Blaðamaður á staðnum og á svæðinu - skaffar fyrir heitt vatn- kirkja verði friðlýst hús
14.2.2024 | 10:19
Orðlof
Orðkynngi
Drykkurinn umbreyttist á augabragði úr nær ódrekkandi bringuháraelexír í seiðandi blöndu af ávöxtum og kryddum. Áður hafði leðursápa, lakkrís, salt, karrí og kúmen verið ráðandi, en nokkrir vatnsdropar göldruðu fram biksvart súkkulaði, vandlega þroskaða banana og gúmmísælgæti, fléttað saman við skemmtilega skítugan keim af reyk og torfi.
Útkoman er hrífandi viskí með djúpan og viðkunnanlegan persónuleika, og paraðist vel með hamborgara og ágætlega með dökku súkkulaði sem ég hafði við höndina.
Ásgeir Ingvarsson, Hið ljúfa líf. Blaðsíða 8 í Viðskiptamogganum 7.2.24.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Að sögn blaðamanns mbl.is á staðnum má sjá mikinn reyk á svæðinu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skelfing er þetta nú innantóm málsgrein. Blaðamaðurinn er á staðnum og reykur er á svæðinu. Staðurinn og svæðið; tvítekning.
Til hvers er orðalagið má sjá. Samkvæmt myndum er ekkert má sjá þarna. Reykurinn, það er gufan, fer ekki framhjá neinum sem skoðar myndirnar sem fylgja fréttinni.
Tillaga: Miklir gufumekkir stíga upp af hrauninu að sögn blaðamanns mbl.is sem er á staðnum.
2.
Við sækjum fólkið okkar heim!
Auglýsing á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 9.2.24.
Athugasemd: Nokkur munur er á því að heimsækja fólk og sækja fólk heim. Hið fyrrnefnda skilja allir. Leigubílar sækja fólk heim fyrir borgun. Nær allir hafa sótt til dæmis pabba og mömmu og farið með þau eitthvað, gangandi, í bíl ...
Auglýsing með svona fyrirsögn er gagnslítil.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
heitavatnslögnin sem skaffaði 30 þúsund manns fyrir heitu vatni.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Forsetningunni fyrir er þarna ofaukið. Ekkert er að því að nota sögnina að skaffa. Betur fer þó á því að orða það eins og segir í tillögunni.
Tillaga: heitavatnslögnin sem færði 30 þúsund manns heitt vatn.
4.
og ógn yfir næstu nágranna og er óviðunásættanlegt með öllu fyrir þá, segir Ásdís Hlökk.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 13.2.24.
Athugasemd: Líklega hefur feitletraða orðið óvart hrokkið upp úr viðmælanda blaðamannsins sem gæti þó hafa í fljótfærni sinni misritað. Tvö orð runnið samann í eitt; óviðunandi og óásættanlegt. Annað dugar. Þó er það síðarnefnda frekar bjánaleg þýðing á enska orðinu unacceptable.
Mikilvægt er að láta tölvuna villuprófa textann fyrir birtingu. Það gerði blaðamaðurinn ekki en er þó manna reyndastur á Mogganum..
Tillaga: og ógn yfir næstu nágranna og er óviðunandi með öllu fyrir þá, segir Ásdís Hlökk.
5.
Borgarneskirkja verði friðlýst hús.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 13.2.24.
Athugasemd: Kirkja er hús. Óþarfi að tilgreina það sérstaklega eins og gert er í fyrirsögninni.
Tillaga: Borgarneskirkja verði friðlýst.
6.
Í nýrri skýrslu um markað orkuskipta í samgöngum sem ber heitið Er ríkið í stuði? og unnin er af ráðgjafarfyrirtækinu Intellecon fyrir Félag atvinnurekenda (FA) kemur fram að af þeim fyrirtækjum sem starfa á samkeppnismörkuðum virðiskeðjunnar frá heildsölu raforku til rekstrar hleðslustöðva er meirihlutinn í opinberri eigu.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 13.2.24.
Athugasemd: Þetta er nú meiri langlokan, 48 orð, er í upphafi fréttar sem er svo sem ágæt. Til að skilja málsgreinina þyrfti sérfræðing í samantekt fornra dróttkvæða til að rannsaka hana. Eftir ítarlega skoðun gæti kjarni málsins verið þessi: Meirihluti hleðslustöðva er í opinberri eigu. Maður er samt ekki viss, svo mikið flækjustig er í tilvitnuninni.
Hvað merkir orðalagið samkeppnismarkaðir virðiskeðjunnar frá heildsölu raforku til rekstrar? Þetta er langt frá því að vera alþýðlegt mál, líklega ætlað fyrir örfáa furðufugla sem sjaldan koma út undir bert loft.
Tillaga: Engin tillaga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.