Húðin lýsist upp að innan - dystópíska diskóneglan - gisti fangageymslur í Dublin

Orðlof

Viðvörun

Nafnorðin aðvörun og viðvörun eru talsvert algeng í íslensku. Þau merkja bæði það sama, ’það að vara við (t.d. hættu)’, og eru sennilega einkum notuð um boð um aðsteðjandi hættu. 

Orð af þessu tagi, kvenkynsorð sem enda á ’-un-’, eru yfirleitt mynduð af sagnorðum. 

Þar sem sambandið ’*vara að’ er ekki til hafa margir lagst gegn notkun orðsins aðvörun og mælt með því að nota heldur viðvörun með tilvísun til sambandsins vara (einhvern) við sem allir þekkja. 

Það kann líka að mæla gegn orðinu aðvörun að það minnir mjög á danska orðið advarsel.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Nýjar rannsóknir Sensai benda til þess að hrukkur og fínar línur eiga til að varpa skugga sínum á húðina sveipa hana blæju grámans. Þessa skugga verður að hrekja á burt til að húðin geti risið upp í ljóma og sýnt sitt fegursta. Þegar hulu grámans er svipt í burtu þá laðast húðin að Silk skin sem lýsir upp að innan.

Auglýsing í Fréttablaðinu 4.3.22.                                     

Athugasemd: Þetta er nú meiri rökleysan og raunar della. Sannfærandi skrif við fyrstu sýn en skyldleikinn við ensku er auðsær. 

Krem sem „hrekur burt“ gráma, húð sem „rís upp“, „laðast að kremi“, „lýsir upp að innan“. Kremið hlýtur að vera geislavirkt. Falla konur fyrir svona tali? 

Tillaga: Engin tillaga

2.

„She Drew The Gun, eða Louisa Roach sem er mögulega skild Davíð Roach, hefur sent frá sér dystópísku diskónegluna Panopticon.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Fyrir utan stafsetningavilluna er útilokað fyrir venjulegan mann að skilja þessa málsgrein. Þó eru nokkur íslensk orð í henni en þau hjálpa ekki.

Orðanotkuninn í „fréttinni“ skrýtin. Þar stendur til dæmis „fönka okkur inn í helgina“ og „synþapoppkettir“. Hvað þýðir þetta á íslensku?

TillagaEngin tillaga.

3.

„Hún hafði verið búin að æla í marga daga og alla nóttina áður en hún fór á Læknavaktina á sunnudegi.

Frétt á dv.is.                                     

Athugasemd: Betur fer á því að nota snyrtilegra orðlag, til dæmis að hún hafi kastað upp í marga daga.

Lýsingarorðinu „búinn“ er algjörlega ofaukið, það hefur engan tilgang nema þann að nota hjálparsögn og nafnhátt sagna. Betra er að orða þetta eins og í tillögunni.

Fréttin er illa orðuð, of löng og í henni eru of mörg smáatriði sem engu skipta. Fréttagildið er afar óljóst.

Tillaga: Hún hafði lengi kastað upp áður en hún fór á Læknavaktina á sunnudegi.

4.

„Elín er 27 ára gömul en hún hefur undanfarin ár menntað sig sem læknir.

Frétt á dv.is.                                      

Athugasemd: Eitt er að vera í læknisnámi, læra til læknis, og annað að „mennta sig sem lækni“. Betur fer á því að skrifa „venjulegt mál“, sem líkast því sem fólk talar sín á milli. Algengast er að segja að fólk sé í læknisnámi eða í læknisfræði. Sá sem menntar sig sem lækni virðist hugsanlega vera læknir í endurmenntun.

Tillaga: Elín er 27 ára gömul en hún hefur undanfarin ár verið í læknisfræði.

5.

„Ökumaður bílsins var handtekinn og gisti fangageymslur í gær.

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 8.3.22.                                     

Athugasemd: Í örstuttri frétt segir frá því að maður nokkur hafi ekið vörubíl á hlið rússneska sendiráðsins í Dublin. Svo segir að hann hafi „gist fangageymslur í gær“. 

Og ég sem hélt að aðeins á Íslandi væru til „fangageymslur“, annars staðar væru þær kallaðar fangelsi. Þar að auki hélt ég að aðeins hér á landi fengju menn að „gista“ í „fangageymslum“. Annars staðar væru misyndismenn lokaðir inni í fangelsum yfir nótt eða lengri tíma.

Við nánari athugun kemur í ljós að þetta er bara tóm vitleysa í blaðamanni Moggans. Á vef BBC, sem þykir nú álíka áreiðanlegur fréttamiðill eins og Mogginn, segir:

The detained man was taken to Rathfarnham Garda Station and he remains in custody.

Vinur minn sem fékk ágætiseinkunn í ensku í grunnskóla segir mér að þarna standi ekkert um „gistingu“ eða „fangageymslu“. Einungis að sá handtekni sé í varðhaldi á írskri löggustöð.

Þannig er nú komið fyrir ístöðulitlum blaðamönnum að þeir geta ekki skrifað sjálfstætt um afbrot án þess að grípa til talsmáta íslensku löggunnar sem birtist reglulega í svokallaðri dagbók hennar. Sorglegt, því þar eru skrifin frekar gölluð fyrir og þykja þar að auki oft frekar ómerkileg.

Tillaga: Farið var með ökumanninn á lögreglustöð þar sem hann situr inni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband