Segja af létta - ekkert að sjá - ekkihaustlægð - vindgangur

Orðlof

Ný viðmið

Ríkisútvarpið er mikilvæg fyrirmynd um málfar. Með breytingum í átt að kynhlutleysi hafa sumir starfsmenn Ríkisútvarpsins tekið upp ný viðmið sem fáum eru þó mjög töm. 

Margir hafa áhyggjur af því að brátt verði litið niður á tungutak þeirra sem geta ekki fylgt (eða vilja ekki fylgja) hinum nýju viðmiðum; stéttskipt málfar hafi ekki verið áberandi hér á landi en með hinum nýja sið kunni það að breytast.

Eins og sjá má snúast rökin með breytingunum um
tilfinningar: sumum finnst hefðbundið orðalag útilokandi og þarna hefur verið reynt að bregðast við því. 

Að baki nýmælunum í Ríkisútvarpinu býr sannarlega góður hugur. En ef fylgifiskar nýmælanna eru misskilningur og stéttbundið málfar er þetta nokkuð dýru verði keypt.

Úr pistlum Jóns G. Friðjónssonar í Málfarsbankanum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Rishi Sunak segir af létta.

Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 30.8.22.

Athugasemd: Orðtakið að segja einhverjum allt af létta merkir að segja alla söguna, alla málvexti, draga ekkert undan og svo framvegis. Sjá nánar á Íslensku orðaneti. Þar er getið um orðasambandið að svara af létta og fleiri.

Ekki hef ég heyrt um orðalagið „að segja af létta“. Vera má að þarna hafi tvö orð fallið niður fyrir mistök eða viljandi.

Tillaga: Rishi Sunak segir alla söguna.

2.

„Þegar lög­regl­an kom á staðinn var ekk­ert að sjá nema tvo ölvaða menn sem sögðust ekki hafa tekið eft­ir neinu.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Svokölluð „dagbók lögreglunnar“ hefur oftast ekkert fréttagildi ein og sér en þó gætu flotið með punktar sem vert er að vinna nánar.

Oft eru nýliðar á fjölmiðlunum skikkaðir til að vinna fréttir úr „dagbókinni“ og gera það sumir með hangandi hendi. Allt er birt sem löggan skrifar, yfirleitt gagnrýnislaust. Dæmi um slíkt er ofangreind tilvitnun sem reyndir blaðamenn hefðu aldrei tekið í mál að birta.

Er tilvitnunin fréttnæm? Nei, síður en svo. En Mogginn er ekki einn um þessa vitleysu. 

Á fréttablaðinu.is stendur:

Þegar lög­regla kom á vett­vang var ekkert að sjá nema tvo ölvaða menn sem sögðust ekki hafa tekið eftir neinu.

Blaðamaðurinn Fréttablaðsins notar orðið „vettvangur“ sem stendur ábyggilega í „dagbókinni“ enda afar löggulegt og trúverðugt orð og hlýtur að gefa „fréttinni“ trúverðugt yfirbragð. Á vef Moggans stendur einungis að löggan hafi komið „á staðinn“. Smá glæta þar.

Á vísi.is stendur:

Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi hins vegar ekkert verið að sjá „nema tvo ölvaða menn sem sögðust ekki hafa tekið eftir neinu“, líkt og það er orðað.

Niðurlagið í tilvitnuninni, „líkt og það er orðað“, er skrýtið og skilst ekki.

Í „fréttinni“ á Moggavefnum segir einnig:

Lög­regl­an vísaði jafn­framt manni út úr strætó sem hafði verið með al­menn leiðindi.

Á vef Fréttablaðsins stendur:

Þá vísaði lög­regla manni úr strætó en hann er sagður hafa verið með „al­menn leiðindi“.

Á Vísi stendur:

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu vísaði manni úr strætisvagni í gærkvöldi en sá hafði verið „almenn leiðindi“ um borð.

Mogginn, Fréttablaðið og Vísir nota því sem næst orðalag lögregluvarðstjórans sem líklega segir „ekki benda á mig“. Ríkisútvarpið birti enga frétt upp úr þessari makalausu „dagbók“ löggunnar og er ástæða til að hrósa stofnuninni fyrir það.

Kom ekki til greina hjá blaðamönnunum eða fréttastjórum Moggans, Vísis og Fréttablaðsins að birta ekkert frá löggunni þennan daginn? Eða hafa þeir ekkert fréttanef eins og sagt er?

