Pýnu nörd, siglir í Stykkishólm og stjórnhæfni skips

Orðlof

Þarfaþing

Ýmsir gagnlegir hlutir eru stundum kallaðir þarfaþing. Merking fyrri hlutans er augljós, hann vísar til einhvers sem þarft er og tengist t.d. lýsingarorðinu þarfur. 

Orðið þing merkir oftast ’samkoma’ (sbr. alþing) en það getur líka merkt ’hlutur’ og það er auðvitað sú merking sem þarna er á ferðinni. Hún sést vel á líkindum við danska orðið ting, hið þýska Ding og enska orðið thing sem öll hafa þessa merkingu og eru runnin af sömu rót og íslenska orðið.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ég er pýnu nörd og …“

Frétt á visir.is.                                        

Athugasemd: Pína getur hvort tveggja verið atviksorð og lýsingarorð. Á málið.is segir að orðið geti þýtt svolítið og nokkuð. Og ennfremur:

[Stendur] oftast með lýsingarorði í stöðu atviksorðs, eins og dæmin sýna, en kemur líka fyrir með nafnorði: "pínu stress", og flokkast þá sem lýsingarorð.

Orðið í frétt Vísis er rangt skrifað. Kostar ekkert fyrir blaðamann að láta leiðréttingaforritið í gang áður en fréttin er birt. Leiðréttingarforritið sem fylgir Moggablogginu gerir athugasemd við orðið „pýnu“.

„Nörd“ er sletta út ensku, „nerd“. Í orðabókinni minni segir:

a foolish or contemptible person who lacks social skills or is boringly studious.
a single-minded expert in a particular technical field.

Á málið.is er orðið skýrt svona:

sérvitur einstaklingur með litla félagsfærni.

Ekki er langt síðan að það þótti ekki góð meðmæli með manni að hann væri sérvitur. Nú vilja hins vegar allir vera „nördar“, þykir fínt. Klár maður kallar sig „nörd“. Líklega er hann að afsaka sig á þennan hátt. Nokkur munur er á þeim sem býr yfir sérþekkingu á einhverju sviði og sérvitrum náunga.

Maðurinn sem sagt er frá í fréttinni hefur komið sér upp bíósal í íbúð sinni. Varla er það sérviska, miklu frekar skynsemi. Bókelskt fólk setur upp bókahillur, fólk sem er hrifið af myndlist hengir upp myndir á alla veggi og sá stundar líkamsrækt hefur hlaupabretti og lóð í einhverju horni eða kemur græjunum fyrir í sérstöku herbergi.

Tillaga: Ég er frekar sérvitur og …

2.

„Einn var hand­tek­inn á vett­vangi og karl og kona skömmu síðar þar skammt frá en þau höfðu farið af vett­vangi.

Frétt á mbl.is.                                         

Athugasemd: Vettvangur er staður þar sem eitthvað gerist. Á málið.is er orðið skýrt svona:

Af vétt- ’bardagi, víg’ og vangur ’völlur’. Upphafl. merk. ’vígvöllur, staður þar sem barist er’.

Nú er orðið sjaldnast notað nema í lögfræðimáli eða upphöfnu löggumál í fjölmiðlum. Glæpur er rannsakaður á vettvangi en fuglshreiður er á einhverjum stað. Eflaust kemur það einhverjum skrifurum á óvart að glæpur sé rannsakaður á þeim stað þar sem hann var framinn og fuglinn eigi hreiður á vettvangi sínum.

Í fréttinni segir að skötuhjú hafi verið handtekin skammt frá vettvangi og því svo bætt við „en þau höfðu farið af vettvangi“. Liggur þetta ekki ljóst fyrr að þar sem þau voru ekki á vettvangi glæpsins höfðu þau yfirgefið hann? 

Af hverju kemur orðið „vettvangur“ fyrir tvisvar í sömu málsgrein? Skrifari sem skilur ekki nástöðu á í vanda jafnvel þó hann geri sér ekki grein fyrir því.

Og í fréttinni segir:

Þau voru vistuð fyr­ir rann­sókn máls í fanga­geymslu lög­reglu.

Nei, þau voru sett í varðhald vegna rannsóknar málsins.

Tillaga: Einn var hand­tek­inn á vett­vangi og karl og kona skömmu síðar þar skammt frá.

3.

„Breið­a­fjarð­ar­ferj­an Bald­ur sigl­ir nú í Stykk­is­hólm eft­ir að hafa ver­ið tvær vik­ur í slipp í Reykj­a­vík.

Frétt á frettabladid.is.                                         

Athugasemd: Er ekki réttara að segja að hún sigli til Stykkishólms? Annars staðar á Breiðafirði orti sjógarpur sem var í kappsiglingu við ungan mann:

Ýtar sigla út með sjó
á unnarjónum káta.
Skipið er nýtt en skerið hró
og skal því undan láta.

Auðvitað braut maðurinn bátinn á skerinu þó gamalt væri. Nærri má geta að sigli Baldur „í“ Hólminn verður hann varla á eftir í ástandi til að halda áfram áætlunarferðum yfir Breiðafjörð.

Tillaga: Einn var hand­tek­inn á vett­vangi og karl og kona skammt frá.

4.

„Austurhöfn opnar.

Fyrirsögn á auglýsingu á blaðsíðu 3 í Morgunblaðinu 19.5.20.                                        

Athugasemd: Eflaust má halda því fram að ekkert sé að fyrirsögninni og hægt að færa til þess dæmi að svona orðalag sé algengt. Það breytir því þó ekki að höfn er ekki fær um að opna eitt eða neitt. Fólk opnar.

Eflaust er hægt að persónugera dauða hluti. Segja að Háskólinn taki á móti skráningum nýstúdenta, verslun hafi opnað og svo framvegis. Hvort tveggja er að svona stenst ekki. Dauðir hlutir gera ekki neitt. Og svo er það hitt að eflaust lendum við í vandræðum með íslenskuna ætlum við að fara strengilega eftir því sem hér er boðað.

Tillaga: Austurhöfn opnuð.

5.

„Nýja ferjan ristir minna og hefur meiri stjórnhæfni.

Undirfyrirsög á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 20.5.21.                                        

Athugasemd: Hvað er stjórnhæfni? Líklega er það sá sem er góður að stjórna. Samkvæmt orðabókinni er sá hæfur sem hittir í mark. Hæfinn er sá sem er hittinn, til dæmis í skotfimi með boga, byssu eða öðru áhaldi. Hæfni er hittni, færni. Hæfileiki manns getur verið hæfni.

Skip hefur varla hæfni. Þó er talað um sjófærni skips. Á útlenskunni kann stjórnhæfni að vera „manoeuvrability“.

Tungumálið er að breytast. Enskan er svo ráðandi í hugsun fólks að það leitar eftir einu nafnorði til lýsingar á aðstæðum. Í stað þess að segja að auðvelt sé að stjórna skipinu þarf endilega að finna upp nafnorðið „stjórnhæfni“ skips („ship’s manoeuvrability“). 

Tillaga: Nýja ferjan ristir minna og lætur vel að stjórn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband