Tjarnir í hjólförum - kynslóðahreyfanleiki - í auganblikinu má kjósa
29.6.2023 | 18:22
Orðlof
Stofnanamál, erlend áhrif
Þar á ég ekki við tökuorð eða slettur sem komu svo ríkulega fram í kansellístílnum, heldur stílblæ textans.
Ýmsir þeirra sérfræðinga, sem vinna við skýrslugerð af ýmsu tagi, eru menntaðir erlendis. Þeir hugsa margir um sérsvið sitt á máli þess lands sem þeir lærðu í og skrifa oftast um það á sama máli. Orðin í skýrslunum eru að vísu íslensk en setningaskipan og form er erlent.
Ég sagði að orðin væru íslensk en oft er aðeins um að ræða lauslega þýðingu erlendra hugtaka sem almennur lesandi á erfitt með að átta sig á.
Oft er hreinlega verið að þýða erlendar greinar eða skýrslur í flýti til að koma ákveðnum upplýsingum á framfæri sem fyrst og er þá komið að fjórðu ástæðu þess að stofnanamál verður til og nefna mætti tímaskort. Þessi ástæða er ef til vill sú algengasta. Allir eru að flýta sér og allt þarf að gera strax. Fyrir kemur að búið er að senda í prentsmiðju og jafnvel prenta það sem eftir er að lesa yfir.
Guðrún Kvaran. Málfar í stjórnsýslu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Þannig eru djúp hjólför á köflum þar sem vatn safnast í tjarnir í rigningu og skapar mikla hættu fyrir vegfarendur.
Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 24.6.23.
Athugasemd: Hér er afar undarlega að orði komist. Tillagan er skárri.
Atviksorðið þannig í upphafi málsgreinarinnar þjónar litlum sem engum tilgangi.
Tillaga: Á köflum safnast vatn í djúp hjólför þegar rignir og skapar mikla hættu fyrir vegfarendur.
2.
Ef samband er metið milli meðaltekna einstaklinga á aldrinum 33 til 35 ára og meðaltekna sem foreldrar þeirra höfðu er þeir voru á sama aldri (á föstu verðlagi) kemur í ljós að börnin eru að meðaltali 0,9% til 1,5% tekjuhærri þegar tekjur foreldra þeirra hækka um 10%.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 26.6.23.
Athugasemd: Sá sem viðurkennir að hann skilji ekki ofangreina málsgrein verður eflaust talinn frekar sljór.
Blaðamenn eiga að skrifa svo lesendur skilji, jafnvel við, þessir sljóu, og þó umfjöllunarefnið sé flókið.
Líklega hafa margir hætt við lestur fréttarinnar þegar kom að þessum múr.
Hins vegar er fréttin afar fróðleg. Í henni stendur:
Þegar við skoðum kynslóðahreyfanleika þá erum við að skoða hversu háð þín efnahagslega staða er efnahagslegri stöðu foreldra þinna.
Í þessum örfáu orðum kristallast skýr hugsun háskólaborgara sem notar ekki tungutak alþýðunnar.
Fréttin er með gátustíl. Getur verið að einhverjir séu efnahagslegri en aðrir? Það leiðir hugann að þeim sem eru efnahagslegastir af öllum en eiga ekki krónu með gati.
Í fréttinni segir:
Emil segir rannsóknir benda til þess að tekjuójöfnuður rýri heilsu einstaklinga
Hingað til hefur því verið haldið fram að tekjuskortur geti skaðað heilsu einstaklinga. Nú er það hins vegar fullyrt að tekjuójöfnuður sé óhollur. Hvað merkir annars að eitthvað rýri heilsu?
Í fréttinni eru mörg nýyrði sem óbreytt alþýðufólk á eflaust erfitt með að átta sig á. Þetta eru til dæmis:
Kynslóðahreyfanleiki og orðasambandið kynslóðahreyfanleiki upp á við.
Menntunarhreyfanleiki og orðasambandið menntunarhreyfanleiki niður á við.
Frá eigin brjósti vil ég segja að iðja fólks er margvísleg en valdi hún kynslóðahreyfanleika niður á við er það efnahagslegri vandi þeirra sem eru tekjulægri en foreldra þeirra að meðaltali á föstu verðlagi og lásu ljóðabækur í stað þess að kynslóðahreyfa sig upp á við.
