Kalla eftir - meiðsl urðu að steini í götu - leyfi detta í hús

Orðlof

Úrfellingarpunktar

Úrfellingarpunktar (…) (e. ellipsis) er greinarmerki sem hefur sjálfstætt hlutverk: táknar úrfellingu úr orði eða setningu eða jafnvel hik. Fjallað er um notkun þess í undirkafla 31.2 í ritreglum Íslenskrar málnefndar.

Merkið er sett saman úr þremur punktum en er sjálfstætt tákn í flestum leturgerðum og þess gætt af leturhönnuðum að bil milli punkta í merkinu sé hæfilegt. Hér má sjá dæmi um muninn á þremur punktum og tákninu fyrir úrfellingarpunkta:

…  (úrfellingarpunktar, eitt tákn)

. . . (þrír punktar í röð)

Táknið fyrir úrfellingarpunkta má kalla fram í ANSI-táknrófinu (með því að halda niðri alt-hnappnum og slá inn 0133) og í Unicode-táknrófinu (með því að slá inn 2026, halda niðri alt-hnappnum og slá inn x).

Ritvinnsluforrit eru einnig stundum stillt þannig að þegar slegnir eru inn þrír punktar í röð þá breytast þeir sjálfkrafa í táknið fyrir úrfellingarpunkta.

Kostir fylgja því að nota sérstakt tákn fyrir úrfellingarpunkta. Ekki er þá hætta á að punktarnir þrír skiptist á milli lína, þeir haldast í sömu línu. Greinarmerkið er þá einnig hannað sem heild, eins og áður er nefnt.

Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknardósent. Málræktarpistlar, vefur Árnastofnunar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Jón Gunn­ars­son þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins kall­ar eft­ir stjórn­arslit­um vegna …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað vill maðurinn? Krefst hann stjórnarslita, óskar hann eftir þeim, biður hann um þau eða hvað kallar hann? Ha?

Á Vísi segir:

Jón Gunnars­son kallar eftir nýjum meiri­hluta …

Útilokað er að átta sig á því hvað maðurinn vill og lesandinn er engu nær þótt hann lesi fréttirnar

Ekki er hægt að grípa til ensks orðalags og þýða á íslensku. Sögnin að kalla merkir að hrópa, hafa hátt, brýna raustina og svo framvegs. Orðalagið er nýlegt, en styðst ekki við íslenska málvenju.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Meiðsli urðu steinn í götu henn­ar í sum­ar en …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Mjög algengt er að blaðamenn fari rangt með orðtök og málshætti. Þekkt er orðtakið að leggja stein í götu einhvers sem merkir að hringdra eða tefja.

Umsnúningur orðtaksins gengur ekki upp vegna þess að steinn verður ekki hindrun nema hann sé lagður í götu einhvers. Annars er hægt er að sneiða fram hjá steinum, stíga yfir hann. Orðtakið lifir ekki svona breytingu af.

Fréttin fjallar um konu sem farið hefur eitthundrað sinnum á Esju. Hún er sögð hlaupari en ekki kemur fram hvort hún hafi hlaupið upp á fjallið eða gengið. Ekki heldur kemur fram hvar á fjallið hún fór. Fjöldi gönguleiða er á Esju. Gera má þó ráð fyrir að hún hafi gengið á Þverfellshorn, flestir fara þangað upp. Ekki heldur kemur fram hvort konan hafi gengið upp að svokölluðum „steini“ sem er nokkuð fyrir neðan hamrabeltið eða alla leiðina upp. Allt þetta er galli á fréttinni.

Þess má geta að umsjónarmaður hefur nokkrum sinnum gengið á Esjuna. Eitt árið gekk hann fimmtíu og tvisvar sinnum upp á Þverfellshorn, alla leið, og þóttist afreka mikið. Þykir honum því meira til um ferðir konunnar sem gekk eitthundrað sinnum á fjallið, hvort sem hún hafi farið upp að „steini“ eða alla leið.

Tillaga: Meiðslin í sumar töfðu hana …

3.

„Fannar bæjar­stjóri maður ársins að mati les­enda Vísis og hlust­enda Bylgjunnar.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Á öðrum fréttamiðlum er bæjarstjórinn sagður „manneskja ársins“. Hann/hún er vel að titlinum kominn og ábyggilega ánægður/ánægð með heiðurinn.

Engu að síður er ástæða til að velta því fyrir sér hvort kona geti verið manneskja ársins eða bara kona ársins. Þó er ljóst að konur eru menn og getur hver og ein verið maður ársins.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Danadrottning stígur til hliðar.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er alrangt. Drottningin hættir, afsalar sér völdum.

Á Vísi segir:

Margrét Þór­hildur stígur til hliðar.

Nei, hún hættir. Heimild Moggans er vefur Danmarks Radio, DR. Þar stendur:

Dronning Margrethe vil abdicere og overlade tronen til sin søn …

Hvergi í fréttinni segir „Dronningen af Danmark træder til side“. Íslenska orðalagið er misskilningur blaðamannsins.

Hvað merkir að stíga til hliðar? Bókstafleg merking er að lyfta fæti og setja hann utar en hann var Andskotakornið, þetta vita allir. 

Afar sjaldan segja blaðmenn að einhver hætti

Á DV stendur um drottninguna:

… að hún muni afsala sér krúnunni …

Þetta er mjög gott hjá blaðamanninum, hann er með’etta, eins og sagt er í boltanum. Að vísu dró nokkuð úr hrifningunni þegar þetta bar fyrir augu:

Segja má að með hvarfi Margrétar Þórhildar af dönsku krúnunni séu …

Flestir hafa heyrt af sögunni „Prinsessan á bauninni“ eftir H. C. Andersen. Enn er þó eftir að skrifa söguna „Drottningin á krúnunni“.

Tillaga: Drottningin afsalar sér krúnunni.

5.

„… en horft er til þess að síðustu leyf­in detti í hús um há­degi.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er afar óeðlilegt orðalag, stirt og kjánalegt. Mun betra er að skrifa alþýðlegt mál í stað þess að skreyta að hætti illa skrifandi íþróttablaðamanna. Tillagan er mun skárri.

Tillaga: … en búist er við að síðustu leyfi berist um hádegið.

6.

„Ríkisútvarpið gerðist ekki brotlegt við lög um um jafna meðferð á vinnumarkaði með því að ráða ekki fatlaðan mann í hlutastarf við prófarkalestur.

Frétt á Vísir. 

Athugasemd: Segja má að blaðamenn á Ríkisútvarpinu standi sig vel miðað við marga aðra fjölmiðlunga.

Tillaga: Engin tillaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband