Aukinn mannskapur í löggunni - stemma stigu við sérsveitarmönnum - skúrir eflast síðdegis
5.8.2023 | 13:15
Orðlof
Sl-orð
slabb, sladda, slafsa, slafra, slagna, slagningur, slagi, slapp, slark, slefa, sleikja, sleipur, slemba, slenja, slepja, sletta, slím, sloka, slokra, slor, slubb, sludda, slumbra, slupra, slurkur, slydda, slý, slöpugur.
Þessi orð eru misjafnlega kunnugleg, en þau eiga tvennt sameiginlegt: þau byrja öll á sl-, og merking þeirra allra tengist bleytu eða vökva á einhvern hátt - oft einhvers konar hvimleiðri eða óviðfelldinni bleytu. Getur það verið tilviljun að svo mörg orð á sama merkingarsviði byrji á sömu hljóðum?
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
felst sá viðbúnaður í auknum mannskap í lögreglunni, auknu afli fíkniefnaleitar til þess að stemma stigu við vímuefnum og sérsveitarmönnum.
Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 4.8.23.
Athugasemd: Nafnorðastíllinn er hér alls ráðandi. Ofangreint skilst en hefði mátt vera metur skrifað.
Hvað er átt við að stemma stigu við sérsveitarmönnum? Vissulega eru þeir lögbrjótum til mikillar óþurftar en öðrum frekar gagnlegir.
Fréttin er nokkuð löng og hefði blaðamaðurinn getað vitnað enn meira í viðmælendur sína með óbeinni ræðu.
Í fréttinni segir:
mikið um að vera hjá viðbragðsaðilum víðsvegar um land.
Nokkur munur er á því þegar mikið er um að vera og mikið að gera. Ekki er ljóst hvort sé átt við.
Viðbragðsaðili er óskilgreint hugtak og getur merkt þann sem bregst við og aðstoðar. Sá getur verið vegfarandi, göngumaður og jafnvel sá sem siglir á ám, vötnum og sjó.
Í málfarsbankanum er bent á að ofnota ekki orðið aðili.Þar segir einnig:
Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.
Nefnd eru orð eins og ábyrgðarmaður (ekki ábyrgðaraðili), eigandi (ekki eignaraðili) og seljandi (ekki söluaðili). Sama á auðvitað við ljóta orðið viðbragðsaðili sem fjölmiðlungar reyna í sífellu að troða upp á lesendur.
Tillaga: felst í að fjölga lögreglumönnum, efla leit að fíkniefnum og útrýma fíkniefnum.
2.
Ég er ekki að kaupa það að við sem sáum fyrir verðbólgu og verðhækkanir vegna Covid, séum svona mikið klárari og betur gefin en allir ráðherrar og sérfræðingar kerfisins samanlagt, og get því ekki annað en dregið þá ályktun að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að fórna heimilunum fyrir bankana og að nú sé verið að framfylgja þeirri ákvörðun með því að koma tugþúsundum heimila á vonarvöl.
Aðsend grein á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 4.8.23.
Athugasemd: Höfundurinn hefði átt að láta einhvern vanan lesa greinina yfir. Sá hefði stytt málsgreinina, bætt inn punktum lesendum til hægðarauka. Tillagan er mun skárri.
Í greininni segir:
13 vaxtahækkanir Seðlabankans segja sína sögu
Hrikalegt villa, höfundur byrjar málsgrein á tölustaf. Það á ekki að gera.
Einnig segir í greininni:
Margt af því mun þurfa alls kyns kostnaðarsama félagslega aðstoð sem hægt hefði verið að komast hjá.
Frekar illa samin málsgrein. Orðið kostnaðarsamur afar vinsæl tugga í meðal blaðamanna. Af því leiðir að margir þekkja ekki lengur lýsingarorðið dýr.
Tillaga: Við sem sáum fyrir verðbólgu og verðhækkanir vegna Covid, erum ekki mikið klárari og betur gefin en allir ráðherrar og sérfræðingar kerfisins samanlagt.
Því get ekki annað en dregið þá ályktun að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að fórna heimilunum fyrir bankana.
Nú sé verið að framfylgja þeirri ákvörðun með því að koma tugþúsundum heimila á vonarvöl.
3.
Nóvorossísk er ein stærstu hafna við Svartahafið og staðfesta viðbragðsaðilar þar að sprengingar hafi heyrst í nótt eftir því sem rússneskir fjölmiðlar greina frá.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hverjir eru þeir rússnesku viðbragðsaðilar sem staðfestu að sprengingar hafi heyrst sem rússneskir fjölmiðlar greina frá.