„Ekkifréttir“ frá löggunni eru vondar, þó af og til hægt sé að brosa af vitleysunni. Ef ekkert er fréttnæmt í dagbókinni á ekki að birta hana, hvorki með orðalagi löggunnar eða máttleysislegri umorðun blaðamanns. Lágmarkið er að fjölmiðlar geri eitthvað meira en að stunda nokkurs konar kranablaðamennsku.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Sumarlægð ekki haustlægð og rólegra framundan.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Fyrsti fjölmiðillinn tekur af skarið og nefnir vinsælasta sumarorð undanfarinna ára, „haustlægð“. 

Þann 30.8.22, þegar fréttin birtist var á höfuðborgarsvæðinu 14° hiti, skúrir og 12 m/s sem hefði kallast stinningskaldi eða strekkingur og þykir lítið tiltökumál. Sófafólkið kallar þetta „gluggaveður“ og hryllir sig á samfélagsmiðlum og óskar sér til Tenirífu-eyjar.

Oft hafa fjölmiðlar verið fyrr á ferðinni með fréttaflutning um haustlægðir og vekur sinnuleysi um alvörunnar mál athygli og áhyggjur á þessum „tímapunkti“ (d. tidspunkt). 

Hvað myndi nú gerast ef allir væru úti í svona vondum veðrum? Jú, stjórnvöld myndu „virkja“ neyðaráætlanir, löggan, björgunarsveitir, slökkvilið, sjálfboðaliðar og ekki síst hinir frægu og rösku „viðbragðsaðilar“ myndu fórna sér, vaða út í veðrið og koma fólkinu til hjálpar, með góðu eða illu, og drusla því í sérhannaða hjálparmiðstöð. Fjölmiðlarnir myndu svo lofa björgunina en atyrða fólk sem ekki tók ekki mark á veðurspá og fór út að ganga í slagveðrinu.

Þennan sama dag er bannað er að fara um gosstöðvarnar í dalnum sem kenndur er við merar. Ekki viljum við að fólk verði úti á ríkisgönguveginum, segir hann Þorbjörn grindvíski og almannavarnalöggan. Skárra að það gerist annars staðar.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Talsverður vindur.

Upplýsingar á vef Veðurstofu Íslands.

Athugasemd: Á vef Veðurstofunnar segir:

Til þess að auðvelda skilning á vindhraðaeingunni m/s má notast við eftirfarandi töflu:

Vindhraði í m/s Lýsing
<5Mjög hægur vindur
5-10Fremur hægur vindur
10-20Talsverður vindur
20-30Mjög hvasst, fólk þarf að gá að sér
>30Stórviðri, fólk ætti ekki að vera á ferli að nauðsynjalausu, hættulegt

Til samanburðar er hér tafla frá Veðurstofunni og í henni eru orð sem eru í útrýmingarhættu en voru notuð áður en metrar á sekúndu tóku við af vindstigum.

VeðurhæðMeðlvindhraði
Heitim/s
Logn0 - 0,2
Andvari0,3 - 1,5
Kul1,6 - 3,3
Gola3,4 - 5,4
Stinningsgola (blástur)5,5 - 7,9
Kaldi8,0 - 10,7
Stinningskaldi (strekkingur)10,8 - 1 3,8
Allhvass vindur (allhvasst)13,9 - 17,1
Hvassviðri (hvasst)17,2 - 20,7
Stormur20,8 - 24,4
Rok24,5 - 28,4
Ofsaveður28,5 - 32,6
Fárviðri>= 32,7

Ástæða fyrir aukastöfum í dáknum sem sýnir meðalvindhraða er útkoman þegar gömlu vindstigin eru reiknuð í metra á sekúndu. Að skaðlausu hefði mátt námunda aukastafi við næstu heilu tölu. 

Það verður að segjast eins og er að Veðurstofunni gengur ágætlega að búa til blæbrigðalausa nýíslensku og sú forna gleymist. 

Daglega eru útsendarar Veðurstofunnar með áróður í hljóðvarpi og sjónvarpi ríkisins. Þeir tala um mikinn vind og lítinn vind á NorðurLANDI og AusturLANDI (framburður nýíslenskunnar). 

Á Íslandi virðist ekki rigna lengur. Á nýíslensku heitir það úrkoma eða væta. Haugarigning kallast „úrkomuákefð“ sem er fræðilegt orð en á sjaldnast erindi til leikmanna.

Tillaga: Strekkingur, allhvasst, hvassviðri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband