Orðlof
Leiðarljós
Íslensk tunga er veik að því leyti að lesskilningur unglinga, sérstaklega drengja, er slakur. Einnig á málkennd mjög undir högg að sækja, ekki síst í fjölmiðlum, þar sem lögmál tungunnar eru gjarnan virt að vettugi.
Vísast átta sumir okkar ágætu fræðimanna sig ekki á því hve miklu atfylgi þeirra getur skipt með glöggum viðmiðum og ábendingum um rétt mál eða æskilegt.
Það er letjandi og ruglandi fyrir þá sem vilja tala gott mál, og ekki síður þá sem eru að læra íslensku frá grunni, að hafa ekki skýr leiðarljós.
Jón Þorvaldsson, ráðgjafi. Blaðsíða 24 í Morgunblaðinu 31.12.22.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Það var svo rétt fyrir jól þegar Kohberger lagði í langferð á bíl hans, hvítum Hyundai Elantra, frá heimili hans
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn áttar sig ekki á persónufornafninu hann og afturbeygða eignarfornafninu sinn.
Maðurinn sem hann skrifar um fór á bíl sínum og frá heimili sínu. Einfaldar er að segja að hann hafi farið að heiman í bíl sínum.
Í fréttinni segir:
Kohberger var handtekinn á heimili foreldra hans
Blaðamaðurinn er greinilega óvanur skrifum. Aðrir hefðu sagt að náunginn hafi verið handtekinn á heimili foreldra sinna.
Fréttin er undarlega skrifuð, í henni segir:
Krufning á líkum hinna fjögurra kvenna
Blaðamaðurinn hefur ekki náð tökum á lausa greininum. Hér er honum beitt rangt.
Að minnsta kosti tvær stafsetningavillur eru í greininni.
Svona skrif eru óvirðing við lesendur.
Tillaga: Rétt fyrir jól fór Kohberger að heiman í langferð á bíl sínum, hvítum Hyundai Elantra
2.
Ég vona að þegar líður á janúar getum við sagt að við höfum átt mjög gott mót og
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Orðalagið að eiga gott mót er ljótt, hrikaleg flatneskja og vart bjóðandi á íslensku. Ótrúlegt að vanur blaðamaður skuli skrifa svona.
Orðalagi er nákvæm þýðing á því sem stendur í heimildinni, Handball World:
Ich hoffe, dass wir Ende Januar sagen können, wir haben ein richtig gutes Turnier gespielt
Bein þýðing er að liðið hafi spilað gott mót en þannig er ekki tekið til orða á íslensku. Tillagan er skárri en þýðing blaðamannsins.
Blaðamaður hefði átt að orða þetta eins og segir í tillögunni. Þar er sögnin að standa í aðalhlutverki en hjá blaðamanninum er nafnorðið mót notað. Íslenskan byggir á sagnorðum síður á nafnorðum eins og enska og líklega þýska.
Tillaga: Ég vona að þegar líður á janúar getum við sagt að við höfum staðið okkur mjög vel á mótinu og
3.
Hlaupadrottningin Elísabet Margeirsdóttir er þekkt fyrir að hlaupa löng fjallahlaup.
Frétt á blaðsíðu 10 í sérblaði um heilsu í Morgunblaðinu 3.1.22.
Athugasemd: Það telst til nýlunda að hlaupa hlaup, rétt eins og að stökkva stökk, hoppa hopp, fljúga flug, tala tal, brosa brosi, hlægja hlátri. Svona barnamál eldist fljótlega af flestum.
Tilvitnunin er í inngangi fréttarinnar. Hann er viðvaningslega skrifaður:
Hlaupadrottningin Elísabet Margeirsdóttir er þekkt fyrir að hlaupa löng fjallahlaup. Hún er líka eigandi Arctic Running og Náttúruhlaupa þar sem fólk á það til að smitast af hlaupabakteríunni en hlaup eiga að snúast um að hlaupa og njóta að sögn Elísabetar.
Nástaðan hefur greinilega farið framhjá blaðamanninum en lesendur taka eftir henni. Með lítilsháttar yfirlegu geta flestir bætt skrif sín.
