Undilendi á fjallstoppum - raungerist þetta raungerist annað - fara offörum

Orðlof

Fjörfiskur

Ekki eru þó allir fiskar lagardýr því orðið fiskur getur einnig þýtt ’vöðvi’ eða ’þroti undir húð’. 

Þessa merkingu má t.d. sjá í orðunum fjörfiskur ’ósjálfráðir vöðvakippir í andliti’, kinnfiskur (einkum í lýsingarorðinu kinnfiskasoginn) og í orðatiltækinu að vaxa fiskur um hrygg sem merkir ’að eflast, taka framförum’.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þessi mikli fjallasalur er ólíkur öðrum fjöllum á Vestfjörðum að því leyti að mun minna undirlendi er á fjallstoppum …“

Frásögn á Þingeyrarvefnum.

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun er frekar brosleg. Giska má á að höfundurinn eigi við að tindar séu efst á fjöllunum, ekki slétta eins og víða er á Vestfjörðum.

Engu að síður er vefurinn áhugaverður, ekki síst sá sem fjallar um gönguleiðir enda hef ég í hyggju að arka að minnsta kosti eina þeirra í sumar.

Tillaga: Þessi mikli fjallasalur er ólíkur öðrum fjöllum á Vestfjörðum því tindar eru efst, ekki sléttur.  

2.

Raungerist sú sviðsmynd er ólíklegt að áform stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu íbúða á næstu tíu árum muni raungerast.“

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 23.5.23.

Athugasemd: Sögnin að „raungera“ er afskaplega gáfuleg en þarna hefur myndast nástaða sem er aldrei góð.

Orðalagið tekur blaðamaður Moggans úr hagspá ASÍ. Í henni lifir kansellístíllinn góðu lífi eins og sveppur í rakaskemmdri íbúð.

... að íbúðafjárfesting dragist saman á næsta ári, þar sem hærri fjármagnskostnaður og minni eftirspurn eftir húsnæði kunna að hafa neikvæð áhrif á byggingaráform verktaka.

Hjá ASÍ virðist ekki mælt á alþýðumáli en hugsanlega er átt við eftirfarandi:

Kaup á íbúðum mun dragast saman á næsta ári vegna þess að hærri vextir og lítil eftirspurn mun draga úr byggingaframkvæmdum.

Alþýða manna talar ekki um að eitthvað „raungerist“, aðeins gáfumannaelítan notar svona framandleg orð. Flestir myndu orða þetta eins og segir í tillögunni,

Tillaga: Gagni þetta eftir verður varla af stórfelldri uppbyggingu íbúða á vegum stjórnvalda á næstu tíu árum.

3.

„Þjálfun flugmanna er auðvitað eitthvað sem verður að ljúka áður en hægt er að láta Úkraínumenn fá F-16 vélar.

Frétt á DV.is. 

Athugasemd: Margir blaðamenn hafa ekkert auga fyrir stíl. Bendi lesandanum á að bera saman tilvitnunina og tillöguna.

Tillaga: Þjálfun flugmanna verður að ljúka áður en hægt er að láta Úkraínumenn fá F-16 vélar.

4.

Valkostirnir hafa alltaf verið skýrir.“

Aðsend grein á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 24.5.23.

Athugasemd: Vera má að baráttan gegn draslorðinu „valkostur“ sé fyrir löngu töpuð en enn er þó leyfilegt að spyrna við fótum. Orðið er myndað af val og kostur en bæði geta komið í stað „valkostur“. 

Gáfumenn hafa búið til „valkostagreining“ enda er líklega of mikil vinna að greina kosti.

Mörg álíka kjánalega mynduð orð eru til. Nefna má tvítekningarorðið bílaleigubíll, Bláfjallafjallgarður, pönnukökupanna, borðstofuborð, hestaleiguhestur, gönguskíðagöngukeppni, orðabókarorð og mörg fleiri brosleg orð sem eiginlega eru aðeins til gamans, en sum eru þó í fullri notkun.

Engum stekkur þó bros á vör þegar „valkostur“ ber á góma. Eiga þó allir val þó kostirnir séu fáir; brosa eða ekki.

Höfundur talar um „sitjandi ríkisstjórn“ þó nóg hefði verið að nefna ríkisstjórnina, það er með greini, því hverju sinni er aðeins ein við völd. Enginn ruglast á því. Stundum er talað um núverandi ríkisstjórn. Allur gangur er á því hversu oft ráðherrar sitji eða standi.

Gagnslaust og alger óþarfi er að troða enska orðalaginu „sitting government“ inn í íslensku. Því fylgir aðeins ógagn. Að öðru leyti er greinin áhugaverð og vel skrifuð.

Tillaga: Kostirnir hafa alltaf verið skýrir.

5.

„Lönd alræmd fyrir aftökur „fóru offörum“.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Offari er atviksorð, þekkist einkum í orðasambandinu að fara offari. Orðið „offör“ þekkist ekki.

Tillaga: Lönd alræmd fyrir aftökur „fóru offari“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Tek undir þetta allt sem kemur hér fram. Vil bæta einu við hér í lokin með orðasambandið að fara offari, ég hef lesið að upphaflega hafi það verið svona: Að verða offari. Mér finnst það hljóma betur, því hér er enn tvítekning á sögninni að fara.

Þó eru sennilega litlar sem engar líkur á að landsmenn taki aftur upp hið upprunalega, það þarf mikið átak til þess.

Ingólfur Sigurðsson, 26.5.2023 kl. 17:19

2 Smámynd: Alfreð K

Ég vil bæta við orðskrípinu ,,sláttuorf", sem er því miður orðið allt of, allt of útbreitt núna á vörum landsmanna, jafnvel á meðal fagfólks (í stórum byggingarvöruverzlunum), sem ætti að vita betur (eða er bara alveg slétt sama, svo lengi sem varan selst) eða hvað getur ,,orf" verið einmitt annað en ,,sláttuorf"?

Eina verzlunin, sem orðar þetta enn viturlega, mér vitandi, er Hvellur í Kópavogi.  Þar er umrætt tæki enn kallað hinu eðlilega nafni ,,vélorf".

Alfreð K, 28.5.2023 kl. 03:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband