Fundur fer fram - barn mætir - laxar mæta
25.5.2022 | 11:46
Orðlof
Undanhald íslenskunnar
Það er til merkis um hækkandi aldur og geðvonsku að mér leiðist undanhald íslenskunnar. RÚV hefur algjörlega gefist upp gagnvart enskuslettum og beygingarvillum.
Óttar Guðmundsson í fréttablaðinu.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
á síðasta fundi borgarstjórnar sem fer fram á morgun, þriðjudaginn 24. maí.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 23.5.22.
Athugasemd: Allt skal fara fram, æ sjaldnar er talað um það sem verður. Skrýtin þróun tungutaks blaðamanna.
Tillaga: á síðasta fundi borgarstjórnar sem verður á morgun, þriðjudaginn 24. maí.
2.
Fjórða barn Jóns og Hafdísar mætt.
Frétt í fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Hér áður fyrr fæddust börn en nú mæta þau. Og til þess að ofursvalir blaðamenn skilji verður að breyta jólasálmum:
Í Betlehem er barn oss fætt mætt
Því fagni gjörvöll Adams ætt
Sko, þetta rímar þó stuðlasetningin sé ekki rétt.
Hér áður fyrr gerðist það stundum að börn fæddust fyrir tímann. Nú er líklega sagt að börn mæti fyrir tímann. Ýmsar hugmyndir eru kæfðar í fæðingunni mætingunni, uppreisnir eru barðar niður í fæðingunni mætingunni. Til er andvana fæðing mæting. Og sumir hafi frá fæðingu mætingu sýnt miklar gáfur.
Tillaga: Fjórða barn Jóns og Hafdísar fætt.
3.
Fyrstu laxarnir mættir í Kjósina.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Er ekki tungutak blaðamanna stundum einhæft og fátæklegt? Hér er átt er við að fyrstu laxarnir séu komnir í Laxá í Kjós.
Þá geta morðin hafist.
Má ekki segja að veiðimenn myrði laxa?
Auðvitað er þetta rangt hjá mér, tóm vitleysa og bull. Fiskar, dýr og fuglar eru drepnir.
Samt segja blaðamenn að börn mæti í heiminn og laxar mæti í árnar. Og öllum finnst þetta ágætt tungutak.
Tillaga: Fyrstu laxarnir komnir í Laxá í Kjós.
4.
Apple horfði til þess að dreifa framleiðslunni frá Kína áður en faraldurinn byrjaði árið 2020.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 24.5.22.
Athugasemd: Málsgreinin skilst en sá sem skrifaði hefði mátt vanda sig betur, hún er ekki góð.
Apple ætlaði, vildi, hafði hug á, stefndi að og svo framvegis. Í fréttinni er talað um áætlanir fyrirtækisins. Þar af leið að nærtækast er að nota sögnina að ætla.
Orðalagið að horfa til þess er afar vinsæl en segir sáralítið. Hún dregur með sér sögn í nafnhætti og ef til vill finnst sumum það öruggara en að beygja sagnir.
Svo er það þetta; dreifa framleiðslunni frá Kína. Þarna er slær saman orðalaginu að dreifa framleiðslunni og draga út henni í Kína. Hugsunin er líklega sú að fyrirtækið taldi að öruggara að vera með framleiðslu sína víðar en í Kína.
Afar brýnt er að höfundur lesi skrifin sín yfir með gagnrýnu hugafari. Líka blaðamenn.
Tillaga: Apple ætlaði að dreifa framleiðslunni og draga úr henni í Kína áður en faraldurinn byrjaði árið 2020.
5.
Skjálftavirkni við Geysi.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Engin skjálftavirkni var við Geysi, hún var um sjö km norðar. Þetta er rétt eins og að fullyrða að segja að eitthvað hafi gerst á Lækjartorgi en ekki í Árbæ. Svona ónákvæmni er mjög algeng í fjölmiðlum. Ágætt regla er að skoða landakort áður en svona frétt er skrifuð og birt.
Tillaga: Skjálftavirkni fyrir norðan Geysi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.