Draslorð - dellur - ofnotuð orð og orðasambönd

Orðlof

Óhætt er að óska lesendum gleðilegs árs jafnvel þó áraskipti séu í aldrei neitt ýkja merkileg. Engu að síður þakkar umsjónarmaður lesandanum sínum fyrir ferðalagið síðustu þrjúhundruð sextíu og fimm, komma tveir, fjórir, tveir, fimm (365,2425) daga.

Sjö ár eru liðin frá því að þessir pistlar tóku að birtast. Þeir skrifa sig næstum því sjálfir, ástæðan er auðsæ. Þó er nokkur vinna við hvern og einn. Áðurnefndur telur sig hafa lært talsvert á skrifunum, er þó fjarri því fullnuma og síst af öllu óskeikull þó svo að orðalagið í pistlunum beri annað með sér.

Að þessu sögðu er aðeins eftir að opinbera áramótaheitið („afhjúpa“ það eins og margir blaðamenn segja). Hins vegar bregst minnið oftar en ekki, jafnvel á ögurstundu eins og þessari. Umsjónarmaður man ekkert hvert það átti að vera og varla við því að búast að hann muni eftir því með hækkandi aldri og miklum spekileka.

Á síðustu og verstu tímum verður samt hvergi hvikað hér (þessum vettvangi, eins og löggan segir). Nóg er að forsetinn ætli að hætta, danska drottningin sé komin með bakverk og tröllið Trump er á leiðinni. Árvekni er því þörf og hér verður stigið til hliðar til þess eins að fara eftir danskennaranum sem sagði hliðar saman hliðar og glímukennarinn sagði stigið. Samt hætti enginn, enskutalandi til mikillar furðu.

Tapað stríð gegn draslorðunum

Á síðustu árum hafa orðið til nauðaómerkileg orð sem eru til óþurftar því fyrir eru miklu betri orð sem hingað til hafa staðið fyrir sínu í skrifum og tali. Dæmi um slíkt er svokallaður „viðbragðsaðili“, dæmigert draslorð. Hér eru getið um nokkuð af drasli (dröslum eins og margir kunna að segja).

Ákvarðanataka - Betra: Ákveða, taka ákvörðun

Fara fram - Betra leikur, fundur, mótmæli var, er/verða, voru, og svo framvegis

Framkvæma rannsókn - Betra: Rannsaka.

Kostnaðarsamur - Betra: Dýr

Reynslumikill - Betra: Reyndur

Rekstraraðili - BetraEigandi, stjórnandi, framkvæmdastjóri 

Ríkjandi (meistari í íþróttum) - Betra: Núverandi.

Af hverju er ekki talað um „sitjandi meistara“. Svarið er einfalt: Orðalagið er ekki til í ensku.

Sitjandi (forseti, þingmaður og fleira). - Betra: Núverandi. 

Af hverju er ekki talað um „ríkjandi forseta“ eða þingmann. Svarið er einfalt: Orðalagið er ekki til í ensku.

Tímapunktur - BetraNú, núna, einhvern tímann

Valkostur - Betra: Val og kostur, tvö orð sem hafa svipaða merkingu

Viðbragðsaðili - BetraLögregla, slökkvilið, sjúkralið, björgunarsveitar, Landhelgisgæsla, vegfarendur og aðkomnir. Hér eru pælingar:

Hvað kallast „viðbragðsaðili“ sem kemur of seint á staðinn? Varla telst það viðbragð að bregðast við of seint.

Kallast björgunarsveitarmaðurinn eða löggan við vegamótin til Grindavíkur „viðbragðsaðili“ þó hann hafi staðið þar í margar klukkustundir?

Kallast það viðbragð að bregðast við atburði sem er löngu liðinn?

Er löggan sem sefur heima í rúmi sínu „viðbragðsaðili“?

Hvenær verður maður „viðbragðsaðili“?

Í stuttu máli: „Hvenær drepur maður mann …“

Vindasamur  - Betra: Hvass, hvassviðri, bræla, óveður, rok, hret …

Dellur

Orðalagið að stíga til hliðar merkir ekkert annað en það sem í orðunum felst. Sögnin að stíga merkir ekki að hætta heldur að taka skref, getur líka þýtt að hækka. Nafnorðið stígur merkir gata eða troðningur. 

  1. Stíga til hliðar. - Betra: Hætta.
  2. Stíg niður. - Betra: Hætta
  3. Stíga upp: - Betra: Ekkert að þessu, merkir að ganga upp á við
  4. Stíga fast til jarðar. Betra: Spyrna við fótum, tregast við
  5. Stíga niður fæti. - Betra: Ganga.

