Lætur gott heita - í formi frelsaðs landsvæðis - framvæma, samkvæmt, framkvæma, samtkvæmt

Orðlof

Tölva

Þegar nýjungar koma til sögunnar verður að gefa þeim nafn. Til þess eru ýmsar leiðir en hin viðtekna venja í íslensku er að smíða þeim nýyrði. 

Einhvern tíma í kringum 1960 komu fram nýjar vélar sem þurftu íslenskt heiti og Sigurður Nordal (1886-1974) stakk upp á því að kalla þær „tölvur“. 

Orðið tölva er sniðið eftir kvenkynsorðinu völva og beygist eins og það. Rótin er aftur á móti sú sama og í nafnorðinu tala og sögninni telja enda voru tölvur fyrst og fremst öflugar reiknivélar í upphafi. 

Þá hefur líklega engan órað fyrir því hversu útbreiddar tölvurnar ættu eftir að verða og heiti þeirra þar með fyrirferðarmikið í daglegu máli.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ásgeir Börkur lætur gott heita.“

Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 19.9.23. 

Athugasemd: Ásgeir Börkur ætlar að hætta í fótbolta. Af hverju er það ekki sagt í stað þess að grípa til ofnotaðrar klisju sem ætti að banna vegna þess að hún er óskýr. 

Barnaskólabrandarinn á hér vel við: Jón lætur gott heita nammi.

Tillaga: Ásgeir Börkur hættir í fótbolta.

2.

Snæfellsnesþjóðgarður er um 170 fermetrar að flatarmáli.“

Frétt á baksíðu Morgunblaðsins 20.9.23. 

Athugasemd: Stundum má brosa að meinlegum villum í fjölmiðlum. Samkvæmt þessu er þjóðgarðurinn örugglega sá minnsti í öllum heiminum. 

Á vef umhverfisstofnunar stendur að Snæfellsnesþjóðgarður sé 183 ferkm. Líklega er það bitamunur ekki fjár, eins og gamla fólkið sagði.

Tillagan á að vera skopleg.

Tillaga: Snæfellsnesþjóðgarður er ekki stærri en meðal einbýlishús.

3.

Gagnsókn Úkraínumanna heldur áfram en hefur enn sem komið er skilað litlum árangri í formi frelsaðs landsvæðis.“

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Óskaplega getur verið leiðinlegt að lesa fróðlegar fréttaskýringar á slæmu máli. Sé feitletruðu orðunum sleppt skilur lesandinn málsgreinina til fullnustu. Tillagan getur líka gengið.

Í fréttinni segir:

Eins og undanfarna mánuði eiga aðgerðir Úkraínumanna sér að mestu stað á þremur stöðum á víglínunni.

Þetta er illa skrifað. Nástaðan gerir málsgreinina slæma; „eiga sér stað á þremur stöðum“. Eftirfarandi er skárra:

Sem fyrr byggjast aðgerðir Úkraínumanna á þremur vígstöðvum.

Enn segir:

Úkraínskir hermenn birtu á mánudaginn myndir af því þegar fáni Úkraínu var hengdur upp í Andrjívka.

Sjaldgæft eða óþekkt er að fái sé hengdur upp. Ekki virðulega farið með þjóðfána. Fólk hengir upp föt en fána er flaggað.

Í fréttinni segir:

Þá hafa rússneskir herbloggarar kvartað yfir yfirburðum Úkraínumanna á svæðinu þegar kemur að stórskotaliði.

Þetta er máttlaust og flatt orðalag. Eftirfarandi er skárra:

Rússneskir herbloggarar hafa kvartað yfir yfirburðum stórskotaliðs Úkraínumanna.

Eftirfarandi er verulega illa skrifað og lyktar af enskri þýðingu:

… hafa þeir grafið nokkuð stóra holu í varnarlínu Rússa í sumar, án þess þó að hafa gert gat á hana. Miðað við gang þeirra að undanförnu virðist sem Úkraínumenn séu að reyna að víkka holuna, ef svo má að orði komast, og gætu þeir reynt að gera stærri sókn á næstunni.

Skárra er að segja að þeir hafi rofið skarð í varnarlínu Rússa án þess að hafa komist í gegn.

Illa er komist að orði að „gera stærri sókn“. Skárra er að leggja enn meiri kraft í næstu sókn.

Fréttin er löng en hér verður að hætta aðfinnslum enda er hún illa skrifuð. Blaðamaðurinn er greinilega óvanur eða hefur ekki fengið næga tilsögn.

Tillaga: Gagnsókn Úkraínumanna heldur áfram en hefur enn sem komið er hafa þeir ekki getað náð landi af Rússum.

4.

Ef til­gang­ur vinnu­stöðvun­ar­inn­ar er að þvinga stjórn­ar­völd­in til að fram­kvæma at­hafn­ir, sem þeim lög­um sam­kvæmt ekki ber að fram­kvæma, eða fram­kvæma ekki at­hafn­ir, sem þeim lög­um sam­kvæmt er skylt að fram­kvæma, enda sé ekki um að ræða at­hafn­ir, þar sem stjórn­ar­völd­in eru aðili sem atvinnurekandi.

Annar töluliður 17. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur. 

Athugasemd: Takið eftir æpandi og margfaldri nástöðu í ógnarlangri málsgreininni. Sá sem les þetta í fyrsta sinn og skilur umsvifalaust ætti annað hvort að fá fá viðurkenningu eða láta skoða á sér heilann. 

Yfirleitt er orðið stjórnvöld án greinis og því er það svolítið ókennilegt þegar honum hefur verið bætt við.

Ofangreint fannst í aðsendri á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 22.9.23 sem er ansi forvitnileg.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Hægrisinnaðir stjórnarandstæðingar í Frakklandi náðu í gær góðri siglingu með að framlengja söguleg yfirráð sín í öldungadeildinni, í kosningum sem marka enn eitt áfallið fyrir stjórnarflokk Emmanuels Macrons forseta.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 25.9.23. 

Athugasemd: Þetta er illskiljanleg málsgrein. Ástæðan eru feitletruðu klisjurnar sem hjálpa lesandanum ekkert. Komman á ekki að vera þar sem hún er sett. Orðalagið „siglingu með að“ bendir til að höfundurinn sé óvanur skrifum á íslensku.

Eru hægri sinnaðir stjórnarandstæðingar enn í meirihluta í frönsku öldungadeildinni? Ekki er hægt að ráða það af málsgreininni hvort heldur er.

Hægt er að gera athugasemdir við fleira í fréttinni. Hún ekki vel skrifuð.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband