Ríkjandi meistari - bílslys átti sér stað - leggja kylfurnar á hilluna
26.8.2022 | 22:30
Orðlof
Læðingur
Orðið læðingur er eingöngu notað í föstum orðasamböndum eins og liggja í læðingi, leysa eitthvað úr læðingi og losna úr læðingi.
Þessi sambönd eiga öll rætur í Snorra-Eddu. Læðingur var fyrsti fjöturinn sem reynt var að fjötra Fenrisúlf með en úlfurinn leystist úr Læðingi og þannig er orðasambandið til komið.
Næsti fjötur hét Drómi. Hann dugði engu betur því Fenrisúlfur drap sig úr Dróma.
En þriðji fjöturinn hélt. Hann hét Gleipnir og var gerður úr því sem ekki er til: dyn kattarins, skeggi konunnar, rótum bjargsins, sinum bjarnarins, anda fisksins og fugls hráka.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Jafnvel þeir, sem þykir lítið til Borisar Johnson koma, geta ekki horft fram hjá því að hann hefur verið einarður stuðningsmaður þess að fórna mætti miklu öðru en ekki þó blóði þjóða NATÓ,
Leiðari Morgunblaðsins 26.8.22.
Athugasemd: Orðalagið fórna miklu öðru skilst ekki. Líklega fljótfærnisvilla höfundarins.
Þarna stendur: einarður stuðningsmaður þess . Skelfing er þetta ljótt. Þar sem ég skil ekki málsgreinina er erfitt að lagfæra orðalagið.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Eldgosið í Meradölum hefur undirstrikað mikilvægi raforkumála sem mikilvægs þáttar í þjóðaröryggi Íslands.
Aðsend grein á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu.
Athugasemd: Sérkennileg nástaða sem höfundurinn sá ekki. Þar að auki er málsgreinin eiginlega bjánaleg, enginn rökstuðningur og því undirstrikar eldgosið í Meradölum ekki neitt, hvorki beint né óbeint. Þetta er marklaust tal.
Höfundurinn hefði betur fengið einhvern til að lesa greinina yfir. Þó hún sé efnislega merkileg er orðalagið sums staðar ógott. Hér er eitt dæmi:
Vindorkuver þurfa vissulega að vera þar sem vindinn er að finna en hann finnst mun víðar og hægt að staðsetja vindorkuver á köldum svæðum, langt frá hættu á jarðhræringum, og með því styrkja raforkuöryggi talsvert.
Hvar er vind að finna? Höfundurinn hefði getað orðað málsgreinina mun betur, þetta er bara orðagjálfur.
hann finnst mun víðar stendur þarna. Víðar en hvar? setningin er eins og rekald, hjálpar ekkert en er til óþurftar.
Tillaga: Eldgos geta ógnað þjóðaröryggi Íslands, ekki síst orkuverum og dreifingu raforku.
3.
Rauða stjarnan er ríkjandi deildar- og bikarmeistari í Serbíu.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Hver er munurinn á því að vera ríkjandi deildar- og bikarmeistari eða einfaldlega deildar- og bikarmeistari?
Rétt svar skal senda á ríkjandi íþróttablaðamann Vísis eða sitjandi ritstjóra. Sá sem fyrstur kemur með rétt svar fær ónot.
Tillaga: Rauða stjarnan er deildar- og bikarmeistari í Serbíu.
4.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni ræðst upphaf framkvæmda við Fjarðarheiðargöng af því hvenær fjármagn verður til reiðu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þarna hefði átt að nota viðtengingarhátt. Málsgreinin er hins vegar óhönduglega samin, nokkurs konar kansellístíll á því og það er ekki hrós.
Tillaga: Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður byrjað á Fjarðarheiðargöngum þegar veitt verðu fé til verksins.
5.
Bílsys átti sér stað á Sogavegi rétt í þessu.
Frétt á visi.is.
Athugasemd: Bílslysið varð, ekki átti sér stað. Óþarft að flýta sér svo með fréttina að stafsetningavilla verði í fyrsta orðinu.
Í fréttinni segir:
Tveir bílar áttu hlut að máli en annar þeirra lenti á hvolfi á Sogavegi, líkt og sést á meðfylgjandi myndum.
Skárra væri að orða þetta svona:
Tveir bílar rákust á og annar þeirra lenti á hvolfi eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Um leið og við lesendur byrjum á fréttinni áttum við okkur á að slysið varð á Sogavegi. Óþarfi er að tönglast á því líkt og hætta sé á að við gleymum því.
Í myndatexta segir:
Frá vettvangi. Annar bílanna endaði á hvolfi.
Blaðamaðurinn þurfti endilega að skjóta þarna inn að myndin væri af vettvangi, svo óskaplega flott orð. En við lesendur hefðum áttað okkur á því án myndatextans. Hann bætir engu við fréttina.
Blaðamaðurinn reynir að teygja lopann. Fréttin fjallar um árekstur, bíl á hvolfi og einn maður var fluttur á sjúkrahús. Lengd frétta segir oft lítið um fréttagildið.
Og tíminn líður. Orðalagið rétt í þessu er orðið afgamalt en enginn lagfærir fréttina.
Tillaga: Bílslys varð á Sogavegi rétt í þessu.
6.
Ólafía Þórunn leggur kylfurnar á hilluna.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Er ekki nóg að segja að hún hafi hætt? Nei, blaðamaðurinn þarf endilega að nota þennan útjaskaða frasa tvisvar í fréttinni.
Í fréttinni segir:
Hún hefur nú ákveðið að kalla þetta gott, hætta í golfi
Hér er annað ofnotað orðalag sem notað er í stað þess sagnarinnar að hætta. Vera má að einu sinni hafi þetta þótti sniðugt en sá tími er löngu liðinn.
Tillaga: Ólafía Þórunn hættir í golfi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.