Missir sem er bagalegt - gráta úr gleði - vandmeðfarið að setjast við borð
31.12.2022 | 15:27
Orðlof
Einsleitni
Ég var að lesa nýjustu bók Arnaldar og á einni blaðsíðu sá ég býsna mörg venjuleg en frekar gamaldags orð og hugsaði með mér: Nei, þetta skilja nemendur ekki! Þannig að íslenskan með öllum sínum sveigjanleika og fjölbreytileika deyr út og einsleitnin verður meiri. Við hættum með allskonar fjúk, skafrenning og hundslappadrífur og þetta verður allt einn snjóstormur.
Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari í viðtali við mbl.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Missir borholunnar bagalegt á köldum degi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Auðvitað er bagalegt að geta ekki nýtt vatnið úr borholunni. Hins vegar er missirinn bagalegur. Missir er nafnorð í karlkyni, raunar eintöluorð.
Í stuttu máli: Þar sem missir er karlkynsorð (hann missirinn) er lýsingarorðið það líka. Dæmi:
Missir er bagalegur (karlkyn)
Vonbrigðin eru bagaleg (kvenkyn)
Mótlætið er bagalegt (hvorugkyn)
Getur verið að einhverjir aðrir en blaðamenn semji stundum fyrirsagnir svo þær passi betur plássið sem gert er ráð fyrir að þær hafi?
Tillaga: Missir borholunnar bagalegur á köldum degi
2.
Manni fannst fallegt að sjá Svala Björgvins og fleiri eldri menn gráta úr gleði
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sumir virðast forsetningavilltir. Vera má að það stafi af of litlum lestri í uppvexti.
Tillaga: Manni fannst fallegt að sjá Svala Björgvins og fleiri eldri menn gráta af gleði
3.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að samtal um innleiðingu rafvarnarvopna lögreglu þurfi að eiga sér stað innan ríkisstjórnarinnar og þingsins.
Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 31.12.22.
Athugasemd: Skelfing hljóta það að vera ömurleg endalok íslenskunnar að að hún breytist í stofnanamál. Það væri nú ljóta geldingin.
Hér er kansellístíllinn allsráðandi. Allir þurfa að eiga samtal enginn er tilbúinn að ræða neitt. Hér áður fyrr voru haldnir fundir um margvísleg málefni. Er ekki hægt að ræða rafvarnarvopnin á fundi ríkisstjórnar og síðan á þingfundi?
Blaðamenn eru gjörsamlega meðvitundarlausir um orðalag. Taka upp kansellístíllinn; löggumálið, lögfræðingamalið (mal, ekki mál), veðurfræðingatalið og svo framvegis. Aldrei er stafkrók breytt til hins betra í málfari.
Enn er því trúað að því meiri menntun sem viðmælendur hafi því líklegra sé að þeir tali gullaldarmál.
Tillaga: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur ræða þurfi innleiðingu rafvarnarvopna lögreglu í ríkisstjórn og þingi.
4.
Það var vandmeðfarið að setjast við kjarasamningaborðið á þessum tímapunkti fyrir
Aðsend grein á blaðsíðu 31 í Morgunblaðinu 31.12.22.
Athugasemd: Engum mun þykja vandmeðfarið að setjast við borð. Orðalagið er della. Kjánalegt er að nota líkingar sem eru út í hött.
Draslorðið tímapunktur er óþarft. Við höfum fjölda annarra orða sem hingað til hafa dugað ágætlega.
Vandinn er sá að vel menntað fólk virðist tjá sig almennt lakar á íslensku nú en áður.
Tillaga: Engin tillaga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.