Geti lesandinn þýtt þetta yfir á skiljanlegt mál fær sá ókeypis kynslóðahreyfingu upp eða niður í verðlaun. Öll hreyfing er af hinu góða. Er það ekki?
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Biden er 80 ára gamall og ef hann sigrar forsetakosningarnar á næsta ári
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvernig er hægt að sigra kosningar? Blaðamaðurinn sem þetta skrifaði er illa staddur.
Síðar í fréttinni segir blaðamaðurinn af þekkingu sinni:
og líkamlegri heilsu Donalds Trumps, skyldi hann sigra næstu kosningar og starfa það kjörtímabil.
Úbbs. Blaðamaðurinn týndi óvart forsetningunni, hér skiptir í öllu máli.
Fréttin hefst á þessum orðum:
68% Bandaríkjamanna segjast hafa áhyggjur
Aldrei á að byrja frétt eða önnur skrif á tölustöfum. Sá sem ekki áttar sig á því er illa staddur.
Mogginn virðist halda að hann geti boðið okkur lesendum hvað sem er.
Tillaga: Biden er 80 ára gamall og ef hann sigrar í forsetakosningarnar á næsta ári
4.
Úkraínumenn hafa einnig náð að hasla sér völl á vinstri bakka Dnípró-árinnar í Kerson-héraði
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 28.6.23.
Athugasemd: Til að skilja landafræði er í öllum tungumálum vísað til átta, höfuðátta eða hluta þeirra. Blönduós er til dæmis austan Húnaflóa en hvorki vinstra megin né hægra megin við hann.
Undantekningar geta verið nokkrar og þær eru oftast staðbundnar. Fréttin er um landsvæði sem er austan við Dnieper fljótið í Úkraínu. Samkvæmt Wikipediu er söguleg hefð fyrir því að kalla landsvæðið vinstri bakkann.
Blaðamanninum kann að hafa sést yfir þetta þegar hann þýddi úr heimildum sínum. Hann hefði samt átt að átta sig. Fréttin er annars fróðleg og nokkuð vel skrifuð.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Auk skotflauga er Pantsir-kerfið útbúið tveimur öflugum 30 millimetra vélbyssum sem eru afar banvænar í návígi.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 28.3.23.
Athugasemd: Er einhver munur á banvænum byssum og afar banvænum byssum?
Í fréttinni segir:
Talið er nær öruggt að þessu kerfi var beitt gegn Rússum.
Réttara hefði verið að segja að kerfinu hafi verið beitt.
Einnig segir í fréttinni:
en áhöfn taldi alls tíu manns.
Réttara hefði verið að segja að í áhöfninni hafi verið tíu manns.
Í Málfarsbankanum segir:
Ekki þykir gott mál að segja að eitthvað telji svo og svo mikið. Dæmi: stóðið telur 35 hesta. Fremur er mælt með: í stóðinu eru 35 hestar.
Þrátt fyrir allt eru fréttir blaðamannsins oftast áhugverðar og vel skrifaðar.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Í augnablikinu gefst ungmennum á Hornafirði tækifæri til þess að skrá sig á spjöld sögunnar, en þar mega íbúar á aldrinum 16-18 ára kjósa í almennum kosningum í fyrsta sinn í sögu lýðræðis á Íslandi.
Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 29.6.23.
Athugasemd: Hér er ekki vel að orði komist. Halda mætti að blaðamaðurinn eigi við að í örskamma stund megi ungmenni á þessum aldri kjósa og svo aldrei aftur. Svo er ekki.
Íbúakosningin í Sveitarfélaginu Hornafirði sem stendur yfir frá 19. júní til 10. júlí. Ansi langt augnablik.
Augnablik merkir andartak, augnlokið blikar örskjótt svo varla sést, leiftur.
Jónas Hallgrímsson orti:
Allt er í heiminum hverfult,
og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt
langt fram á horfinni öld.
Ljóðið Ísland er fagur óður til ættjarðarinnar.
Tillaga: Nú gefst ungmennum á Hornafirði tækifæri til þess að skrá sig á spjöld sögunnar, en þar mega íbúar á aldrinum 16-18 ára kjósa í almennum kosningum í fyrsta sinn í sögu lýðræðis á Íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.