Málsgreinin er endaleysa, fljótfærnislega skrifuð og ekki lesin yfir fyrir birtingu.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Lygileg frásögn Einars sem var á staðnum þegar eitt umdeildasta atvik sögunnar átti sér stað.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Maðurinn var á staðnum þegar atvikið átti sér stað. Þetta kallast nástaða. Blaðamaðurinn hlýtur að geta gert betur því þetta er afar ófaglega orðað hjá honum.
Í fréttinni segir:
Einar Orri Einarsson var í liði Keflavíkur á þessum tímapunkti
Orðleysan tímapunktur er drasl sem á ekki að nota. Betur fer á því að nota þetta orðalag:
Einar Orri Einarsson var þá í liði Keflavíkur
Einnig segir í fréttinni:
Bjarni skaut hins vegar frá miðju og skoraði, eitthvað sem hann og Skagamenn vildu meina að væri algjört óviljaverk.
Þetta eitthvað er algjörlega gagnslaust orð í þessu samhengi. Eftirfarandi er skárra:
Bjarni skoraði hins vegar frá miðju en bæði hann og Skagamenn fullyrtu að það hefði verið algjört óviljaverk.
Blaðamaðurinn þarf að taka sig á og vanda betur skrif sín.
Tillaga: Einar sá eitt umtalaðasta atvik knattspyrnusögunnar.
5.
Áfram eru líkur á skúrum og horfur á að loftið verði heldur óstöðugra en daginn áður sem þýðir að skúrirnir eflast síðdegis.
Facebook, hugleiðingar veðurfræðings um verslunarmannahelgi.
Athugasemd: Skelfing er þetta slæmt. Veðurfræðingurinn veit ekkert um skúrir en eflaust margt um bílskúra. Skúr í merkingunni regn á að vera í kvenkyni.
Hvað merkir orðalagið að skúrir eflast?
Í hugleiðingunum segir:
Norðausturfjórðungur landsins ætti að sleppa við skúrina
Sé skúr þarna í eintölu er þetta rétt en í fleirtölu ætti að standa skúrirnar.
Veðurfræðingur býr til fimmta fjórðunginn, norðausturfjórðung. Dæmalaus rökleysa.
Enn segir:
sem þýðir að skúrirnir eflast síðdegis.
Hér á að standa skúrirnar.
Og aftur segir:
og norðurströndin sleppur væntanlega við skúri.
Þarna á að standa skúrir. Engin norðurströnd er til í þeirri merkingu sem veðurfræðingurinn er að hugleiða. Næst má búast við því að veðurfræðingar fari að tala um Vestfjarðaströnd.
Ekki er enn komin uppstytta í skúrahugleiðingum veðurfræðingsins:
má víða búast við skúrum og bætir í skúrina síðdegis.
Fyrst er talað um skúrir í fleirtölu og svo virðist næsta orð vera í eintölu. Þetta gengur ekki upp. Eftirfarandi er skárra:
má víða búast við skúrum og bætir í skúrina/skúrirnar síðdegis.
Veðurfræðingur heldur áfram og enginn stoppar hann:
en þó gæti orðið vart við stöku skúri í innsveitum.
Þarna á að standa stöku skúrum.
Karlkyn | Eintala | Fleirtala | Kvenkyn | Eintala | Fleirtala |
Nefnifall | skúr | skúrar | Nefnifall | skúr | skúrir |
Þolfall | skúr | skúra | Þolfall | skúr | skúrir |
Þágufall | skúr | skúrum | Þágufall | skúr | skúrum |
Eignarfall | skúrs | skúra | Eignarfall | skúrar | skúra |
Hugleiðingar veðurfræðings eru ekki nógu vel skrifaðar. Flögrar að manni eftir að hafa litið yfir ofangreint hvort hann sé útlendingur.
Tillaga: Áfram eru líkur á skúrum og horfur á að loftið verði heldur óstöðugra en daginn áður sem þýðir að skúrirnar eflast síðdegis.
6.
Kínverjar meðal gesta fundar um frið í Úkraínu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Eðli máls vegna þurfa fyrirsagnir að vera grípandi. Þessi er skelfilega stirð og erfitt að átta sig á henni í fljótu bragði. Tillagan er skárri.
Tillaga: Kínverjar á fundi um frið í Úkraínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.