Úreldar áætlanir - halda gætilega um pyngjuna - hrapaði til jarðar

Orðlof

Klassískt misræmi

Ég hef t.d.alltaf ímyndað mér að línan um ömmuna í Heim í Búðardal sé ritskoðun, einhver hafi alls ekki kunnað við að hafa framliðna ömmu í brúðkaupsveislu. Sungið er 

„býð ég öllum úr sveitinni, 
langömmu heillinni, 
það mun verða veislunni margt í“, 

sem er á svig við rímmynstur lagsins; sveitinni-heitinni væri í stíl, heillinni rímar ei. 

En nýlega var mér sagt að eins konar villiútgáfa hafi ratað á plötuna, upphaflegi textinn hafi verið: 

„býð ég öllum úr sveitinni,
langömmu heitinni
myndi þykja veislunni margt í“. 

Meikar sens, en maður kýs samt misræmið, enda orðið klassík. 

Sigurbjörg Þrastardóttir. Tungutak, blaðsíða 3  i Morgunblaðinu 9.9.23.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… um að sam­eina Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, MA, við Verk­mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, VMA.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Í fréttum hefur verið sagt frá hugmyndum um að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann. Ekki hefur verið rætt um að sameina MA við Verkmenntaskólann. 

Eitt er að sameina og annað að sameina við. Hvort tveggja getur átt við í þessu tilviki.

Tillaga: … um að sam­eina Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, MA, og Verk­mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, VMA..

2.

Kostnaðartölur byggðar á úreldum áætlunum.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Mikill munur er á orðunum „úreldur“ og úreltur. Hið fyrra er yfirleitt haft um það sem er lítils virði eða fánýtt. Það sem er úrelt er gamaldags, óraunhæft, úr takti við tímann og svo framvegis. Vélar og tæki úreldast þegar nýjar koma á markaðinn. Sama er með fjárhagsáætlanir, þar geta verið úreltar því nýjar upplýsingar koma fram sem hækka eða lækka þær.

Tillaga: Kostnaðartölur byggðar á úreltum áætlunum.

3.

Varð vitni að mögnuðu sjónarspili í Grænlandsferð.“

Frétt á forsíðu Morgunblaðsins 9.9.23. 

Athugasemd: Orðið „sjónarspil“ fer seint á válista yfir orð í útrýmingarhættu, sé sá listi til.

Annar listi sem ekki er heldur til, er sá yfir ofnotuð orð og á honum er nafnorðið „sjónarspil“. Það er útbrunnið, útjaskað, illa til haft, óþefur af því og ætti að leggja til hliðar næstu fjögur árin.

Skrýtið að orðaforði margra blaðamanna skuli vera svo rýr að „sjónarspil“ sé haft eiginlega allt sem þeim þykir athyglisvert í náttúrunni. Dæmin eru óteljandi. „Sjónarspilið“ er það kallað er ísbjörn veiðir og étur sel. Regnboginn er sjónarspil. Eldgos er sjónarspil. Sólarlagið er sólarspil. Ofnotað orð.

Og allt er magnað nú til dags. Ekkert annað lýsingarorð til. Freistandi að segja lýsingarorðið á of-listann.

Í fréttinni segir:

… hvernig lífið í óspilltri náttúrunni á Grænlandi er þegar frumskógarlögmálin gilda. 

Hefði ekki verið hægt að orða þetta á annan hátt en að nefna frumskóg vegna atburðar á Grænlandi?

Tillaga: Sá ísbjörn veiða og éta sel í Grænlandsferð.

4.

Á árum áður lögðu þó margir borgarstjórar sig fram um að halda gætilega um pyngjuna, þannig að óþarft var með öllu að sveigja alla helstu gjaldstofna upp í topp og þrengja þannig að persónulegum fjárhag umbjóðendanna, borgarbúa sjálfra.“

Forystugrein Morgunblaðsins 12.9.23. 

Athugasemd: Afskaplega er þetta tilgerðaleg málsgrein - og loðin. Hvað merkir að „halda gætilega um pyngjuna“? Andstæðan við þetta orðalag er líklega að halda fast um pyngjuna. Hvort orðalagið á við um þann sem er aðgætinn í fjármálum?

Tilgangslaust er að nota svona stílbrögð. Hér á við það sama og allir blaðamenn eiga að muna; skrifa einfalt mál. 

Hvað merkir að „sveigja gjaldstofna upp í topp“? Sé átt við að hækka skatta af hverju er það ekki beinlínis sagt?

Af hverju er verið að teygja lopann með svona orðagjálfri: „þrengja þannig að persónulegum fjárhag umbjóðendanna, borgarbúa sjálfra“.

Tillaga: Áður fyrr voru margir borgarstjórar aðgætnir í fjármálum borgarinnar og því þurfti ekki að hækka skatta upp í topp og þrengja um of að borgarbúum.

5.

Við erum búnir að eiga spjall við fulltrúa Síldarvinnslunnar og munum gera það áfram.“

Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 14.9.23. 

Athugasemd: Margir „eiga spjall“ við einhvern, „eiga samtal“ og svo framvegis. Líklega er fólk hætt að tala saman. Sagnorðin lúta í lægra haldi fyrir nafnorðum að hætti enskrar tungu. 

Þátíðin er einnig við það að tapa, fjölmargir eru „búnir að eiga spjall“, „búnir að fara“, „búnir að koma“, „búnir að klúðra fréttum“ ... 

Frekar sorgleg þróun.

Tillaga: Við höfum talað við fulltrúa Síldarvinnslunnar og munum halda því áfram.

6.

Að sögn yfirvalda voru fjórtán um borð í flugvélinni þegar hún hrapaði til jarðar …“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 18.9.23. 

Athugasemd: Hvert hefði flugvél getað hrapað ef ekki til jarðar?

Tillaga: Að sögn yfirvalda voru fjórtán um borð í flugvélinni þegar hún hrapaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband