Eiga háværa rödd í umræðu - verða við áköllum - sækja Kötlujökul heim

Orðlof

Góða helgi

Til okkar hafa einnig borist annars konar kveðjur eða óskir sem tíðkast með öðrum þjóðum, t.d. e. have a nice weekend og þ. Schönes Wochenende. 

Það má kallast góðra gjalda vert að þýða slíkt góss ef menn kjósa að nota það, t.d. góða/(hæga) helgi, en kveðjurnar verður þá að nota í samræmi við reglur íslenskrar tungu.

Á ónefndri útvarpsstöð heyrði umsjónarmaður þáttarstjórnanda tönnlast í sífellu á eftirfarandi: 

Áttu góða helgi! (23.6.06). 

Hér virðist orðmyndin áttu notuð í stað boðháttarmyndarinnar eigðu. 

Orðasambandið eigðu góða helgi hljómar reyndar sérkennilega, góða helgi nægir í þessu samhengi. 

Íslenskt mál – þættir Jóns G. Friðjónssonar 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Segist reiðubúinn til þessstíga til hliðar.

Frétt á ruv.is.                                     

Athugasemd: Of margir virðast reiðbúnir til að „stíga til hliðar“ en færri eru sagðir hætta. 

Blaðamenn sem telja sig fullnuma í ensku hafa sagt að orðalagið „to step aside“ þýði að stíga til hliðar. Það er hárrétt en það merkir ekki að hætta.

Fréttin fjallar um forsætisráðherra Sri Lanka. Við sem ekkert kunnum í ensku getum samt lesið. Af fréttinni má geta sér þess til að ráðherrann er tilbúinn að hætta.

Reiður almenningur réðst inn í hús forsætisráðherrans og kann hann að hafa þá stigið til hliðar til að þurfa ekki að mæta múgnum. Líklega var það rétt ákvörðun hjá honum.

Þegar göngumenn mætast á þröngum stígum í fjöllum eða bara í Heiðmörk, gerist það undur að annað hvor eða báðir stíga til hliðar. Hvorugur er hins vegar hættur göngu sinni né nokkru öðru.

Takið eftir hortittinum „til þess“ í tilvitnuninni. Hann gjörsamlega þarflaus, málleysa.

Tillaga: Segist reiðubúinn að hætta.

2.

„Melník hef­ur átt há­væra rödd í umræðunni í Þýskalandi …

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Ekki er þetta gott. Átt er við að maðurinn hafi verið hávær eða látið að sér kveða í umræðunni. „Að eiga háværa rödd“ er furðulegt orðalag og er vart til á íslensku.

Í fréttinni segir:

Ítrekaðar ósk­ir hans um meiri aðstoð, sér­stak­lega í formi vopna­út­flutn­ings frá Þýskalandi til Úkraínu, hafa ít­rekað ratað í fyrirsagn­ir þýskra miðla.

Af hverju vandar blaðamaðurinn sig ekki? Málsgreinin er klúðurslega samin og þar að auki sér skrifarinn ekki nástöðu orðsins „ítrekað“. Í staðinn hefði hann getað sagt oft eða margoft. Lýsingarorðið ítrekað er eitt af þessum orðum sem eru ofnotuð og jafnvel misnotuð í fjölmiðlum.

Miklu skárra er að orða þetta svona:

Hann hefur margoft óskað eftir frekari aðstoð, sérstaklega vopnum. 

Fréttin um Úkraínu og maðurinn er sendiherra landsins í Þýskalandi.

Tillaga: Maðurinn hefur látið að sér kveða í umræðunni í Þýskalandi …

3.

„Forsetinn lýsti því yfir fyrr í vikunni að hann myndi verða við áköllum og segja af sér …

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Hvað eru „áköll“? Ósk, bænir, kröfur eða hvað? Þetta er svo máttlaust orð í nútímamáli fjölmiðlamanna að leitun er að öðru. Orðalagið að „kalla eftir“ er álíka gagnslaust.

Almenningur á Sri Lanka hefur gengið hart fram og beinlínis krafist afsagnar forseta landsins og ríkisstjórnar. Ekki var óskað eftir því eða hvíslað. Þar af leiðir að orðið „ákall“ er afar villandi og segir ekki neitt. Draslorð.

Fréttin er hins vegar skýr og bendir ekki til að almenningur hafi „kallað eftir“ einhverju eða verið með „ákall“. Krafist var að forsetinn segði af sér. 

Tillaga: Forsetinn lýsti því yfir fyrr í vikunni að hann myndi verða við kröfum og segja af sér …

4.

„Ég er búin að kom­ast að því að fjölmiðlafólk það borðar ekki.

Frétt á mbl.is.                                     

Athugasemd: Reginmunur er á talmáli og ritmáli. Viðmælandi Moggans segir þetta en blaðamaðurinn á að hafa vit á því að lagfæra orðalagið smávægilega. 

Þarna á að sleppa persónufornafninu „það“. Orðið gerir ekkert gagn, er algjörlega tilgangslaust eins og sést á tillögunni.

Mjög algengt er að blaðamenn skrifi orðrétt upp eftir viðmælendum sínum og skiptir engu hversu kjánalegt orðalag þeirra er. Blaðamenn verða að lagfæra það sem haft er eftir viðmælendum, þeirra vegna og lesenda.

Tillaga: Ég er búin að kom­ast að því að fjöl­miðlafólk borðar ekki.

5.

„Hundruð sækja Kötlujökul heim dag hvern.

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 14.7.22.                                     

Athugasemd: Sækja heim merkir að heimsækja, fara að heimili, bústað einhvers. Enginn orðar það svo að sækja eigi Esju heim, Þingvallavatn eða Þórsmörk. Við förum eða göngum á Esju, förum Þingvallavatni, í Þórsmörk og eða á Kötlujökul.

Sumir þekkja ekki merkingu orða eða orðasambanda, eins og sækja heim eða heimsækja. 

Út af fyrir sig skilja allir hvað átt er við þegar til dæmis sagt er að gaman sé að heimsækja Húsavík Þeir sem vel eru að sér myndu segja að gaman sé að fara til Húsavíkur eða vera þar.

Aftur á móti myndi aldeilis versna í’ðí ef Kötlujökull væri ekki heima.

Tillaga: Hundruð fara að Kötlujökli dag hvern.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband