að átta sig á málinu, staðreyndunum.
Í fréttinni segir:
Þetta er bara sorglegur harmleikur sem hér hefur átt sér stað.
Harmleikur er alltaf sorglegur, þess vegna ber hann heiti sem byrjar á harmur. Líka er til sorgarleikur og hann er þrunginn harmi.
Óþarfi er að segja að það sem hafi gerst hafi átt sér stað.
Atviksorðið bara gegnir þarna (bara) engum tilgangi.
Það sem hér hefur gerst er sorglegt.
Blaðamanni ber að lagfæra orðalag viðmælanda síns.
Tillaga: Sjálfur er að hann enn að reyna að átta sig á því sem gerst hefur.
Athugasemdir
Sæll
Ég hef það eftir Jóni heitnum Böðvarssyni (frá því ég las og lærði um íslendingasögurnar) að "fara út" þýddi að fara til Íslands (frá Noregi) og að "fara utan" þýddi þá að fara frá Íslandi (gjarnan til Noregs). Því væri ekki rangt að tala um að fara utan þegar ég færi til útlanda.
Þegar ég er spurður að því hvort ég hafi farið eitthvað erlendis svara ég yfirleitt að ég hafi mest dvalið á sama stað.
Kv. Magnús Axel
Magnús Axel Hansen (IP-tala skráð) 23.8.2022 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.