Væta við austurströndina - framkvæma leit - varasamur vindhraði

Orðlof

Vegur í jarðvegi

Jarðvegur er jafnan nefndur jörð á norrænum málum. Ekki er alveg ljóst af hverju moldin er kölluð jarðvegur á íslensku. Hugsanlega má rekja uppruna orðsins til latneskrar orðabókar frá 17. öld eftir Guðmund Andrésson (d. 1688) en þar er orðið jarðvegur notað fyrir latneska orðið „arvum“. Eiginleg merking þess er plægt land eða akuryrkjuland og vísar þá vegur í jarðvegur til plógfarsins, ef að líkum lætur … 

Bjarni Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir (2019) veltu því fyrir sér hvort hugtakið „jarðvegur“ gæti átt rætur í fjárgötunum sem liggja víða um landið í skemmtilegri hugleiðingu um moldina. Aðrir tengja það fremur gömlu þjóðleiðunum um landið. 

Ólafur Gestur Arnalds, bókin Mold ert þú. Kafli birtur a blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 14.8.23. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og lítilsháttar væta við austurströndina.“

Textaspá á vedur.is

Athugasemd: Veðurfræðingurinn virðist ekki kannast við orðið rigning. Hann tönglast á orðinu „væta“.

Líklega á hann við bleytuna sem fellur úr loftinu og niður til jarðar. Alþýða manna kallar slíkt rigningu. Samkvæmt spámönnum Veðurstofunnar rignir afar sjaldan á Íslandi. Barnamálið ræður oft orðalagi þeirra. Þeir segja stundum að hér og þar „dropi“, „smá væta“ sé einhvers staðar eða tala um „lítilsháttar vætu“.

Sá sem þetta ritar veltir því fyrir sér hvort veðurfræðingar brúki beinlínis veigrunarorð í stað þess alræmda orðs rigning sem hefur einkar blauta áferð. „Úrkoma“ er vinsælasta orðið vegna þess að þá þarf ekki að gera greinarmun á rigningu eða snjókomu.

Blaðamenn halda varla vatni (vætu) þegar veðurfræðingar stunda málfarslistir sína. Á mbl.is segir í fyrirsögn:

Öflug lægð veldur vætu.

Svo vel hafa spámenn Veðurstofunnar kennt blaðamönnum að nær ómögulegt er að orða þetta til dæmis á þennan veg:

Rigning í öflugri lægð.

Loks má spyrja: Hvar er austurströnd landsins? Landfræðilega séð er hún ekki til, ekki frekar en Vestfjarðaströnd eða norðurströndin. Strendur landsins eru óteljandi nema ef til vill suðurströndin sem er nær óslitin frá Ölfusárósum og að Hornafirði. Næst má búast við fréttum af hafís við „Hornstrandastrendur“ eða „Strandastrendur“.

Og nú má mæla með því að lesandinn helli dálítilli vætu bolla og láti fylgja kaffimulning, tepoka eða kakóduft, halli sér svo aftur í stólnum og velti fyrir sér bjánalegu orðalagi margra veðurfræðinga. 

Tillaga: … og lítilsháttar rigning við strendur austurlands.

2.

„Nafn Rúm­fa­tala­gers­ins verður JYSK frá og með lok­um sept­em­ber­mánaðar, þar sem talið er að nafnið end­ur­spegli ekki leng­ur vöruúr­val fyr­ir­tæk­is­ins.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er aumasta skýring sem hugsast getur og er ekkert annað en enn eitt áfallið sem íslensk tunga hefur orðið fyrir á undanförnum árum, jafnt af völdum innlendra sem útlendra kaupsýslumanna. Orðleysan „jysk“ endurspeglar ekki vöruúrval, ekki frekar en Ikea og Bauhaus.

Blygðunarlaust flytjast hingað til lands fyrirtæki með erlend nöfn og láta ekki svo lítið að fella þau að íslensku máli. Ekki nóg með það heldur halda íslenskir fyrirtækjaeigendur að útlensku nöfnin gangi betur í okkur alþýðufólkið.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

… þegar þeir freistuðu þess að framkvæma leit á heimili grunaðs manns.“

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Sá sem að „framkvæmir svona fréttaskrif“ ætti að hugsa sinn gang. Í fréttinni segir:

Rannsóknin var af þessum sökum flókin en hópurinn er sagður hafa gengið mjög langt í að fela slóð sína …

Hvað merkir að „ganga mjög langt í að fela slóð“? Eru til einhver siðferðileg mörk sem glæpamenn mega ekki fara yfir í svindli?

Sá sem gengur of langt fer offari, kann sér ekki hóf, hleypur á sig, fer yfir strikið, kann sér ekki hóf. Orðalagið merkir ekki að reyna sitt ýtrasta eins og skilja má af málsgreininni.

Orðið níðshringur sem kemur fyrir í fréttinni. Það merkir er ekki það sama og barnaníð. 

Níð eru lygar, illmælgi, aðdróttanir, rógburður, skítkast, ósannsögli og svo framvegis. 

Barnaníð er ofbeldi gegn barni.

Blaðamaðurinn vandar ekki þýðingar sínar úr ensku.

Tillaga: … þegar þeir freistuðu þess að leita á heimili grunaðs manns.

4.

Varasamur vindhraði.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Enginn stjórnar hraða vindsins. hann er ekki varasamur nema fyrir þá sem eru útivið eða eiga eitthvað sem þar gæti skemmst. Á Kári (vindurinn) að gæta að vindhraða, rétt eins og Jón bílstjóri að ökuhraða sínum.

Tillaga: Hvassviðrið getur verið varasamt.

5.

17. júlí síðastliðinn, tæpu ári eftir að samningurinn var undirritaður í Istanbúl …“

Aðsend grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 14.8.23. 

Athugasemd: Greinin byrjar á tölustöfum, það er hvergi gert. Höfundurinn er Josep Borell Fontelles, einn af toppunum í ESB. Hann sendir grein sína til Moggans og líklega þýðir innanbúðarmaður hana á íslensku og kann ekki til verka.

Sama grein birtist á vef fjölmiðilsins The Observer. Þar byrjar hún svona:

On 17 July, nearly one year after it was signed in Istanbul …

Höfundur greinarinnar byrjar ekki málsgrein á tölustaf en þýðandinn er úti að aka.

Stjórnendur Moggans hafa margt þarflegt að gera en lesa þeir Moggann? 

Tillaga: Þann 17. júlí síðastliðinn, tæpu ári eftir að samningurinn var undirritaður í Istanbúl …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband