Veifa bless - framkvæma greiðslu - flugeldaslys í póstnúmeri
17.1.2024 | 14:45
Orðlof
Ástfanginn af
Vafalaust finnst flestum orðið ástfanginn heldur notalegt, jafnvel fallegt.
Fyrir öld voru ekki allir þeirrar skoðunar og fannst betra að nota orðið ásthrifinn. Þá væri unnt að greina á milli þeirrar tilfinningar að líka vel við einhvern eða vera hrifinn af honum og svo þess þegar ástin kemur til sögunnar og maður verður ásthrifinn af honum eða henni.
Málvenja er að segjast vera ástfanginn af Gunnu, en síður ástfanginn í Gunnu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Forstjórinn veifaði bless.
Frétt á blaðsíðu 32 í Morgunblaðinu 4.1.24.
Athugasemd: Frekar er þetta nú flatt orðalag, nærri því barnslegt. Þó er það alls ekki rangt. Forstjórinn stóð á bryggjunni og veifaði í kveðjuskyni er skipið lagði úr höfn.
Tillagan er skárri.
Tillaga: Forstjórinn veifaði í kveðjuskyni.
2.
Braga tókst að framkvæma erlendu greiðsluna
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Venjulegt fólk greiðir. Skiptir engu hvort það er gert við kassann í Bónus, millifært í tölvu innanlands eða greiðsla send til útlanda. Athöfnin kallast greiðsla sem er nafnorð, sögnin er að greiða. Fer einkar vel á því.
Á sama hátt er einfalt að hugsa og skrifa en engum dettur í hug að framkvæma hugsun eða framkvæma skrif, þá væri tungumálið komið á heljarþröm.
Tillaga: Braga tókst að greiða erlenda reikninginn
3.
upplifði mikið trauma í æsku sem endaði í átröskun og áföllum.
Frétt á forsíðu Morgunblaðsins 7.1.24.
Athugasemd: Aldrei getur enska orðið trauma aldrei talist íslenska. Það má þýða sem áfall, harmur eða hremmingar, oft sálrænt.
Í viðtali sem fylgir segir:
Mamma var mikið veik einhverju fyrir fertugt.
Ótrúlegt er að reyndur og góður blaðamaður skuli ekki lagfæra orðalag viðmælanda síns, færa það til betri vegar. Svona getur ef til vill gengið í talmáli en aldrei rituðu. Eftirfarandi er skárra; rétt undir fertugu eða nokkru fyrir fertugt.
Tillaga: upplifði miklar hremmingar í æsku sem endaði í átröskun og áföllum.
4.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynning um flugeldaslys í póstnúmeri 105 í Reykjavík
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Þegar blaðamaðurinn fór í vinnuna skildi hann eftir skynsemina rétt eins og löggan sem skrifað fréttina. Póstnúmer eru ekki heiti á hverfum á höfuðborgarsvæðinu né annars staðar. Híðahverfi hefur til dæmis póstnúmerið 105.
Löggan kann ekki að skrifa, svokölluð dagbók hennar ber það með sér. Margir blaðamenn halda að allt sem frá löggunni kemur sé pottþétt og skrifað á einhvers konar gullaldaríslensku. Svo er ekki.
Við má bæta að fólk er almennt hætt að senda bréf í pósti, sama er með fyrirtæki og opinberar stofnanir enda svo komið að Pósturinn er því sem næst á hausnum. Nær allir senda tölvupóst, jafnvel jólakortin fara í rafræna sendingu. Pósturinn og póstnúmer eru því orðin dæmi um úrelt fyrirbrigði en löggan áttar sig ekki á því. Hún tjáir sig á úreltan máta.
Þess má geta að blaðamaður Ríkisútvarpsins vitnar í dagbók löggunnar í frétt sinni, sjá hér. Hann sleppir því að nefna póstnúmerið.
Tillaga: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um flugeldaslys í Hlíðunum í Reykjavík .
5.
Meðal nýrra reglna er að starfsfólk sinni ekki aukastörfum sem séu ósamrýmanlegar starfinu
Frétt á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 8.1.24.
Athugasemd: Fréttin fjallar um nýjar siðareglur stafsmanna ríkisins. Má vera að eftirfarandi sé útúrsnúningur, en engu að síður áleitin pæling:
Mega þá starfsmenn taka að sér aukastörf sem eru samrýmanleg því starfi sem þeir gegna hjá ríkinu?
Hvað er samrýmanlegt og hvað ósamrýmanlegt?
Getur til dæmis bókari hjá ríkisfjárhaldi tekið að sér sama starf í aukavinnu fyrir verktakafyrirtæki? Getur starfsmaður Kvikmyndasjóðs samið handrit að bíómynd eða sjónvarpsmynd? Getur hæstaréttardómari samið lög eða reglugerð fyrir dómsmálráðuneytið? Getur ...
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Þrjú af fjórum liðum leika í úrvalsdeildinni og væri því hægt að notast við VAR í þremur af fjórum leikjum undanúrslitanna.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Til er ein góð regla í skrifum og á líka við í blaðamennsku: Skiljist málsgreinin ekki umsvifalaust, þá þarf að umorða. Málsgreinin skilst ekki.
Tillaga: Engin tillaga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.