Viðbúinn - snögg viðbrögð - fjölpunkta beygja

Orðlof

Nú til dags

Orðasambandið „nú til dags” er fengið að láni úr dönsku „nu til dags” og er ekki alveg nýtt af nálinni. Dags í dönsku er gamalt eignarfall sem stýrðist af forsetningunni til. Í íslensku þykir vandaðra mál að segja til dæmis „nú á dögum.”

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… segir að stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær um 0,25 prósent, eða alls í 1,5 prósent, hafi verið viðbúin.

Frétt í Fréttablaðinu.is.                                     

Athugasemd: Af og til öðlast orð miklar vinsældir oft vegna þess að þau virðast flott og gáfuleg.

Ástæðan fyrir því að ég segi þetta um lýsingarorðið „viðbúið“ er að oft er óþarfi að notað það. Orðalagið að búast við dugar ágætlega og er langoftast miklu betra. Einnig má nota orðalagið von á, von til og vonast eftir.

Hér eru nokkur dæmi á vefnum um orðalagið: 

  1. Viðbúið að réttarhöldin standi í níu mánuði.
  2. Viðbúið að Bandaríkin opni á ferðalög …
  3. viðbúið er að hlaupvatn muni halda áfram að dreifa úr sér …
  4. Einnig er viðbúið að fólksflutningar verði meiri hingað til lands þegar uppgangur verður meiri í atvinnulífinu.
  5. Viðbúið er að stokkað verði frekar upp í ráðuneytum.
  6. Eins og e.t.v. var viðbúið þá voru Valsmenn sterkari en Víkingar …
  7. Það voru viðbúin vonbrigði að ekki hefði öllum tekist að rata þann gyllta meðalveg.
  8. Hins vegar er viðbúið að þetta ástand vari fram til áramóta …
  9. … og viðbúið að gosefni dreifist þá víða um sunnan- og vestanvert landið.
  10. Nokkuð viðbúið að rokkhljómsveitin Hawks and Doves (sjá mynd) hafi hækkað vexti.

Í öllum tilvikunum færi betur á því að segja búist er við.

Tillaga… segir að von hafi verið á stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær um 0,25 prósent, eða alls í 1,5 prósent.

2.

„Í tilefni af 10 ára fráfalli Steve Jobs var gerð þessi stuttmynd um líf hans og einstakrar sýn hans.

Texti frá fyrirtækinu Epli á Facebook.                                     

Athugasemd: Textinn er ekki boðlegur. Svona var textinn á ensku á Youtube:

To commemorate the 10th anniversary of Steve’s passing, this short film is a celebration of his life and his extraordinary vision.

Íslenski textinn en hrákasmíði enda oft vonlaust að koma innihaldi til skila með beinni þýðingu. Tillagan hér fyrir neðan er ekki góð en mun skárri.

Tillaga: Nú er þess minnst að tíu ár er frá andláti Steve Jobs og því var þessi stuttmynd gerð um líf hans og stórkostlegar hugsjónir.

3.

„Páll hef­ur, eins og áður hef­ur komið fram, tekið ákvörðun um að stíga til hliðar eft­ir 8 ár í for­stjóra­stóln­um.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Blaðamaðurinn misskilur allt. Forstjóri Landspítalans er ekki að stíga eða víkja til hliðar. Hann er að hætta. Á þessu tvennu er mikill munur.

Á ensku getur orðalagið „step aside“ merkt tvennt; víkja til hliðar og hætta.

Svo ísmeygileg er enskan að fjölmargir ístöðulitlir blaðamenn halda að í lagi sé að þýða úr henni beint á íslensku. Nú er svo komið að fjöldi fólks heldur að orðalagið „stíga til hliðar“ sé römm íslenska.

TillagaPáll hef­ur, eins og áður hef­ur komið fram, tekið ákvörðun um að hætta eft­ir 8 ár í for­stjóra­stóln­um.

4.

„Von der Leyen boðar snögg viðbrögð vegna Póllands.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Þegar finna þarf „rétt“ orð hlýtur leitin að byggjast á tilfinningunni fyrir málinu. Sé hún ekki til er skrifarinn í vanda. Góð máltilfinning fæst einna helst með drjúgum lestri bóka og helst talverðum skrifum, helst frá barnæsku.

Orðalagið snögg viðbrögð er ekki rangt. Þó má íhuga orð og orðalag eins og skjót viðbrögð, bregðast fljótt við, bregðast hratt við og svo framvegis. Í fréttinni er líka talað um „hröð viðbrögð“ sem gæti dugað.

Þó það skipti litlu máli má velta því fyrir sér hvað snögg, skjót eða fljót viðbrögð merkja í huga þeirra sem stjórna hjá ESB. Í fréttinni segir:

… hefur beðið embættismenn framkvæmdastjórnarinnar um að fara í saumana á því hvað sé hægt að gera. Næstu skref verða ákveðin að því loknu.

Snöggu, skjótu, hröðu viðbrögðin gætu því látið á sér standa og þeirra beðið um langa hríð. Viku eftir að fréttin birtist hefur ESB ekki enn brugðist við, að minnsta kosti opinberlega.

Tillaga: Von der Leyen boðar skjót viðbrögð vegna Póllands.

5.

„Bjargaði móður sinni frá eldsvoða.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Talsverður munur er á því að bjarga einhverjum frá eldsvoða eða úr eldsvoða. Samkvæmt fréttinni gerist hið síðarnefnda.

Í fréttinni segir:

Hefði hann ekki komið að móður sinni á þess­um tíma tel­ur hann ólík­legt að hún hefði lifað af en hann þurfti að breiða yfir and­lit henn­ar til þess að koma í veg fyr­ir frek­ari bruna því eld­ur lá á henni líka.

Þetta er nú meira bullið. Annað hvort las blaðamaðurinn ekki textann yfir eða hann er ekki dómbær á hann. Veit ekki hvort er verra.

Tillaga: Bjargaði móður sinni úr eldsvoða.

6.

„… á meðan hver og einn tek­ur fjölpunkta beygju til þess að snúa við í botn­lang­an­um og halda þá leið sem hann kom.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Aldrei hef ég heyrt um „fjölpunkta beygju“ og hef þó iðulega „fjölbeygt“ á ökumannsferli mínum. 

Í heild sinni er málsgreinin svona:

Í frétt BBC um málið seg­ir að íbú­ar göt­unn­ar segi ástandið stund­um svo slæmt að sjálf­keyr­andi bíl­ar bíði í röðum, hver eft­ir öðrum, á meðan hver og einn tek­ur fjölpunkta beygju til þess að snúa við í botn­lang­an­um og halda þá leið sem hann kom.

Látum nástöðu orðiðs „hver“ vera að þessu sinni. Af forvitninni eini saman skoðaði ég heimild fréttarinnar sem er vefur BBC. Þar stendur:

Residents say vehicles sometimes have to queue before making multi-point turns to leave the way they came.

Vissulega kann að vera að enskumælandi þjóðir tali dags daglega um „fjölpunkta beygjur“. Dreg það þó í efa, held að þetta sé tæknimál. Ég lagðist leit á vefnum og fann það út að „fjölpunkta beygja“ er ekki beygja jafnvel þó notað sé enska orðið „turn“.

Orðalagið er haft um það þegar ökumaður þarf að snúa við þar sem gata er þröng. Þá þarf hann að bakka, aka áfram, bakka, aka áfram og svo framvegis, þangað til hann á greiða leið til baka.

Ég minnist þess ekki að til sé á íslensku orðalag sem lýsir þessum aðgerðum ökumanns og dreg í efa að þörf sé á orðalagi eins og „fjölpunkta beygju“. Fyrir umhverfið er þetta vissulega vandi og var svo fyrir tíma sjálfkeyrandi bíla.

Margvísleg orð og orðasambönd á ensku „vantar“ á íslensku. Dæmi um það er „slow street“ sem er haft yfir þær götur þar sem umferðin er mikil og hæg. Heilalausir þýðendur eins og Google-Transleit kalla svona fyrir brigði „hæga götu“. Bíð eftir að sjá það í íslenskum fjölmiðlum.

Tillaga… á meðan þeir þurfa margoft að bakka og aka áfram til þess að geta snúið við í botn­lang­an­um og komist til baka.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband