Mikilvægi þess - mikilvægi þess - mikilvægi þess

Orðlof

Einhver

Óákveðna fornafnið einhver stendur oft með nafnorði og merkir þá ’ótiltekinn’, t.d. þegar sagt er „Það kom einhver maður og sótti böggulinn“. 

Nú eru sumir farnir að nota þetta orð á nýstárlegan hátt og segja t.d. „Ég kem eftir einhverja fimm daga“ eða „Launin hækkuðu um einhver þrjú prósent“. 

Í dæmum af þessu tagi merkir einhver því ’um það bil, hér um bil’;. Enn virðist þessi notkun einskorðast við talmál og fornafnið kemur undarlega fyrir sjónir í þessu samhengi. 

Mætti láta sér detta í hug að þarna gætti áhrifa frá ensku því þar getur fornafnið some ’einhver’ staðið í svipuðu umhverfi.

Orðaborgar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… því ekki er hún bara að draga úr mikilvægi þess sem ráðherra sagði um tillögurnar 15 heldur er um leið gert lítið úr tillögunum og mikilvægi þess að tekið verði á málum.

 Aðsend grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 1.8.23. 

Athugasemd: Svona er kallað nástaða eða klifun. Höfundurinn sér hana ekki. Jafnslæmt er þó orðalagið „mikilvægi þess“ sem er afar flatt og ómerkileg og hrikalega ofnotað.

Örstuttu síðar skrifar greinarhöfundur:

Því varla er ann­ar til­gang­ur með grein­inni en að gera lítið úr mikil­vægi þess að virkja á Vest­fjörðum. 

Kemur ekki á óvart að þrisvar í einni grein sé hoggið í sama knérunn ef svo má segja.

Þetta er hins vegar „letihaugstalsmáti“ þeirra sem skrifa stílausan texta, fastir í kansellístíl og nenna ekki að orða hugsun sína skýrar.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Þorvaldur sagði að ef það gýs í öskjunni þá geti orðið gjóskufall um allt land ef gosið er stórt.“

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Berum saman tilvitnunina úr DV og tillöguna. Í fréttinni sem blaðamaðurinn tekur úr Morgunblaðinu segir:

Síðast gaus í Torfajökli 1477 og mynduðust Laugahraun og Námshraun þá.

Orðaröðin skiptir máli. ’Þá’ er þarna atviksorð en er á röngum stað. Ætti að vera: 

Síðast gaus í Torfajökli 1477 og þá mynduðust Laugahraun og Námshraun.

Hins vegar vantar aðalatriðið í frétt Moggans sem og endursögnina í DV og það er sú staðreynd að árið 1477 gaus á meira en 60 km langri sprungu sem náði allt frá Bárðarbungu, um Veiðivötn og suður fyrir Landmannalaugar. Þá urðu Veiðivötn til, einnig Ljótipollur, Námshraun og Laugahraun runnu og fleira mætti nefna. Sumir blaðamenn hætta í miðjum klíðum af því þeir vita ekki meira eða nenna ekki að afla sér frekari upplýsinga.

Tillaga: Þorvaldur sagði að yrði stórt gos í öskjunni gæti fallið gjóska um allt land.

3.

„… og að þar hafi til dæmis gosið 870 en þá fór gjóska til vesturs og þakti svæðið frá Reykjanesskaga og alveg að Bárðarströnd.“

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Ef þetta er talmál jarðfræðings þyrfti hann að vanda sig betur. Ekki er öllum blaðamönnu treystandi til að skilja eða koma hugsuninni óbrenglaðri til lesenda. Margir skilja ekki muninn á talmáli og ritmáli.

„Bárðarströnd“ er ekki til. Barðaströnd er á Vestfjörðum, ströndin frá Vatnsfirði að Sigluneshlíðum.

Gjóska er nafnorð og merkir laus gosefni, aska og kvikuslettur. Gjóska fer ekkert, hún berst með vindi.

Í fréttinni segir:

En hvað varðar Torfajökul er hann virk eldstöð og þetta er stærsta eldstöð landsins sem býr til öflugt sprengigos. 

Dálítið óviðkunnanlegt er að persónugera náttúru landsins. Torfajökull býr ekkert til. Þarna hefði farið betur að segja:

Torfajökulsaskjan er virk eldstöð og er stærsta eldstöð landsins og þar getur orðið öflugt sprengigos.

Þegar er rætt um Torfajökul er yfirleitt átt við Torfajökulsöskjuna en í henni getur orðið öflugt sprengigos. Síðast gerðist það árið 877 (ekki 871) er gaus í Vatnaöldum og eldsprungan frá Bárðarbungu náði inn í áhrifasvæði Torfajökuls (það er öskjunnar) og þar gaus. Landnámslagið er því tvískipt, hið dökka er úr Vatnaöldum en ljósleit aska kom úr gosi nálægt Hrafntinnuskeri og þar er miðja öskjunnar.

Tillaga:  og þar hafi gosið árið 877 og féll gjóskan til vesturs og norðurs, allt frá Reykjanesi vestur á Barðaströnd.

4.

Við hjá Bill.is erum sérfræðingar þegar kemur að bílum!“

Auglýsing á Facebook.

Athugasemd: Þessu trúi ég ágætlega en stundum verður manni orðfall „þegar kemur að auglýsingum“. Berum saman tilvitnunina og tillöguna sem er nokkuð skárri.

Tillaga: Við hjá bill.is erum sérfræðingar í bílum!.

5.

… á hluthafafundi bankans sem fram fór í síðustu viku.“

Frétt á blaðsíðu 1 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2.8.23.

Athugasemd: Aðalfundurinn var í síðustu viku, óþarfa málalenging að segja hann hafi „farið fram“. Spyrja má hvort eitthvað mikilvægt hafi tapast í tillögunni sé hún borin saman við tilvitnunina?

Tillaga: … á hluthafafundi bankans í síðustu viku..

6.

„Hún sýndi meðal annars mynd af öllum fötunum saman og þau tóku allt rúmið hennar.“

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Hvorki föt, ábreiða eða rúmföt „taka“ rúm. Þau þekja það.

Tillaga: Hún sýndi meðal annars mynd af öllum fötunum og þöktu þau rúmið hennar.

7.

37 ára karl­maður og 33 ára kona frá Zurich í Sviss …“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Af hverju leyfir Mogginn blaðamönnum sínum að byrja málsgreinar á tölustöfum? Það er hvergi gert og málfræðingar hér á landi og annars staðar mæla gegn því. Af hverju? Gúglaðu það!

Tillaga: Þrjátíu og sjö ára karl og þrjátíu og þriggja ára kona frá Zurich í Sviss


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband