Vel staðsett hús - það að ofkæling sé orsök - svæði í Reykjavík -

Orðlof

Brigsl, rógur og kjaftasögur

Svipaðrar merkingar er til dæmis að rægja, brigsla og væna; að láta ærumeiðingar berast og liggja í loftinu. Að segja, eða gefa í skyn að tiltekinn aðili hafi gert eitthvað af sér; að svipta mann ærunni utan við réttarkerfið. 

Mörg orð hafa sambærilega merkingu: Orðrykt, byggðarymt, vont orð, orðrómur, baktal, söguburður, slúður, undirróður og einelti. 

Í þessu samhengi varðar útbreiðsla á kjaftasögunni um ósannaðar sakir meiru en hvort sagan sé sönn. 

Lára Magnúsardóttir. Málaferlar, blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 3.12.22. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Húsið er vel staðsett í jaðri hverfisins með …“

Auglýsing á fasteignablaði Fréttablaðsins 6.12.22. 

Athugasemd: Allt er staðsett, fátt er á góðum stað. Svona dreifist einhæft ritmál út um allt. 

Enskir myndu segja: „the house is well located“.

Tillaga: Húsið er á góðum stað í jaðri hverfisins með …

2.

„Kalla þurfti út dælu­bíl og sjúkra­bíl til að bjarga drengj­un­um í gær af eyj­unni …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Orðaröð í setningu eða málsgrein skiptir máli. Rökréttara er orða þetta eins og segir í tillögunni.

Svo má velta því fyrir sér til hvers dælubíllinn var notaður. Var kannski ætlunin að dæla úr Elliðavatni til að ná til drengjanna? Sem betur fer var það ekki gert. Þó er ekkert um þetta sagt í fréttinni.

Tillaga: Kalla þurfti út dælu­bíl og sjúkra­bíl í gær til að bjarga drengj­un­um af eyj­unni …

3.

33 af 34 jöklum sem norska vatns- og orkuforðastofnunin mælir hafa hopað síðasta árið.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Sú regla að byrja ekki málsgrein á tölustaf er gömul. Hafi nýliðar í blaðamennsku ekki lært hana í mennta- eða fjölbrautarskóla ættu þeir að hafa tileinkað sér hana af lestri fjölmiðla og bókmennta, jafnvel í háskóla. 

Hafi þeir hvorki tekið eftir í skóla eða lesið fjölmiðla og bókmenntir en hefji engu að síður störf sem blaðamenn á Ríkisútvarpinu verður að segjast eins og er að stjórnendur stofnunarinnar hafi brugðist. 

Hafi blaðamaðurinn þýtt heiti norsku stofnunarinnar ber að hafa það með stórum staf.

Í fréttinni segir:

Jöklarnir 34 hopuðu að meðaltali 25 metra.

Þetta er skrýtið. Hvers vegna er meðaltalið reiknað af 34 jöklum en ekki 33? Einn jökull hopaði ekki en samt er hann með í útreikningnum.

Tillaga: Alls hafa 33 af 34 jöklum sem Norska vatns- og orkuforðastofnunin mælir hafa hopað síðasta árið.

4.

Það að ofkæling sé orsök andlátsins eykur ábyrgðina á lækninum …

Frétt á dv.is.

Athugasemd: Ekki geta allir þýtt á íslensku svo vel sé jafnvel þó enskukunnáttan sé framúrskarandi. Ofangreind málsgrein er komin úr enska fréttavef „Daily mail“. Þar segir:

The cause of death being hypothermia increases the responsibility of the doctor …

Greinilega vel skrifað á ensku en þýðingin er slæm. Enginn byrjar málsgrein á flatneskju eins og „Það að ...“. Google translate þýðir betur en blaðamaðurinn:

Dánarorsök er ofkæling eykur ábyrgð læknisins …

Þetta er samt alls ekki nógu gott. Tillagan er skást.

Tillaga: Sé ofkæling dánarorsökin ber læknirinn ábyrgðina …

5.

„… um meinta hnífstungu á svæði 101 í Reykja­vík í dag.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Stundum gerist það að maður fær álit á blaðamanni sem bæði virðist ritfær og skynsamur. Svo birtist „frétt“ eftir sama mann og er hún höfð er eftir löggunni. Blaðamaðurinn virðist hafa týnt skynseminni og birtir lögguþvæluna orðrétta.

Hvar er til dæmis „svæði 101“ í Reykjavík? Í fréttinni eru lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu  kenndar við tölustafi. „Lögreglustöð einn“ var til skamms tíma sögð vera lögreglustöðin við Hverfisgötu og það nægði.

Sami blaðamaður, sá sem hér var sagður bæði ritfær og skynsamur, talar um atburði sem gerast í póstnúmerum. Það er jafnvitlaust og að segja að eitthvað hafi gerst í 26/1994 (lög um fjöleignahús) eða í fimmtu línu í dagbók löggunnar.

Svo er það fréttamatið. Er það frétt að einstaklingur (karl eða kona) hafi verið sofandi í bíl eða að börn hafi verið á ísi lögðu Rauðavatni? 

Svo voru það „aðilarnir“ sem voru „með rænulaus konu á milli sín“. Ekki kemur fram kynferði aðilanna eða hvort þau/þær hafi verið í rúminu. Vera má að „aðilarnir“ hafi verið tveir  „viðbragðsaðilar“. Báru „aðilarnir“ konuna sem var „á milli þeirra“? Sá sem er „rænulaus“ getur verið sofandi. Var hún ekki vakin og spurð að því hvað hún væri að gera á milli „aðilanna“? Þetta minnir á ævintýrið um Þyrnirós og aðilana sjö.

Fréttin er illa gerð, teygð og toguð og stendur varla undir nafni. 

Ein regla er svona: Sé ekkert fréttnæmt í dagbók löggunnar er engin ástæða til að tíunda smælkið sem þar er að finna.

Tillaga: Engin tillaga

6.

„Portúgal lék á als oddi gegn Sviss

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Óskaplega er nú gaman þegar blaðamaður fer rétt með orðtak. Sá sem leikur á als oddi er sagður ráða sér varla fyrir gleði, leikur við hvern sinn fingur.

Alur er oddhvasst verkfæri úr járni. Algjörlega óljóst er hvernig skýringin á orðtakinu er fengin. Síst af öllu er skemmtun í því fólgin að stíga dans á oddhvössu járni.

Eflaust getur lesandinn skýrt þetta fyrir aumum pistlahöfundi. Hins vegar á blaðamaður Ríkisútvarpsins hól skilið fyrir að skrifa ekki „alls oddi“.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband