Rústir af brú - hann Birgir Boeing - of mörg í framboði
31.3.2024 | 11:26
Orðlof
Pæla
Upphaflega merkti sögnina pæla að stinga upp mold eða jarðveg og það var gert með verkfæri sem kallaðist páll og var eins konar stunguspaði.
Seinna fékk sögnin yfirfærðu merkinguna að erfiða og svo einnig að brjóta heilann um, sökkva sér niður í.
Nú hefur óeiginlega merkingin vafalaust náð yfirhöndinni því flestir pæla í hinu og þessu jafnvel þótt þeir hafi aldrei notað pál og viti jafnvel ekki að slíkt verkfæri sé til.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
verði notaður til að reyna að fjarlægja rústirnar af skipinu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Rúst er ekki brak. Í fréttinni er nokkrum sinnum réttilega talað um brak af brú sem hrundi í Bandaríkjunum.
Í almennu máli er rúst leifar af föllnu húsi. Talað er um bæjarrústir, auðar tóftir, grónar rústir, tóftarbrot og svo framvegis. Allir með þokkalegan skilning á málinu átta sig á þessu. Rúst er ekki brak og brak er ekki rúst.
Fyrir nokkrum árum var vindmylla felld í Þykkvabæ, möstur felld á Gufuskálum og á Vatnsendahæð. Mannvirkin lágu brotin á jörðinni og kallast þar brak en ekki rúst.
Í fréttinni segir:
Í fjórar mínútur rak 300 metra langt skipið áður en það hafnaði á brúnni.
Mörgum blaðamönnum þykir fínt að nota sögnina að hafna sem í sjálfu sér er ekki rangt en ofnotað. Engu að síður rakst skipið á brúna, lenti á henni.
Tillaga: verði notaður til að reyna að fjarlægja brakið af skipinu.
2.
Birgir Boeing til rannsóknar.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Skyldi hann Birgir Boeing vera af íslenskum ættum? Nei, hann er ekki maður en samt er birgir Boeing til rannsóknar í útlöndum.
Birgir er vissulega íslenskt mannsnafn en birgir (með litlum staf) er gott og gilt íslenskt orð yfir fyrirtæki sem framleiðir og/eða selur varahluti.
Þeir sem kunna útlensku hafa sagt umsjónarmanni að enska orðið supplier (borið fram söplæer) þýði á íslensku birgir eða birgðasali.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Frumvarpinu er aðallega ætlað að bregðast við aukinni umferð smáfarartækja
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Frumvarp til laga sem og annað skriflegt á pappír eða rafrænum tækjum geta ekki brugðist við einu eða neinu.
Berum saman tilvitnunina og tillöguna. Grundvallarmunur er á þeim.
Tillaga: Með frumvarpinu er aðallega ætlað að bregðast við aukinni umferð smáfarartækja
4.
Fyrsta árið sitt halaði þessi ríkisstjórn inn einar lægstu skattatekjur nokkru sinni.
Frétt/viðtal á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 30.3.24.
Athugasemd: Orðalagið er enskt. Orðin nokkru sinni eru eins og kúadella á baðherbergisgólfi, á ekki heima þar.
Viðmælandi blaðamannsins er enskur og hefur vafalaust sagt eitthvað á þessa leið á sínu móðurmáli:
In its first year, this government brought in one of the lowest tax revenues ever.
Enska atviksorðið ever merkir hér aldrei. Til þess að koma merkingunni til skila má ekki þýða beint á íslensku heldur þarf að ummorða setninguna, rétt eins og gert er í tillögunni.
Viðtalið er hins vegar ansi fróðlegt þó hnýta megi hér og þar í orðalag.
Tillaga: Skatttekjur ríkisins höfðu aldrei verið lægri en á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar.
5.
Hvorki Sjálfstæðisflokkur né VG eru á þeim stað gagnvart kjósendum að vilja fara í kosningar.
Aðsend grein á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu 30.3.24.
Athugasemd: Við liggur að greinarhöfundur hengist í orðaflækjunni. Feitletruðu orðin eru óþörf og tillagan er mun skárri.
Greinin byrjar svona hörmulega:
Páskarnir veita ágætt svigrúm frá amstri dagsins til að gera hið ýmsa:
Orðalagið er ótrúlega vitlaust. Hvað merkir að gera hið ýmsa. Ekki neitt, þetta er málleysa. Skárra hefði verið að tala um ýmislegt.
Greinarhöfundur hefði átt að lesa skrifin yfir fyrir birtingu, það er oftast þjóðráð.
Tillaga: Hvorki Sjálfstæðisflokkur né VG treysta sér í kosningar.
6.
Segir of mörg í forsetaframboði
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Mörg er hvorugkyn í fleirtölu og bendir til að hvorki séu karlar né konur í framboði. Þá getur varla verið aðrir (karlar og konur) eftir en börn en þau hafa ekki atkvæðisrétt og mega ekki bjóða sig fram til embættisins.
Orðalagið er tilraun til að afkynja íslenskuna. Ekki má lengur tala um marga því þeir (karlar og konur) sem hafa litla tilfinningu fyrir málinu halda að þá sé einungis átt við karla. Það má sko alls ekki þó svo að hafið sé yfir allan vafa að bæði konur og karlar séu menn.
Þjóðráðið er því að nefna menn í hvorugkyni sem á að vera hlutlaust kyn. Með því er vegið að grundvelli tungumálsins í þágu pólitískrar rétthugsunar.
Spaugilegast við svona póltík er að alltaf tekur ósjálfráð máltilfinning völdin og rétthugsunin gleymist.
Ofangreind tilvitnun er fyrirsögn endursagnar á aðsendri grein og á að heita frétt. Strax í upphafi hennar hrasar blaðamaðurinn og skrifar svo ósjálfrátt um greinarhöfund:
Hann segir of marga vera í framboði
Þetta er auðvitað ansi broslegt en veldur engu að síður á glundroða í skrifum fjölmargra blaðamanna og um síðir bitnar allt á lesendum.
Tillaga: Segir of marga í forsetaframboði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.