 

Nafnorðasagnir

Slatti af sagnorðum eru dregin af nafnorðum og oft ekkert að því. Sum eru þó frekar hallærislegar og frámunalegar ljótar í rituðu máli. Dæmi:

  • Deiliskipulagsgera
  • Fjallahjóla
  • Fyrirspyrja
  • Grendarkynna
  • Háþrýstiþvo
  • Leiðsegja

Hillan

Orðtakið að leggja eitthvað hilluna er gott og gilt en því miður ofnotað eins og þessi dæmi úr fjölmiðlum sanna:

  1. Leggja skóna á hilluna (boltaíþróttir)
  2. Leggja takkaskóna á hilluna (fótboltamaður)
  3. Leggur augnhárin á hilluna (viðskipti)
  4. Leggja atvinnumennskuferilinn á hilluna (golfari)
  5. Leggur flautuna á hilluna (dómari í boltaíþrótt)
  6. Leggur hanskana á hilluna (hnefaleikamaður)
  7. Leggur stígvélin á hilluna (fiskvinnslumaður)
  8. Leggur skíðin á hilluna (skíðamaður)
  9. Leggur svuntuna á hilluna (matreiðslumaður)
  10. Leggur hælana á hilluna (söngkona)
  11. Leggur sloppinn á hilluna (kvikmyndaleikkonan sem læknir)
  12. Leggur varnarskjöldinn á hilluna (Bandaríkjaforseti)
  13. Leggja Windows XP á hilluna (stýriforrit)

 

Oftast er hægt að sleppa hillunni og segja að maðurinn ætli að hætta eða hafi hætt.

Ofnotuð orð og orðasambönd

  1. Ákall; er það ósk, bæn, krafa?
  2. Kalla eftir; er það ósk, bæn, krafa?
  3. Biðla er það að biðja, krefjast, óska, heimta?
  4. Gera það að verkum; afar leiðigjarnt orðalag
  5. Heimsvísa; betra er í heiminum.
  6. Landsvísa; betra er á landinu.
  7. Leggja skóna á hilluna; betra er að hætta.
  8. Lærisveinar þjálfara; betra er leikmenn liðsins.
  9. Mikilvægi þess; afar leiðigjarnt orðalag, ber vott um að skrifarinn sé óvanur
  10. Mögulega; betra hugsanlega, ef til vill, jafnvel 
  11. Nauðsyn þess; betra er að umorða, ber vott um að skrifarinn sé óvanur
  12. Staðsettur; betra að nota sögnina að vera.
  13. Um að ræða; betra er að umorða.
  14. Vera til staðar; betra er að umorða.
  15. Viðbúið; margir misskilja orðið og halda notkun þess sé gáfumerki.
  16. Samanstendur af; betra að umorða
  17. Segja bless við; frekar barnalegt orðalag, betra kveðja.
  18. Jarðskjálfti upp á x stig: betra x stiga jarðskjálfti.

Ítrekað

Í langflestum tilvikum er betra að nota oft og sleppa ítrekað. Í eftirfarandi dæmahrúgu úr fjölmiðlum hefði verið eðlilegra að nota atviksorðið oft.

  1. Hún sak­ar hann um að hafa lifað tvö­földu lífi og að hafa haldið fram­hjá sér ít­rekað.
  2. Sterling sjálfur hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á kynþáttahatri, bæði innan og utan vallar.
  3. Bol­son­aro, líkt og koll­egi hans Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti, hef­ur ít­rekað mætt á op­in­bera viðburði án and­lits­grímu.
  4. Bílstjórinn bað þá um að yfirgefa vagninn og reiddust þá mennirnir mjög og réðust á bílstjórann og kýldu hann ítrekað í höfuðið.
  5. Beitt konu sína ítrekað ofbeldi.
  6. Ítrekað gerir vestanátt á svæðinu þar sem hrúgurnar standa við Eiðsgranda. [Enn hvessir af vestri ]
  7. Fótboltavöllurinn hefur ítrekað verið til vandræða.
  8. Trump hef­ur ít­rekað nýtt embætti sitt til þess að vekja at­hygli á golf­völl­um sín­um …
  9. Fauci sagðist þar hafa fengið raunverulegar morðhótanir og að fjölskyldu hans hafi ítrekað verið hótað.
  10. Taka þarf mið af jarðskjálftahættu, m.a. Suðurlandsskjálftum sem lögðu Skálholtsstað ítrekað í rúst á liðnum öldum …
  11. Fötluðu fólki ítrekað beint inn á stofnanir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband