Hópur inniheldur þingkonu - Birgitta tröllríður - Alias eykur orðaforðann

Orðlof

Íðþrótt

Íþrótt er samsett orð þó lítið sé. Seinni hluti orðsins er líklega skyldur orðinu þróttur ’afl, þol; hreysti’, en hinsvegar er fyrri hlutinn, ’í-’, nokkur ráðgáta. Oft er talið að það sé sprottið af orðunum og íð (sbr. iðn). 

Upphaflega hefði orðið þá átt að vera ’íð-þrótt’ og gæti merkt: ‘iðn stunduð af þrótti og elju’, enda hafði orðið mun víðari merkingu áður fyrr og var notað um ýmiss konar athafnir sem kröfðust ákveðinnar leikni, t.d. hannyrðir og kveðskap.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hópurinn er einnig sagður innihalda Birgit Malasack-Winkemann, fyrrverandi þingkonu …

Frétt á vísi.is.

Athugasemd: Nei, þetta má ekki segja. Svona orðalag er hroðvirknislegt. Hópur „inniheldur“ ekki fólk. Fólk myndar hóp, er í hópi. Aftur á móti inniheldur sælgæti óþarfa eins og sykur og fleira áferðarfallegt en óhollt.

Í fréttinni er talað um skipulagningu valdaráns sem er gott orðalag. 

Í fréttinni er talað um „húsleit í rúmlega 130 stöðum“. Skárra er að orða þetta þannig að húsleitin hafi verið gerð á meira en 130 stöðum …

Hrósa má blaðamanninum fyrir að koma aðalatriði fréttarinnar fyrir í upphafi og skýra nánar frá atvikum eftir það. Hann getur kennt kollegum sínum og jafnvel stjórnendum Vísis að skrifa á þennan hátt.

Tillaga: Í hópnum er Birgit Malasack-Winkemann, fyrrverandi þingkonu …

2.

„Birgitta Haukdal hefur tröllriðið bóksölulistum lengi …

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Sögnin að tröllríða er ekki jákvæð. Þeir sem vilja geta sagt að glæpir, spilling, óheiðarleiki tröllríði samfélaginu. Enginn myndi segja að jólin „tröllríði“ almenningi í desember.

Tröllið sem ríður hesti á slig er að skaða hann. Slig er að þjaka eða brjóta niður og sá sem sligast er að bugast, brotna niður.

Oftast er betra að sleppa málsháttum og orðtökum í fréttum. Alltaf er hætta á því að rangt sé farið með. 

Tillaga: Birgitta Haukdal hefur lengi verið efst á bóksölulistum …

3.

Notið ímyndunaraflið og aukið orðaforðann.“

Auglýsing um spil í Fréttablaðinu 7.12.22.

Athugasemd: Þetta lofar góðu ef spilið héti nú eitthvað annað en „alias“. Hvað er eiginlega að spilahöfundum. „Alias“ og „kviss“. Er þetta beinlínis ætlað að breyta íslensku máli?

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Borgin hætti við breytingar á Vin.“

Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 10.12.22.

Athugasemd: Viðtengingarháttur getur verið varasamur, ekki síst í fyrirsögnum fjölmiðla. Halda mætti að borgin hafi hætt við breytingar, það er sögnin að hætta sé þarna í þátíð. Svo er ekki þegar nánar er lesið.

Auðvitað er þetta smáatriði en vert að hafa í huga að orðalag má ekki valda misskilningi.Tillagan er skárri því hún tekur mið af ÖBÍ réttindasamtaka sem er efni fréttarinnar.

Svo er það annað mál og alvarlegra að viðtengingaháttur er við það að hverfa úr málinu eins og hér hefur oft verið bent á.

Tillaga: Vilja að borgin hætti við breytingar á Vin.

5.

11 manns hafa þegar verið teknir af lífi fyrir sakir …“

Leiðari Morgunblaðsins 10.12.22. 

Athugasemd: Enginn fjölmiðill nema Morgunblaðsins byrjar jafn oft málsgrein á tölustaf. Gera má fyrir að þeir sem ráða þarna ríkjum skrifi á þennan hátt og er því ekki furða þó almennir blaðamenn api eftir, því „það nema börnin sem í bæ er títt“.

Letinni er engin takmörk sett telji ritari leiðarans miklu auðveldara að skrifa með tölustöfum en bókstöfum, 11 í stað ellefu.

Skyld’ann Davíð vita af þessu? Mjög ólíklegt er að hann sé höfundurinn. 

Tillaga: Ellefu manns hafa þegar verið teknir af lífi fyrir sakir …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband