Sveigjanlegt starfsfólk - talsverður vindur

Orðlof

Skeleggur

Sá sem er djarfur og einarður er stundum sagður vera skeleggur. Í nútímamáli er orðið aðallega haft um þá sem flytja eitthvert mál af krafti og mælsku en í fornu máli ekki síður um þá sem voru djarfir og kappsfullir í orrustu. 

Hvort tveggja er reyndar líkingamál því orðið skeleggur er samsett úr kvenkynsorðunum skel og egg (á hnífi) og bókstafleg merking þess ætti því að vera ’með skelþunna egg’ eða með öðrum orðum ’flugbeittur’. 

Í fyrndinni kann að hafa verið talað um skelegg vopn en einkunnin síðan færst yfir á þá sem beita vopnunum og loks, þegar draga fór úr vígaferlum, á þá sem berjast með orðin ein að vopni.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Sveigjanleiki starfsfólks sjálfsögð mannréttindi.

Aðsend grein á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 28.2.22.

Athugasemd: Væru slík mannréttindi tryggð gæti ég fari í splitt, snert tærnar án þess að beygja hnén og afrekað enn fleira sem ég reyni ekki lengur.

Að aulafyndninni slepptri er ljóst að fyrirsögnin er gölluð. Þarna er átt við að fólk geti ráðið því hvenær það hættir störfum vegna aldurs.

Tillaga: Sveigjanleg starfslok sjálfsögð mannréttindi.

2.

„Var Óskar þá á leið með einn særðan einstakling af þeim 16 sem bjargað var á sjúkrahús.

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 29. ágúst 2022.

Athugasemd: Orðaröð skiptir máli. Tillagan fyrir neðan er mun skárri.

Tillaga: Óskar var þá á leið á sjúkrahús með einn af þeim 16 sem bjargað var.

3.

„Fram kom í svari Jóns Baldvins við tillögu Þorsteins um viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna á Alþingi að viðurkenning Íslands á fullveldi Eystrasaltsríkjanna væri í fullu gildi.

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Um hvað er verið að tala? Já, „viðurkenningu Íslands á sjálfstæði/fullveldi Eystrasaltsríkjanna“. Var ekki hægt að segja þetta oftar?

Grínlaust: Þetta er svakalegasta nástaða sem um getur í gjörvallri fjölmiðlasögu Íslands.

Tillaga: Fram kom í svari Jóns Baldvins við tillögu Þorsteins um viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna á Alþingi að hún væri í fullu gildi.

4.

Tals­verður vind­ur var á Hlíðar­enda sem hafði nokk­ur áhrif á leik­inn en …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Veðurfræðingum er að takast að kenna almenningi að nota ekki gömul og góð veðurorð heldur tala oftast um mikinn vind eða lítinn. Hversu flatt og ómerkilegt verður málið þegar einhæfnin drepur allt í dróma.

Stundum hvarflar að manni að orðaforði margra sem starfa í fjölmiðlum sé ansi rýr. Þetta datt mér í hug þegar veðurfræðingur sagði að á landinu væri vindasamt. Þeir eldri hefðu líklega sagt að víða væri hvasst enda fjölmörg orð og orðasambönd til sem lýsa veðri, ekki síst „vindasemi“.

Á annað hundrað orð eru til á íslensku sem lýsa vindi. Nefna má þessi:

  1. aftakaveður
  2. andblær
  3. andi
  4. andvari
  5. áhlaup
  6. bál
  7. bál 
  8. bálviðri
  9. belgingur
  10. blástur
  11. blær
  12. blæs
  13. brimleysa
  14. derringur
  15. drif
  16. dúnalogn
  17. dús
  18. fellibylur
  19. fjúk
  20. fok
  21. foráttuveður
  22. galdraveður
  23. gambur
  24. garri
  25. gerringur
  26. gjóla
  27. gjóna
  28. gjóstur
  29. gol
  30. gola
  31. gráð
  32. gustur
  33. hrakviðri
  34. hregg
  35. hríð
  36. hroði
  37. hrök
  38. hundaveður
  39. hvassviðri
  40. hviða
  41. hvirfilbylur
  42. hægviðri
  43. illviðri
  44. kaldi
  45. kali
  46. kári
  47. kul
  48. kuldastormur
  49. kuldastrekkingur
  50. kylja
  51. kyrrviðri
  52. kæla
  53. lágdeyða
  54. ljón
  55. logn
  56. lægi
  57. manndrápsveður
  58. mannskaðaveður
  59. músarbylur
  60. nepja
  61. næðingur
  62. næpingur
  63. ofsarok
  64. ofsaveður
  65. ofsi
  66. ofviðri
  67. ókjör
  68. óveður
  69. remba
  70. rembingur
  71. rok
  72. rokstormur
  73. rumba
  74. runta
  75. ræna
  76. skakviðri
  77. slagveður
  78. snarvindur
  79. snerra
  80. snerta
  81. sperra
  82. sperringur
  83. stilla
  84. stormur
  85. stólparok
  86. stólpi
  87. stórastormur
  88. stórveður
  89. stórviðri
  90. strekkingur
  91. strengur
  92. streyta
  93. streytingur
  94. stroka
  95. strykur
  96. súgur
  97. svak
  98. svali
  99. svalr
  100. 100.sveljandi
  101. 101.svipur
  102. 102.tíkargjóla
  103. 103.túða
  104. 104.veðrahamur
  105. 105.veðurofsi
  106. 106.vindblær
  107. 107.vindkul
  108. 108.vindsvali
  109. 109.vindur
  110. 110.vonskuveður
  111. 111.ördeyða
  112. 112.öskurok

Legg til að lesandinn lesi listann aftur og aftur og leggi á minnið. 

Hvað orð er fallegast. Gráð? Sperringur? Kæla? Tíkargjóla? Rumba? Kylja? Stilla?

Öll eru orðin afskaplega falleg og synd ef flatneskjan geri út af við þau; „mikill vindur“, „talsverður vindur“, „lítill vindur“ ... 

Tillaga: Hvasst var á Hlíðar­enda sem hafði nokk­ur áhrif á leik­inn en …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband