Meira attitjúd, láta í ljós gagnrýni og Korputorg stækkar
21.7.2021 | 11:12
Orðlof
Banaspjót
Orðtakið berast á banaspjót þýðir að sækjast hvor eftir annars lífi.
Berast á er gagnverkandi merkingar (bera hvor á annan), sbr. að slást (slá hvor annan). Berast á banaspjót er þannig í rauninni = bera hvor á annan banaspjót, þ.e. hvor um sig ber banaspjót á hinn, þeir beita vopni hvor gegn öðrum.
Villan að berast á banaspjótum kemur upp þegar menn hafa misskilið þetta þannig að á ætti að stýra þágufalli.
Berast á banaspjótum er svokölluð alþýðuskýring, tveggja alda gömul.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Komið meira attitjúd í okkur.
Frétta á mbl.is.
Athugasemd: Annað hvort eiga fréttir að vera á íslensku eða ekki. Slettur koma ekki til greina. Með þeim síast inn sú hugsun að það sé í lagi að blanda saman íslensku og ensku. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á þessari hnignun málsins.
Blaðamaður á að koma hugsun viðmælanda síns til skila, ekki dreifa vitleysunni sem hrekkur út úr honum. Annað hvort ber að þýða slettuna eða nota óbeina ræðu.
Í fréttinni segir:
Við erum búnir að sýna mikinn karakter í síðustu leikjum
Af hverju er ekki sagt:
Við höfum staðið okkur vel í síðustu leikjum
Eða:
Við höfum verið sterkir í síðustu leikjum
Fyrir hvern unninn leik í fótbolta fær lið þrjú stig. Eitt stig fyrir jafntefli. Í útlöndum er talað um points. Blaðamönnum þykir fínna að tala um punkta en stig og leiðrétta þess vegna ekki viðmælendur sína sem þeir eiga að gera. Punktur.
Tillaga: Kominn meiri hugur í okkur.
2.
Danska upplýsingastofnunin Datatilsynet, sem er sambærileg við Persónuvernd hér á landi, hefur látið í ljós harða gagnrýni á ríkislögreglu Danmerkur
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 20.7.21.
Athugasemd: Fljótfærnin virðist stundum vera að drepa blaðamenn, jafnvel þá reyndustu á Morgunblaðinu. Orðalagið að að láta í ljós gagnrýni þekkist ekki og telst tóm vitleysa vegna þess að hingað til hefur sögnin að gagnrýna verið notuð. Með góðum árangri.
Furðulegt er hversu algengt loðið orðalag virðist hafa náð tökum á mörgum blaðamönnum. Nefna má dæmi eins og kalla eftir sem enginn veit hvort merkir krefjast, biðja, óska, vilja eða álíka. Láta í ljós gagnrýn er af sama toga og veit enginn hvað merkir enda gjörsamlega út í hött.
Tillaga: Danska upplýsingastofnunin Datatilsynet, sem er sambærileg við Persónuvernd hér á landi, hefur gagnrýnt ríkislögreglu Danmerkur harðlega
3.
Bretarnir koma við afléttingu ferðahafta.
Fyrirsögn á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 20.7.21.
Athugasemd: Ein og sér er þessi setning óskiljanleg. Það er ekki fyrr en lesandinn álpast til að lesa fréttina að hann skilur merkinguna. Skárra hefði verið að skrifa eins og segir í tillögunni hér að neðan.
Vandinn er hins vegar sá að Skotar, Walesbúar og Norður-Írar búa enn við meiri takmarkanir á ferðafrelsi en Englendingar. Því er ofsagt að Bretar muni koma því vissulega er Englendingar hluti þeirra.
Tillaga: Englendingar koma því ferðahöftum er aflétt.
4.
Miklar verðsveiflur á mörkuðum vegna áhyggna af kórónuveirunni.
Undirfyrirsögn á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 21.7.21.
Athugasemd: Margir kunna að velta því fyrir sér hvort beygingin sér rétt. Áhyggjur er kvenkynsorð í fleirtölu og beygist svona:
áhyggjur
um áhyggjur
frá áhyggjum
til áhyggna/áhyggja
Orðið hefur því tvær myndir í eignarfalli. Svo má því bæta við að það er líka til í eintölu en svo virðist sem hún sé minna notuð. Ég hef þó ekki áhyggju af því.
Þráhyggja er hins vegar eintöluorð, er ekki til í fleirtölu. Orðið merkir að hafa hugsun sem þráfaldlega sækir á mann, maður er heltekinn af einhverju.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Korputorgið stækkar.
Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 21.7.21.
Athugasemd: Börn stækka sem og öll dýr frá þeim degi er þau fæðast. Hús stækka hins vegar ekki, þau eru stækkuð. Dauðir hlutir stækka varla og þó. Stöðuvatn stækkar, jökull stækkar og svo má áfram telja.
Sumir kunna ekki við þegar sérnöfn fá viðskeyttan greini. Tek undir með þeim. Forðast það eins og heitan eldinn. Þó ek ég framhjá Korputorgi er ég ætla að ganga á Esjuna.
Tillaga: Korputorg stækkað.
Athugasemdir
,,Þó ek ég framhjá Korputorgi er ég ætla að ganga á Esjuna."
Hvers vegna ættu að gilda aðrar reglur um Esju og viðskeyttan greini?
Nonni (IP-tala skráð) 22.7.2021 kl. 08:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.