Til fjögurra mánaða og viðbragðsaðilar

Orðlof

Rannsókn

Rannsóknir eru margs konar nú á dögum og menn rannsaka allt milli himins og jarðar. 

Upphaflega var merking orðsins rannsókn þó mun þrengri. Fyrri hluti orðsins er dregin af gömlu orði sem nú er tæpast notað, rann (hvorugkyn) eða rannur (karlkyn) sem merkti hús eða heimili. 

Síðari hlutinn, ‘-sókn’, merkir ‘leit’ þannig að upprunaleg merking samsetta orðsins er eiginlega ‘húsleit’. 

Norræna sögnin rannsaka var tekin upp í ensku fyrir margt löngu og þar er hún ennþá notuð í merkingu sem er nær þeirri upprunalegu en sú sem hún hefur í nútíma íslensku. Enska sögnin ransack merkir nefnilega ‘að gera (hús)leit, leita vandlega’ en hún getur reyndar líka merkt ‘að ræna og rupla’.

Orðabelgur.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Var hann svipt­ur skip­stjórn­ar­rétt­ind­um til fjög­urra mánaða og …“

Frétt á mbl.is.                                         

Athugasemd: Var maðurinn ekki sviptur réttindum í fjóra mánuði? Sá sem ekur fullur á það á hættu að missa ökuréttindin í ár, ekki „til árs“.

Tillaga: Hann var svipt­ur skip­stjórn­ar­rétt­ind­um í fjóra mánuði og …

2.

Sam­tökin greindu þó frá því í yfirlýsingu að þau væru ekki í efnahags­legum vand­ræðum og að fjárhagur þeirra væri sterkari en áður fyrr en breytingin myndi hag­ræða rekstur sam­takanna.“

Frétt á frettabladid.is.                                         

Athugasemd: Málsgreinin er óskiljanleg. Í fréttinni er sagt frá NRS sem er samtök byssueigenda í Bandaríkjunum en þau hafa óskað eftir gjaldþrotaskiptum. 

Af því leiðir að ofangreind tilvitnun skilst enn síður en ella. Þar að auki skilst ekki hvernig gjaldþrota samtök séu „ekki í efnahagslegum vandræðum“, „fjárhagur þeirra væri sterkari en áður“ og „breytingin myndi hagræða rekstur samtakanna“.

Held að blaðamaðurinn hafi ruglast í þýðingunni, hann hefur skrifað það sem orðin merkja en skilur ekki hvað átt er við. 

Líklega hafa prófarkalesarar Fréttablaðsins verið í fríi þegar blaðamaðurinn fékk að leika lausum hala og birta þessa frétt.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var fjölskylda í bílnum; maður, barn og kona.

Frétt á visir.is og ruv.is og frettabladid.is.                                       

Athugasemd: Orðalagið kemur frá löggunni. Hún er varla skrifandi. Athygli vekur að skýrir blaðamenn á Vísi, Ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu skuli ekki breyta þessu og færa til betri vegar. Mogginn hefur þetta hins vegar rétt. Og dv.is af öllum miðlum segir:

var um að ræða fólksbíl með þriggja manna fjölskyldu innanborðs.

Þetta er nokkuð góð málsgrein en hefði mátt vera svona:

… var í fólksbílnum þriggja manna fjölskylda.

Óþarfi þessi orð; „um að ræða“ og „innanborðs“. Að öðru leyti bara gott hjá DV; ekki falleinkunn eins og þeir fá hjá Vísi, Ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu.

Til að forðast allan misskilning tilkynnist hér með að konur eru menn, rétt eins og karlar. Annað væri ómannlegt. Margt bendir til að börn séu líka menn, en vissara er að spyrja lögguna áður en það er fullyrt. 

Og „manneskja“ er maður og oftast er betra til notkunar en fyrrnefnda heitið.

Tillaga: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru hjón með eitt barn í bílnum.

4.

Klukkutíma eftir útkallið komu viðbragðsaðilar á vettvang.“

Frétt á visir.is.                                         

Athugasemd: Áður en lögregla koma að bílslysi höfðu vegfarendur unnið að því að bjarga fjölskyldunni. Með réttu eiga þeir því að kallast „viðbragðsaðilar“.

Orðið „viðbragðsaðili“ er eitt af þessum furðulegu orðum sem fjölmiðlar hafa búið til í tengslum fréttir af óhöppum, slysum og náttúruhamförum. 

Við vitum að lögreglan bregst við mörgu, sama er með slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, húsverði, gangbrautarverði, meindýraeyði og jafnvel þá sem ryðja snjó af þjóðvegum. Þar að auki má nefna vegfarendur eða þá sem eru nærstaddir. Allir geta í raun verið „viðbragðsaðilar“. 

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað sínu rétta nafni. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn.

Á malid.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.

T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Í upptalninguna vantar letiorðið „viðbragðsaðili“ sem má alveg hverfa úr málinu vegna þess að auðvelt er að nefna þá sem koma að óhöppum, slysum eða náttúruhamförum sínum réttu nöfnum. Íslenskan þarf ekki svona orð.

En það er lítil von til að „fjölmiðlaaðilar“ láti af ósið sínum.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Áhugavert með orðið rannsókn hvað það merkti áður, en ég tel að önnur merking komi til greina, það er að segja heimsókn, húsleit gæti komið til greina einnig. 

Ingólfur Sigurðsson, 18.1.2021 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband