Engin framganga hjá Rússum - rigning og væta - útsýni yfir Heklu

Orðlof

Eitthvað á döfinni

Þegar sagt er að eitthvað sé á döfinni stendur það fyrir dyrum eða er í undirbúningi.

Orðið döf er tæplega notað nema í þessu sambandi en mun merkja ‘rass á (stóru) dýri’.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Daninn Sami Kamel hefur komið ótrúlega sterkur til baka eftir meiðsli.“

Frétt á blaðsíðu 60 í Morgunblaðinu 3.8.23. 

Athugasemd: Hvað merkir að koma til baka? Sá sem fer en snýr aftur hefur samkvæmt orðanna hljóðan komið til baka. Ekki sá sem hefur náð sér eftir meiðsli.

Enskan lætur þó ekki að sér hæða og hefur grafið um sig í hausnum á þeim blaðamönnum sem átta sig ekki á blæbrigðum íslenskunnar. Þetta „come back“ vefst fyrir sumum og þá liggur beinast við að þýða beint með slæmum afleiðingum fyrir lesandann og íslenskuna.

Í fréttinni segir:

Sem markvörður þarft þú að vera sérstakur á margan hátt og hann er það á góðan hátt. 

Þetta er óskiljanleg málsgrein. Hvað er átt við með „sérstakur“? Óhefðbundinn, eftirtektarverður, frumlegur, sérkennilegur, skrýtinn, gamaldagsóvenjulegur. Ekkert þessara orða hjálpar þó lesandanum að skilja merkinguna.

Einnig segir:

Svo er einnig norræna hliðin, sem gerir samfélagið smá fyndið. 

Hvað merkir „smá fyndið“? Getur verið að lýsingarorðið smár merki þarna andstæðu sína og þá sé átt við að samfélagið sé afar fyndið?

Fréttin er of löng og vanur blaðamaður hefði átt að lesa hana yfir fyrir birtingu og benda á fjölmargt sem betur má fara.

Tillaga: Daninn Sami Kamel hefur náð sér ótrúlega vel eftir meiðsli.

2.

Engin framganga hjá Rússum þó gagnsókn gangi hægar en vonir stóðu til.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þetta skilst ekki. Af fréttinni að dæma er átt við að Rússar sæki ekki fram, þá er átt við sókn herja þeirra. Þrátt fyrir leit hef ég ekki fundið að framganga geti merkt sókn hers.

Á orðneti Árnastofnunar segir að framganga geti merkt: hreyfingar, svipbrigði, hátterni, skaplyndi og svo framvegis.

Fréttin er stutt og máttlaus, ekkert nýtt í henni..

Tillaga: Rússar sækja ekki en Úkraínumönnum gengur hægar en vonir stóðu til.

3.

Viðbragðsaðilar og Veðurstofan fylgjast vel með gangi mála við Öskju og ef þess gerist þörf munu þeir gera sitt besta til að grípa til aðgerða.“

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Hvað merkir „viðbragðsaðilar“? Er beinlínis átt við að lögregla, almannavarnir, slökkvilið, sjúkraflutningamenn, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir og nærstaddir vegfarendur muni „gera sitt besta til að grípa til aðgerða“. Orðið „viðbragðsaðili“ er eitt hið ljótasta af þeim sem eru að skjóta rótum í fjölmiðlamáli.

Hvað merkir þetta; „gera sitt besta til að grípa til aðgerða“? Var blaðamaðurinn vakandi eða sofandi þegar hann skrifaði þetta?

Þetta er einfaldlega della. Orðalagið er lítt ígrundað. Þar að auki vísar DV í frétt í Morgunblaðinu, letin er hrikaleg. Upp er gefinn linkur sem ætla mætti að vísi í frétt Moggans en hann er gagnslaus. Svona vinnubrögð eru algjörlega óviðunandi og teljast fúsk en ekki blaðamennska.

Á DV eru til ágætir blaðamenn en stjórnun blaðsins er léleg, byggir á að gabba lesendur til að smella á fréttir og opna. Oft er fréttirnar nauða ómerkilegar.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Hlýj­ast verður á Suður­landi en þar er spáð meiri vætu …“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Af hverju má rigning ekki heita rigning? Af hverju nota veðurfræðingar feluorð eins og væta, úrkoma, dropar og svo framvegis? Svona orðalag gerir veðurfréttir ekkert skýrari nema síður sé og fyrir vikið verður málið flatt og óáhugavert.

Eftirfarandi er í fréttinni haft eftir veðurfræðingi:

Það verður alls staðar sól alla­vega um ein­hvern tíma en ég er ekki viss um að það verði sól all­an tím­ann ein­hvers staðar.

Þetta er nærri því heimspekilega orðað þó véfréttastíl sé.

Í fréttinni segir:

„Það verður ein­hver rign­ing, helst á laug­ar­dag­inn. Ein­hver rign­ing áfram á sunnu­dag­inn en þetta verður fínt á morg­un, kannski einverjir skúr­ir, eins og víðs veg­ar um landið.

Ekki er málgreinin góð og síst skýr. Hvað merki „einhver rigning“? Getur veðurfræðingur ekki verið nákvæmari? Blaðamaðurinn lepur upp orð viðmælandans gjörsamlega gagnrýnislaust rétt eins og Jesús sjálfur sé í viðtalinu.

Skúr er til í kvenkyni og karlkyni. Í málfarsbankanum segir:

Fjölmörg orð í íslensku eru til í fleiri kynjum en einu, t.d. er skúr karlkyns (skúrinn, hann) í merkingunni ‘kofi, skúrbygging’ en kvenkyns (skúrin, hún) í merkingunni ‘regndemba’. 

Þetta á blaðamaður og ekki síður veðurfræðingur að vita.

Loks er það þessi þversögn:

Eins og staðan er núna lít­ur ekki út fyr­ir að það verði mik­il væta. Það gæti þó verið að það verði dá­lít­il rign­ing á laug­ar­dag syðst.

Ekki mikil „væta“ en „dálítil rigning“. Hvort skyldi vera skárra, væta eða rigning?

Tillaga: Hlýj­ast verður á Suður­landi en þar er spáð meiri rigningu ….

5.

„… þegar hann keypti jörð með út­sýni yfir Heklu.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvergi er til jarðir með útsýni yfir Heklu. Hins vegar sést víða til Heklu.

Tillaga: … þegar hann keypti jörð með út­sýni til Heklu.

6.

Al­ex­andra Popp var lang­best fyr­ir þýska landsliðið í dag og er hún aðskil­in allri gagn­rýni sem þýsk­ir fjöl­miðlar gefa liðinu um þess­ar mund­ir.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Forsetningavilla virðist hrjá marga blaðamenn. Popp hefur líklega verið langbest í þýska landsliðinu, ekki „fyrir“ það.

Hitt skilst ekki. Hvað er að vera „aðskilin allri gagnrýni“? Er átt við að Popp hafi ekki verið gagnrýnd eða gleymdist að gagnrýna hana. Vera má að blaðamaðurinn sé vel að sér í útlensku máli en íslenskan er slök miðað við þetta.

Tillaga: Engin tillaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband