Nesjavallavirkun er úti - snjóstormur - vetrarfærð

Orðlof

Mánaða-eða mánaðarmót

Það er engin fleirtölumerking í fyrri lið orðsins mánaðamót frekar en í nautakjöt eða lambalæri – en það er ekki heldur nein eintölumerking í fyrri lið myndarinnar mánaðarmót frekar en í rækjusamloka og perutré. 

Það er ekki heldur neinn vafi á því að myndirnar mánaðamót og mánaðarmót eru notaðar í sömu merkingu. Ef á að velja milli þeirra verður það val því að byggjast á einhverju öðru en merkingu – væntanlega á hefð, og hefðin fyrir mánaðamót er vissulega sterkari.

Eiríkur Rögnvaldsson. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Nesja­valla­virk­un er úti vegna spreng­ing­ar sem varð í íhlut­um í tengi­virki snemma í morg­un með þeim af­leiðing­um að ekki er hægt að keyra vél 3.

Frétt á mbl.is.                                     

Athugasemd: Aldrei var sagt í gamla daga að saumavélin hennar ömmu væri „úti“ þegar þá sjaldan að hún bilaði.

Bjarki vinur minn Harðarson á Bílson verkstæðinu hefði örugglega skilið mig í haust hefði ég sagt honum að bíllinn minn væri „úti“. Hann hefði samt hváð og gengið út að glugganum og sannfærst um að bíllinn væri úti. Svo hefði hann hlegið enda annálaður brandarakall.

Raforkuver bila aldrei. Þau eru „úti“ sem er gáfumannamál og merkir á alþýðumáli að þau hafi bilað og framleiði ekki lengur rafmagn. Þetta er grundvallaratriði og allir fjölmiðlar apa eftir gáfumönnunum og segja að Nesjavallavirkjun, Búrfellsvirkjun eða einhver önnur sé „úti“.

Véfréttastíll á við allt sem um raforkuver er sagt og skrifað. Nesjavallavirkjun bilaði og þetta er í fréttinni:

  1. Virkjunin er úti
  2. Sprenging var í íhlutum
  3. Ekki hægt að keyra vél 3

Hvað í ósköpunum þýðir orðalagið. Blaðamaðurinn veit örugglega ekkert frekar um hvers vegna „íhlutirnir“ sprungu eða hvað vél þrjú gerir. Ég held að ég viti svarið. Vél eitt býr til rafmagn fyrir heimilistæki, vél tvö býr til rafmagn fyrir ljósaperur, vél þrjú býr til rafmagn fyrir hleðslutæki, vél fjögur býrt til rafmagn fyrir iðnað og svo framvegis. Þetta er dagsatt, hef þetta eftir fróðum manni sem er með meirapróf.

Blaðamaðurinn hefði mátt afla upplýsinga, lætur fréttatilkynninguna nægja. Væri ekki fróðlegt að vita hvers vegna „íhlutir“ springa?

Sko, líklega er tæki búið til úr íhlutum og þegar einhver slíkur bilar, springur, gufar upp eða er stolið þarf að fá annan hlut til að setja í tækið í stað hins. Þá er „íhluturinn“ á alþýðumáli kallaður varahlutur og skiptir engu hvort af honum stafi sprengihætta eða ekki. Þess vegna er aldrei talað um „sprengiíhlut“. Vonandi er ég ekki að misskilja neitt í þessum „útifræðum“.

Nú þarf að halda áfram að lesa fréttina og þá kemur að þeirri einföldu staðreynd að gáfumennin tala aldrei alþýðumál. Þeir hefja sig sem betur fer upp yfir okkur „pöpulinn“ og tala silfurtært gáfumannamál.

Í fréttinni segir framkvæmdastjóri virkjunarinnar þegar blaðamaðurinn spyr hversu langt er í að lokið verði við að gera við virkjunina:

Við erum að ná utan um þetta.

Alþýða landsins les þetta og veltir hæglátlega fyrir sér hvort ekki væri betra að gera við virkjunina heldur en að „ná utan um hana“.

Tillaga: Nesja­valla­virk­un er biluð vegna spreng­ing­ar sem varð í tengi­virki snemma í morg­un og því framleiðir hún ekki rafmagn. 

2.

„Þar var fyrsti andstæðingurinn Danmörk, ríkjandi heimsmeistari.

Forystugrein Morgunblaðsins 29.1.22.                                     

Athugasemd: Annað hvort er landslið Danmerkur heimsmeistari eða ekki. Ástæðan er einföld. Ekki getur eitt landslið verið heimsmeistari og annað „ríkjandi heimsmeistari. Þetta á við allar íþróttagreinar.

Í forystugreininnin segir:

Mótið var ekki fyrr hafið en svo virtist sem fótunum hefði verið kippt undan liðinu og vonin um að eiga gott mót væri að engu orðin.

Málsgreinin er hnoð. Verst er þó feitletraða orðalagið. Minnir á enskuna: „having a good tournament“. Í staðinn er skárra að segja að vonin um að liðið stæði sig vel á mótinu væri að engu orðin.

Þá segir:

Tapið á móti Króötum gerði að verkum að ætti liðið að komast í fjögurra liða úrslit yrðu Danir að bera sigurorð af Frökkum. 

Þetta er skárra: 

Eftir tapið á móti Króötum þurftu Danir að sigra Frakka til að liðið kæmist í fjögurra liða úrslitin.

Góður blaðamaður skrifar einfalt mál, notar ekki orðskrúð eða flækir frétt með málalengingum.

Tillaga: Fyrsti andstæðingurinn var danska landsliðið, heimsmeistararnir.

3.

22. maí 1834 fékk Finnur Magnússon, leyndarskjalavörður og prófessor í Kaupmannahöfn, hugmynd …

Þórhallur Eyþórsson. Tungutak. Morgunblaðið 29.1.22, blaðsíða 20.                                     

Athugasemd: Þetta er leitt að sjá. Prófessor í íslensku byrjar málsgrein á tölustaf. Hann á að vita betur því þetta er hvergi gert, hvorki á íslensku né öðrum tungumálum.

Tillaga: Þann 22. maí 1834 fékk Finnur Magnússon, leyndarskjalavörður og prófessor í Kaupmannahöfn, hugmynd …

4.

Öflugur snjóstormur gengur nú yfir austurströnd Bandaríkjanna …

Frétt á fréttablaðinu.is.                                      

Athugasemd: Heimild blaðamannsins er vefur CNN. Á honum segir:

More than 10 million people in some coastal areas from New Jersey into New England are under blizzard warnings, meaning heavy snow and strong winds -- with gusts above 70 mph already recorded in some areas -- will make for terrible visibility and dangerous travel.

Á íslensku er „blizzard“ glórulaus hríð. Enskir tala líka um „snow storm“. Blaðamaðurinn bæti við af eigin hvötum orðinu snjóstormur sem segir lítið, tillagan hér fyrir neðan er skárri.

Á íslensku eru til mörg orð sem væru jafnvel betri í fréttinni en snjóstormur. Hér eru dæmi:

  1. Hríð
  2. Stórhríð
  3. Svartahríð
  4. Snjóbylur
  5. Frostbylur
  6. Grimmdarhríð
  7. Blindöskuhríð
  8. Kafaldshríð
  9. Stórhríðarbylur
  10. Myrkabylur

Mörg fleiri orð má nefna. Ótal orð eru til á íslensku yfir snjókomu. Einnig eru til á annað hundrað orð yfir vind, sjá hér. Veðurfræðingar nota „mikill vindur“ og „lítill vindur“ sem er gagnslaus lýsing. Góð veðurorð týna því miður smám saman tölunni.

Eiríkur Rögnvaldsson segir á vefsíðu sinni:

Auðvitað er snjóstormur íslenska en ekki enska – báðir orðhlutarnir íslenskir. Orðið verður ekki að ensku þótt hliðstæð samsetning sé vissulega til í ensku, og ekki heldur þótt sú samsetning kunni að vera fyrirmynd íslenska orðsins.

Hitt er annað mál að vitanlega er fjölbreytni í orðavali æskileg og ekki gott ef þetta orð er að breiða sig út á kostnað annarra.

Tillaga: Stórhríð gengur nú yfir austurströnd Bandaríkjanna …

5.

Vetrarfærð í dag og nóg að gera hjá snjómokstursmönnum.

Fyrirsögn á ruv.is.                                      

Athugasemd: Orðið „vetrarfærð“ er frekar máttlaust og eiginlega gagnslaust. Af hverju, spyr lesandinn? Því er til að svara að frá fyrsta vetrardegi, sem var 27. október 2021, hefur eðli máls samkvæmt verið vetrarfærð á Íslandi, götum í þéttbýli jafnt sem þjóðvegum, göngustígum, reiðstígum, hjólastígum og gangstéttum. 

Aftur á móti er sumarfærð frá fyrsta degi sumars og fram á þann síðasta.

Svo flækir það málið að „sumarfærð“ getur verið að vetrarlagi og eins getur færð að sumarlagi verið sem á vetri.

Af þessu má sjá hversu gagnslaust orðið „vetrarfærð“ er. Segir lesandanum ekkert. Flestir hafa þó aðlagast einföldu fjölmiðlamáli og skilja af samhenginu að færðin sé erfið þegar fjölmiðlungur notar orðið.

Betra hefði þó verið að hann hefði bætt einhverju lýsingarorði við. Þá myndi gagnslausa orðið upplýsast og skilningur lesandans líka.

Tillaga: Þung vetrarfærð í dag og nóg að gera hjá snjómokstursmönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður og takk fyrir gott og þarft framtak.

Fjögurra liða úrslit = undanúrslit

Gylfi Þór Orrason (IP-tala skráð) 31.1.2022 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband