Sala sem fer ekki í gegn - sérstök viðbrögð - mæri Keflavíkur og Njarðvíkur

Orðlof

Blönduós

Eðlilegur framburður orðsins er Blöndós, án u – ekki Blönduós. Þetta er eðlilegt vegna þess að sérhljóð kemur á eftir u, en leiðir til þess að tengingin við ána Blöndu verður óskýrari en í öðrum samsetningum þar sem u helst, eins og Blöndudalur, Blöndugil, Blönduvirkjun o.s.frv. 

Þetta þýðir aftur að það verður óskýrara í huga fólks að orðið er samsett úr Blöndu- og -ós þannig að tengingin við karlkynsorðið ós verður einnig óljósari. Það styður þessa hugmynd að ef verið er að vísa til ósa árinnar en ekki bæjarins verður að segja Blönduós er mjög fallegur – sem sé bera u-ið fram.

Stofngerð seinni hlutans ber líka ekki sérstaklega með sér að um karlkynsorð sé að ræða – við höfum orð eins og rós og dós sem eru kvenkyns og ljós og hrós sem eru hvorugkyns, en ég man í fljótu bragði ekki eftir öðrum karlkynsorðum en ós með þessa stofngerð. 

Framburðurinn gæti líka ýtt undir þá tilfinningu að seinni hlutinn væri kvenkynsorðið -dós. 

Samsetning orðsins er auðvitað skýr í huga staðkunnugra en fyrir utanaðkomandi er þetta kannski bara orð sem fólk hugsar ekki út í hvernig er samsett, og sem formsins vegna gæti verið bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð.

Eiríkur Rögnvaldsson. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Tvö göt fyrir neðan sjólínu.

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 17.5.22.                                     

Athugasemd: Ástæða er til að geta þess sem vel er gert. Blaðamaðurinn sem skrifar fréttina er vel máli farinn og birtir fréttir um áhugaverð mál. Áskrift að Mogganum  borgar sig þegar maður les fréttir sem skrifaðar eru af þekkingu. Og þeir eru þar nokkuð margir vel ritfærir.

Tillaga: Engin tillaga

2.

„Ráð­herrar hræddir um að salan á Chelsea fari ekki í gegn.

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Í gegnum hvað á salan á Chelsea að fara? Hér er líklega átt við að ekkert verði af sölunni.

Í fréttinni segir:

Í staðinn átti það fjármagn að renna til góðgerðamála en hann hefur ekki enn skrifað undir neitt sem staðfestir það.

Stirðlega skrifuð málsgrein, hnoð. Söluverðið er kallað „það fjármagn“. Fjármagn er meira en peningar til dæmis eignir, tæki og aðrir lausafjármunir.

Einnig segir í fréttinni:

Chelsea fær sem stendur að halda úti starfsemi sinni …

Einfaldara orðalag er:

Chelsea fær að starfa áfram …

Fréttin er eins og áður sagði stirðleg aflestrar, sem bendir til að blaðamaðurinn þurfi á tilsögn að halda og æfa sig í skrifum.

Tillaga: Ráð­herrar hræddir um að ekki verði af sölunni á Chelsea.

3.

„… en hann hefur til þessa ekki viljað taka símann frá Hildi.

Frétt á forsíðu Morgunblaðsins 18. maí 2022.                                     

Athugasemd: Þetta skilst ágætlega en má þó með góðum vilja misskilja (ekki taka símann af henni). Einnig má orða þetta eins og segir í tillögunni og á margvíslegan annan hátt.

Hér má mæla með því að nota sögnina að svara sem er gamalt og gott orð enda svara menn iðulega þeim sem hringja nema að þeir séu haldnir óbeit á ákveðnum stjórnmálaflokki. Skilst þegar skellur í tönnum.

Tillaga: … en hann hefur til þessa ekki viljað svara Hildi þegar hún hringir.

4.

Þóttu viðbrögðin mjög sérstök.“

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 18. maí 2022.                                     

Athugasemd: Sérstakur er lýsingarorð sem í sjálfu sér er ekkert ’sérstaklega’ lýsandi, er eiginlega svolítið varfærið, svona þegar fólk veigra sér við því að segja hug sinn: „Hann er sérstakur maður“, er er ef til vill sagt um eiturlyfjasalann, nauðgarann, þjófinn, því ekki má særa tilfinningar bófa.

Mörg önnur henta hér ágætlega, jafnvel betur, til dæmis eftirtektarverð, sjaldgæf, furðuleg, undarleg, óvenjuleg og ef til vill má nota litríkari lýsingarorð.

Tillaga: Þóttu viðbrögðin mjög furðuleg.

5.

„Skítafýlan frá fiskbræðslu hér á árum áður og hávaðamengun af flugi á mærum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur …

Lesendabréf á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 18.5.22.                                     

Athugasemd: Hvað er mæri? Við þekkjum það í samsetningunni landamæri og vitum samstundis að það er línan sem skilur að tvö lönd eða fleiri.

Samkvæmt orðabókinni merkir orðið mæri:

Slétta, flatneskja, mýrlendi eða þá mörk, landamerki.

Í Noregi er fylki sem nefnist Møre og er (ekki staðsett) norðarlega í því langa landi. Í fornritum okkar er talað um Mæri, einnig Sunnmæri og Norðmæri. 

Þeir sem voru frá Mæri eru í Egilssögu kallaðir Mærar (4. kafli). 

Egill Skallagrímsson háði einvígi við ójafnaðarmanninn Ljót á Mæri og orti fyrir átökin þessa undurfögru vísu sem allir þekkja og söngelskir raula á góðri stundu með öl í horni:

Esat lítillar Ljóti,
leik ek við hal bleikan
við bifteini, bænar,
brynju, rétt at synja;
búumk til vígs, en vægðar
ván lætka ek hánum,
skapa verðum vit skaldi
skæru, drengr, á Mæri.

Fyrir þá sem ekki skilja vísuna er hér efni hennar: 

Það er ekki rétt að synja Ljóti lítillar bænar. Ég leik við bleika manninn, feiga Ljót með vopni. Býst til vígs en vægi honum ekki. Drengilegt er að ganga til vopna á Mæri.

Með sverðið Naður í belti og sverðið Dragvandil fest við hægri hönd sér gekk Egill á hólminn. Svo fóru leikar að hann hjó af Ljóti hægri fót fyrir ofan hné og féll þá berserkurinn og var þegar örendur.

Að lokum má benda á að til er sögnin að mæra, nafnorðið mær og nafnorðið mærð. Af þeim er allt önnur saga.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll,

ég sendi ritstjórn Morgunblaðsins athugasemd vegna fréttar þeirra : Brotlending vélarinnar líklega viljandi.  Þar segir:  Gögn úr einum flugrita vélarinnar (ferðriti: flugriti og hljóðriti) benda til þess að vélin tók nánast lóðrétta dýfu (í jörðina) það er ekki brotlending, flugvélin fórst.  Brotlending er þegar fluvél lendir einhversstaðar og einhvernvegi og brotnar í lendingunni.

Kveðja,

Skúli Brynjólfur

Skúli Br. Steinþórsson (IP-tala skráð) 18.5.2022 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband