Lætur gott heita - í formi frelsaðs landsvæðis - framvæma, samkvæmt, framkvæma, samtkvæmt
25.9.2023 | 13:33
Orðlof
Tölva
Þegar nýjungar koma til sögunnar verður að gefa þeim nafn. Til þess eru ýmsar leiðir en hin viðtekna venja í íslensku er að smíða þeim nýyrði.
Einhvern tíma í kringum 1960 komu fram nýjar vélar sem þurftu íslenskt heiti og Sigurður Nordal (1886-1974) stakk upp á því að kalla þær tölvur.
Orðið tölva er sniðið eftir kvenkynsorðinu völva og beygist eins og það. Rótin er aftur á móti sú sama og í nafnorðinu tala og sögninni telja enda voru tölvur fyrst og fremst öflugar reiknivélar í upphafi.
Þá hefur líklega engan órað fyrir því hversu útbreiddar tölvurnar ættu eftir að verða og heiti þeirra þar með fyrirferðarmikið í daglegu máli.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ásgeir Börkur lætur gott heita.
Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 19.9.23.
Athugasemd: Ásgeir Börkur ætlar að hætta í fótbolta. Af hverju er það ekki sagt í stað þess að grípa til ofnotaðrar klisju sem ætti að banna vegna þess að hún er óskýr.
Barnaskólabrandarinn á hér vel við: Jón lætur gott heita nammi.
Tillaga: Ásgeir Börkur hættir í fótbolta.
2.
Snæfellsnesþjóðgarður er um 170 fermetrar að flatarmáli.
Frétt á baksíðu Morgunblaðsins 20.9.23.
Athugasemd: Stundum má brosa að meinlegum villum í fjölmiðlum. Samkvæmt þessu er þjóðgarðurinn örugglega sá minnsti í öllum heiminum.
Á vef umhverfisstofnunar stendur að Snæfellsnesþjóðgarður sé 183 ferkm. Líklega er það bitamunur ekki fjár, eins og gamla fólkið sagði.
Tillagan á að vera skopleg.
Tillaga: Snæfellsnesþjóðgarður er ekki stærri en meðal einbýlishús.
3.
Gagnsókn Úkraínumanna heldur áfram en hefur enn sem komið er skilað litlum árangri í formi frelsaðs landsvæðis.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Óskaplega getur verið leiðinlegt að lesa fróðlegar fréttaskýringar á slæmu máli. Sé feitletruðu orðunum sleppt skilur lesandinn málsgreinina til fullnustu. Tillagan getur líka gengið.
Í fréttinni segir:
Eins og undanfarna mánuði eiga aðgerðir Úkraínumanna sér að mestu stað á þremur stöðum á víglínunni.
Þetta er illa skrifað. Nástaðan gerir málsgreinina slæma; eiga sér stað á þremur stöðum. Eftirfarandi er skárra:
Sem fyrr byggjast aðgerðir Úkraínumanna á þremur vígstöðvum.
Enn segir:
Úkraínskir hermenn birtu á mánudaginn myndir af því þegar fáni Úkraínu var hengdur upp í Andrjívka.
Sjaldgæft eða óþekkt er að fái sé hengdur upp. Ekki virðulega farið með þjóðfána. Fólk hengir upp föt en fána er flaggað.
Í fréttinni segir:
Þá hafa rússneskir herbloggarar kvartað yfir yfirburðum Úkraínumanna á svæðinu þegar kemur að stórskotaliði.
Þetta er máttlaust og flatt orðalag. Eftirfarandi er skárra:
Rússneskir herbloggarar hafa kvartað yfir yfirburðum stórskotaliðs Úkraínumanna.
Eftirfarandi er verulega illa skrifað og lyktar af enskri þýðingu:
hafa þeir grafið nokkuð stóra holu í varnarlínu Rússa í sumar, án þess þó að hafa gert gat á hana. Miðað við gang þeirra að undanförnu virðist sem Úkraínumenn séu að reyna að víkka holuna, ef svo má að orði komast, og gætu þeir reynt að gera stærri sókn á næstunni.
Skárra er að segja að þeir hafi rofið skarð í varnarlínu Rússa án þess að hafa komist í gegn.
Illa er komist að orði að gera stærri sókn. Skárra er að leggja enn meiri kraft í næstu sókn.
Fréttin er löng en hér verður að hætta aðfinnslum enda er hún illa skrifuð. Blaðamaðurinn er greinilega óvanur eða hefur ekki fengið næga tilsögn.
Tillaga: Gagnsókn Úkraínumanna heldur áfram en hefur enn sem komið er hafa þeir ekki getað náð landi af Rússum.
4.
Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi.
Annar töluliður 17. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
Athugasemd: Takið eftir æpandi og margfaldri nástöðu í ógnarlangri málsgreininni. Sá sem les þetta í fyrsta sinn og skilur umsvifalaust ætti annað hvort að fá fá viðurkenningu eða láta skoða á sér heilann.
Yfirleitt er orðið stjórnvöld án greinis og því er það svolítið ókennilegt þegar honum hefur verið bætt við.
Ofangreint fannst í aðsendri á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 22.9.23 sem er ansi forvitnileg.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Hægrisinnaðir stjórnarandstæðingar í Frakklandi náðu í gær góðri siglingu með að framlengja söguleg yfirráð sín í öldungadeildinni, í kosningum sem marka enn eitt áfallið fyrir stjórnarflokk Emmanuels Macrons forseta.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 25.9.23.
Athugasemd: Þetta er illskiljanleg málsgrein. Ástæðan eru feitletruðu klisjurnar sem hjálpa lesandanum ekkert. Komman á ekki að vera þar sem hún er sett. Orðalagið siglingu með að bendir til að höfundurinn sé óvanur skrifum á íslensku.
Eru hægri sinnaðir stjórnarandstæðingar enn í meirihluta í frönsku öldungadeildinni? Ekki er hægt að ráða það af málsgreininni hvort heldur er.
Hægt er að gera athugasemdir við fleira í fréttinni. Hún ekki vel skrifuð.
Tillaga: Engin tillaga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.