Klauf Everest - dælubíll sem forðaði tjóni - mikil vinna verið unnin
5.6.2023 | 09:59
Orðlof
Greinir og eignarfornafn
Þó keyrir um þverbak(ið?) þegar greinir OG eignarfornafn fylgja ólíklegustu fyrirbærum, líkt og þau séu okkur sérlega náin.
Gott og vel með börn (Sifin mín á afmæli í dag, þá er Bjarkinn okkar loksins fermdur, þessi gullmoli fékk nafnið sitt í dag ... úff, samt) en þá er ekki allt talið, því: Það eru ekki allir sem ræða opinskátt um ófrjósemina sína, sagði sérfræðingur. Og annar: Það er svifrykið okkar sem ... Óvænt stílbragð og í sjálfu sér frjálst, enda höfum við alltaf val(ið).
Sigurbjörg Þrastardóttir. Tungutak í Morgunblaðinu 27.5.23.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Klauf Everest-fjall fyrir ömmu
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvorki fjallamenn né aðrir hafa klofið hafa fjöll og raunar ganga engar sögur af mönnum sem hafa reynt það. Sem betur fer er hæsta fjall jarðar, Everest, óbreytt. Skiptir engu þó vefútgáfa Moggans haldi því fram að fjallgöngumaður hafi klofið tindinn.
Í fréttinni segir:
Í þetta sinn gekk ferðalagið betur og klauf Yandi tindinn
Og:
Hugmyndin um að kljúfa Everest
Eftirfarandi málsgrein bendir til að blaðamaðurinn kunni ekki að beygja sögnina að klífa:
Tilfinningin við að kljúfa tindinn hafi verið mögnuð og hann sé sérstaklega stoltur yfir því að hafa klifið tindinn
Ég veit ekki hvort sé hræðilegra að frétt fái að standa með villum og vitleysum í langan tíma á vefútgáfunni eða að enginn í ritstjórninni skuli leggja það á sig að lesa fjölmiðilinn með gagnrýnum augum. Hvað í ósköpunum eru stjórnendur Moggans að gera?
Svo er það ofnotaða orðalagið að toppa tindinn. Út af fyrir sig er það ekki rangt þó flestir reyni að ná tindinum, komast á tindinn. Þeir sem klífa Everest leggja mikið á sig og hreint út sagt niðurlægjandi að segja þá hafa toppað fjallið.
Í fréttinni segir:
þegar hann toppaði tind Everest-fjalls í síðustu viku.
Svo þetta:
Ferðalagið var önnur tilraun Yandi til þess að toppa Everest
Lítum á misheppnuð skrif blaðamannsins mildum augum en stjórnendur miðilsins standa sig hörmulega illa. Það var ekki fyrr en tíu tímum síðar að fréttin var lagfærð. Þá höfðu margir lesendur blaðsins hneykslast á henni til dæmis á Facebook.
Í laugardagsblaði Morgunblaðsins 27.5.23 er frétt á blaðsíðu 16 og er þar greint frá afreki Kúbumannsins á Everest og er fréttin merkt sama blaðamanni og sú í vefútgáfunni. Þar kemur hvergi fram að maðurinn hafi klofið fjallið og óneitanlega dregur það svolítið úr afrekinu.
Blaðamönnum er hollt að hafa í huga að fjölmargir lesendur eru vel að sér í íslensku og sjá umsvifalaust villur. Villuleitarforrit eru góð en alls ekki fullkomin. Þau eru beinlínis heimsk, hugsa ekki; hafa ekkert vit á orðalagi, málsháttum, orðtökum eða stíl. Betra er því að vanda sig.
Tillaga: Kleif Everest-fjall fyrir ömmu
2.
Það átti fyrir Eyjólfi að liggja að falla fyrir hendi systur sinnar sem
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Orðalagið er kjánalegt: fyrir honum að liggja að falla. Margir eru blindir á eigin skrif, átta sig ekki á því sem betur mætti fara. Góðir skrifarar fá hjálp, biðja aðra um að lesa yfir, laga og leiðrétta. Tilsögn er byrjendum óskaplega mikilvæg.
Blaðamaðurinn tók til þess ráðs að endursegja grein sem hafði birst í öðrum fjölmiðli árið 1992. Í sannleika sagt er heimildin miklu betur skrifuð.
Tillaga: Örlög Eyjólfs urðu þau að systir hans myrti hann
3.
Mannvit mun í framhaldinu taka upp nafnið COWI
Frétt á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 1.6.23.
Athugasemd: Fagurt orð er mannvit og hreinlega afbragðs heiti á fyrirtæki. Nú hefur það verið selt til Dana og mun framvegis nefnast Cowi. Íslenskunar óhamingju verður allt að vopni, svo alkunnu orðalagi sé umsnúið.
Og nú virðast danskir Cowi menn ætli að reka Mannvit án mannvits og vonast til enn meiri viðskipta enda sagt að mörlandinn sé veikur fyrir útlendum heitum fyrirtækja.
Tilhneigingin er sú að fleiri og fleiri fyrirtæki kasta ágætum heitum á íslensku fyrir róða og taka upp ensk heiti eða ruglingslegar skammstafanir. Þetta er miður en er hluti af niðurlægingu íslenskrar tungu og hnignun hennar og þeim Íslendingum til skammar sem svona gera.
Cowi ... Hrikalegt.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Dælubíll var kallaður út og tókst að forða tjóni.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Eins gott að dælubílnum tókst að bjarga tjóninu, koma því á öruggan stað.
Íslenskukennarinn í mennta- eða framhaldsskóla hefði aldrei samþykkt að hægt sé að forða tjóni. Þess í stað er reynt að koma í veg fyrir tjón og stundum tekst það.
Nú eru sumarstarfsmennirnir komir til starfa á fjölmiðlunum. Þeir eiga að sjálfsögðu að vera ferskari og betur skrifandi en gömlu jálkarnir.
Í fréttinni er sagt að einstaklingar hafi verið fluttir á slysadeild. Ekki menn heldur einstaklingar. Hver skyldi vera munurinn á þessum tveimur tegundum?
Tillaga: Dælubíll var kallaður út og með honum tókst að afstýra tjóni.
5.
Á Íslandi hefur einnig mikil vinna verið unnin að undanförnu til að tryggja orkuöryggi almennings.
Aðsend grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 5.6.23.
Athugasemd: Vinna er unnin, stökk er stokkið, hlaup er hlaupið, skrif eru skrifuð. Þetta eru furðulegar samsetningar og sjást stundum í fjölmiðlum.
Ofangreind tilvitnun er stirðbusalega orðuð og greinin öll frekar stofnanaleg.
Tillaga: Á Íslandi hefur mikið verið gert til að tryggja orkuöryggi almennings.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta, þetta er ótrúlega fyndið. Klauf tindinn!
Hörður Þórðarson, 6.6.2023 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.