Ófarir og hrakfarir húsa - hvít jörð - dró vagninn með lélegustu kjörsóknina

Orðlof

Máltilfinning

Við þetta bætist að börn á máltökuskeiði og unglingar tala jafnmikið og jafnvel meira við jafnaldra sína en fullorðið fólk, efni í fjölmiðlum ungs fólks er gjarnan á ensku.

Færri foreldrar lesa nú fyrir börn sín en venjan var. 

Enn má nefna að bóklestur yfirleitt er á undanhaldi og það grefur undan almennri máltilfinningu og orðauðgi talaðs máls; lesskilningi hrakar megi marka PISA-kannanir. 

Sölvi Sveinsson. Morgunblaðið 4.5.22, blaðsíða 25; bækur. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hér nægir að rifja upp ófarir stórhýsisins Orkuveituhússins sem nú stendur tómt, hrakfarir Fossvogsskóla og ótal myglandi nýbyggingar kennitöluflakkara.

Aðsend grein í Morgunblaðinu 7.5.22.                                     

Athugasemd: Mikilvægt er að velja orð við hæfi. Ekki er skynsamlegt að tala um ófarir eða hrakfarir húsa þó flestir skilji hvað við er átt.

Miklu betur fer á því að tala um hörmungar, erfiðleika, yfirsjónir, ólán, hneisu, tjón eða skaða  í húsum, svo nokkur önnur orð sé nefnd og henta skár í málsgreinina. 

Svo má geta þess að ofmælt er að mygla komi aðeins í nýbyggingar kennitöluflakkara.

Tillaga: Hér nægir að rifja upp hörmungar stórhýsi Orkuveitunnar sem nú stendur tómt, skaðann í Fossvogsskóla og ótal myglandi nýbyggingar kennitöluflakkara.

2.

„Hvít jörð í Reykjavík.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Ofmælt er að hvít jörð sé í Reykjavík þó jörð hafi gránað. Í fréttinni segir:

Ljós­mynd­ari Morg­un­blaðsins myndaði snjó­breiðuna við Elliðavatn …

Á myndinni sést ekki snjóbreiða þó jörð sé grá, snjóföl sé á. Hvað er þá snjóbreiða. Samkvæmt orðinu er það breiða af snjó, mikill snjór sem liggur á landi, fönn en ekki lítilsháttar föl.

Tillaga: Grá jörð í Reykjavík.

3.

Reynslulaus farþegi lenti flugvél.

Frétt á visi.is.                                      

Athugasemd: Oft var sagt að sá sem ekki hefði reynslu væri óreyndur. Orðið er ágætt, miklu betra en reynslulaus, þó hið síðarnefnda geti stundum dugað.

Allir lesendur hljóta að skilja að hafi farþegi lent vélinni eru líkur til þess að hann sé óreyndur, ekki flugmaður.

Tillaga: Farþegi lenti flugvél.

4.

Handviss um að þær verði ofar í kvöld en við höldum.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Órökrétt málsgrein. Handviss um það sem við höldum. Líklega fer betur á því að hafa hana eins og segir í tillögunni.

Í umræðuhópnum Málspjall á Fésbókinni eru áhugaverðar umræðum um málsgreinina. Eiríkur Rögnvaldsson segir þar:

Einhvern tíma var formaður kjörstjórnar spurður: "Heldurðu að það komi eitthvað óvænt upp úr kjörkössunum?" Ef maður heldur það þá er það ekki óvænt - eða hvað?

Jón Sigurgeirssona á hugmyndina að tillögunni enda er hún rökfræðilega rétt.

Tillaga: Handviss um að þær verði ofar í kvöld en flestir halda

5.

„Reykjanesbær dró vagninn með lökustu kjörsóknina …

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 16.5.22.                                     

Athugasemd: Orðtök verða að hæfa tilefninu. Sá sem dregur vagninn merkir þann sem hefur forystu, er leiðtoginn, sýnir gott fordæmi, tekur af skarið og svo framvegis. Sá sem er lakastur dregur ekki vagninn, þvert á móti. Þetta minnir á manninn sem hrósaði sér af því að hafa orðið hæstur af þeim sem féllu á prófinu.

Hafi Reykjanesbær verið með lélegri kjörsókn en önnur sveitafélög á einfaldlega að segja það beinum orðum. Tillagan hér fyrir neðan er mjög góð, einföld og segir allt sem segja þarf.

Blaðamenn freistast oft til að nota málshætti og orðtök sem þeir skilja ekki og beita þeim því rangt. Fjölmiðlar ættu að draga vagninn með vönduðu málfari. 

Tillaga: Reykjanesbær var með lökustu kjörsóknina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband