Samanstendur af sjö þotum, í gærkvöld og handsömuðu manneskju
13.5.2021 | 11:51
Orðlof
Í geldingadölum íslenskunnar
Geldingadalir eru það sannarlega, því markvisst er unnið að því í fjölmiðlum að svipta tungumálið okkar fegurð sinni og þokka. [ ]
Ef fram fer sem horfir mun verða brýn þörf á að fá andlausa skriffinna, sérhæfða í tungu geldleikans, til að endurrita allar okkar bókmenntir og aðrar ritaðar heimildir sem fylgt hafa þjóðinni um aldir.
Þar mun manndrápsveður trúlega verða kallað fólksdauðaveður, mannafælur einstaklingafælur, manngangur stykkjahreyfingar, mannamál fólksmál, mannbroddar einstaklingsbroddar, landsmenn landsfólk, manntal manneskjutal, mannamót aðilahittingar, og skessur munu ekki lengur finna mannaþef í helli sínum, heldur aðilafýlu.
Vala Hafstað, grein í Fréttablaðinu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Flugfélagið Play stefnir á að floti þess samanstandi af sex til sjö farþegaþotum um komandi áramót þegar flug til Bandaríkjanna kemst á.
Frétt á forsíðu viðskiptablaðs Morgunblaðsins 5.5.21.
Athugasemd: Stundum virðast blaðmenn vera svo uppteknir í efni fréttar að þeir gleyma að vanda skrif sín og framsetningu. Engin þörf er hér á þessu skrýtna sagnorði samanstanda þegar einfaldast er að nota það algengasta í íslenskri tungu, að vera.
Betur fer á því að segja um næstu áramót en næstkomandi áramót.
Og um þau áramót byrjar flugfélagið Play að fljúga til Bandaríkjanna sem er einfaldara orðalag en í fréttinni.
Í fréttinni segir:
Ekki liggur ljóst fyrir á þessum tímapunkti hvenær félagið fær heimild til þess að fljúga inn á Bandaríkin
Þetta er furðuleg málsgrein. Kjánaorðinu tímapunktur er algjörlega ofaukið hér eins og í flestum öðrum tilfellum. Og hvernig félag flýgur inn á Bandaríkin er óskiljanlegt. Málsgreinin ber vott af stofnanamállýsku en ekki eðlilegu íslensku máli.
Hér fer betur á því að orða málsgreinina svona:
Ekki liggur ljóst fyrir hvenær félagið fær heimild til þess að fljúga til Bandaríkjanna
Enn segir í fréttinni:
Þá gera áætlanir félagsins ráð fyrir að áætlunarflug til Bandaríkjanna komist í gagnið í kringum áramót en þá þurfi floti félagsins að samanstanda af sex til sjö vélum.
Blaðamaðurinn endurtekur það sem þegar hefur komið fram í fréttinni sem er ábyggilega mjög þarft skilji lesendur ekki það sem þeir lesa. Eða þá að hann er viljandi að teygja lopann í efnislítilli frétt sem varla ætti að vera á forsíðunni.
Loks segir í fréttinni:
Þá eru samningarnir að hluta til þannig úr garði gerðir að Play greiðir aðeins fyrir nýtta blokktíma.
Varla er það á allra vitorði hvað orðið blokktími merkir.
Tillaga: Flugfélagið Play stefnir á að í flota þess verði sex eða sjö farþegaþotur um næstu áramót þegar flug til Bandaríkjanna byrjar.
2.
627 lögðu leið sína á gosstöðvarnar í gær.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Gera verður kröfu til þess að blaðamen viti að málsgrein má aldrei byrja á tölustaf.
Í fréttinni segir:
Umræddur stígur er líklega um 200 metrar á lengd og hægra megin við brekku nokkra í aðdraganda þess að komið var að kaðlinum margfræga.
Aðdragandi merki atburðarás, ekki gata eða leið, að minnsta kosti ekki í þessu tilfelli. Óskýrt er að tala um hægri og vinstri, betra að nota áttirnar því þær breytast ekki eftir því hvert sögumaður snýr nefi sínu.
Málsgreinin öll er þunglamaleg og ber einkenni stofnanastíls. Eftirfarandi er skárra:
Stígurinn er um tvö hundruð metra langur og er austan við brekkuna þar sem kaðallinn margfrægi er.
Þess ber þó að geta að lýsing blaðamannsins er svo óskýr að jafnvel gjörkunnugur maður veit ekkert hvað hann á við.
Í fréttinni er talað um stærðarinnar gröfu. Stór grafa er einfaldara og skýrara orðalag.
Tillaga: Í gær fóru 627 manns á gosstöðvarnar.
3.
Í gærkvöld
Algengt orðalag í Ríkisútvarpinu.
Athugasemd: Hvorugkynsorðið kvöld beygist svona samkvæmt Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls:
Nú er kvöld
um kvöld
frá kvöldi
til kvölds
Aftur á móti beygist gærkvöld á þessa leið:
gærkvöld
gærkvöld/gærkvöldi
gærkvöldi
gærkvölds
Í Ríkisútvarpinu virðist krafist að allir noti gærkvöld í þolfalli. Líklega draga stjórnendur fjölmiðilsins þá ályktun að þar sem fyrrnefnda orðið sé í þolfalli kvöld þá hljóti hitt að vera alveg eins, gærkvöld. Að vísu er tala um í fyrrakvöld en ekki í fyrrakvöldi.
Niðurstaðan er þó þessi, það er alls ekki rangt að segja í gærkvöldi.
Tillaga: Í gærkvöldi ...
4.
Handsömuðu manneskju og biðu eftir lögreglu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Að öllum líkindum var maður handsamaður. Annað hvort var hann karl eða kona. Ástæðan fyrir því að blaðamaðurinn notar orðið manneskja er líklega sú að sá handtekni var kona.
Í Málfarsbankanum er afskaplega fróðlegt bréf frá Katrínu Axelsdóttur. Hún segir:
Karlkyn hefur haft tvö meginhlutverk í íslensku. Það vísar annars vegar til nafnorða í karlkyni eða karlkyns einstaklinga og hins vegar til óþekktra/ótilgreindra manna (sem geta verið af hvoru kyninu sem er).
Af þessu leiðir að blaðamanni er óhætt að orða það svo að maður hafi verið handtekinn jafnvel þó hann hafi verið kona. Orðið manneskja hjálpar lesandanum ekkert.
Um orðið manneskja segir Katrín í ofangreindu bréfi í Málfarsbankanum:
Öðrum hafði verið kennt að það [orðið manneskja] væri dönskusletta (sem það er reyndar ekki þótt vissulega sé það afar sjaldgæft í fornum ritum, þar virðist það nær eingöngu koma fyrir í þýðingum, skv. seðlasafni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn). Þar að auki væri orðið einkum notað í neikvæðu samhengi.
Þá var bent á að það væri órökrétt að ýta á þennan hátt út orðinu maður en halda í orð eins og mannréttindi og mannúð, sambönd á borð við fjöldi manns og málshætti eins og Maður er manns gaman og Batnandi manni er best að lifa. Þarna lifði orðið maður góðu lífi í sinni víðari merkingu og því þá ekki áfram í Maður ársins? Loks var nefnt að í sumu samhengi væri orðið manneskja nær eingöngu notað um konur: Hvað er að þér, manneskja? Hvert er manneskjan að fara?
Þetta er stórmerkilegt bréf sem og greinin í Fréttablaðinu eftir Völu Hafstað og vitnað er til í upphafi pistilsins. Blaðamenn og ekki síður stjórnendur fjölmiðla hefðu gott af því að lesa hvort tveggja.
Tillaga: Handsömuðu mann og biðu eftir lögreglu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.