Margir vanda sig ekki, hugsa ekki til lesenda, ofbjóða þeim. Inngangur af þessu tagi fælir marga frá því að lesa áfram.
Tillaga: Hlaupadrottningin Elísabet Margeirsdóttir er þekkt fyrir löng fjallahlaup.
4.
Þá segir að Sportabler hafi óvirkjað tilkynningarþjónustu sína tímabundið í gær, á meðan brugðist var við vandanum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Óvarkár skrifari hefur líklega verið að þýða enska orðið disable og fundið upp óvirkja? Afskaplega aumlega gert. Hitt er margfalt verra að blaðamaður Moggans hafi ekki áttað sig og notað annað orðalag. Honum er það skylt.
Hér má geta þess að fyrirtækið Sportabler er íslenskt fyrirtæki í eigu Íslendinga og starfar á íslenskum markaði. Engu að síður velja menn enskt heiti á fyrirtækið og stuðla þannig viljandi að hnignun íslensks máls. Einbeittari getur varla brotaviljinn verið.
Tillaga: Þá segir að Sportabler hafi lokað tímabundið fyrir tilkynningarþjónustu sína í gær meðan brugðist var við vandanum.
5.
Lögreglunni á Vesturlandi hefur ekki upplýsingar um tildrög slyssins á þessum tímapunkti og eru þau til rannsóknar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tímapunktur er orðleysa, draslorð, sem engin þörf er á. Orðalagið á þessum tímapunkti er enn gagnslausara. Draslorð í frétt gerir hana ekki merkilega, þvert á móti.
Sé þremur feitletruðu orðunum sleppt gerist ekkert. Málsgreinin verður fyrir vikið skýrari og raunar gagnorðari. Berið tillöguna saman við tilvitnunina.
Áður en illa lesnir götustrákar fundu upp tímapunktinn sögðu blaðamenn sem satt var að löggan hefði engar upplýsingar getað veitt áður en fréttin var birt, og lesandinn skildi samstundis.
Enskir segja at this point of time. Danir tala um tidspunkt. Í íslensku notum við atviksorð eins og nú eða núna þess vegna þurfum við ekki tímapunkt.
Tillaga: Lögreglan á Vesturlandi hefur ekki upplýsingar um tildrög slyssins og eru þau til rannsóknar.
6.
Mest frost í mánuðinum mældist -27,4 stig við Kolku á miðhálendinu þ. 30.
Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 5.1.23.
Athugasemd: Samkvæmt örnefnakorti Landmælinga verður áin Kolka til þegar saman renna Hjaltadalsá og Kolbeinsdalsá í Skagafirði austanverðum. Önnur Kolka þekkist ekki og er hún víðs fjarri miðhálendinu.
Á vef Veðurstofu Íslands er þó hægt að finna sjálfvirka veðurathugunarstöð sem stofnunin kallar Kolka. Hún er á milli manngerðra lóna sem nefnist Þrístikla og Blöndulón og eru sunnan Blönduvirkjunar.
Samkvæmt hnitum virðist veðurathugunarstöðin Kolka vera vestan við Kjalveg, á svokallaðri Réttarbungu. Nokkru sunnar voru áður örnefnin Kólkuflói, Kólkuhóll og Kólkukvísl en virðast komin undir Blöndulón. Samkvæmt þessu ætti stöðin að heita Kólka.
Niðurlag tilvitnunarinnar er skrýtið. Hugsanlega á þ. 30 eiga að vera skammstöfunin þ. e., stafurinn e fallið niður. Merkingin er þá; það er -30° og á við frostið.
Í fréttinni er talað um kaldasta desember í hálfa öld og sagt er frá meðalúrkomu í Reykjavík. Veðurfræðingar kalla nú flest úrkomu en forðast að nota orð eins og snjókoma eða rigning. Og blaðamenn láta þetta eftir þeim á nokkurrar eftirsjár.
Fréttin er greinilega öll frá Veðurstofunni og með orðalagi stofnunarinnar. Blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að vinna úr efninu eða reyna að skýra það út fyrir lesendum. Líklega veit hann ekkert um veðurathugunarstöðina Kolku rétt eins og ég áður en ég aflaði mér upplýsinga.
Þó verður að segja að myndin sem fylgir fréttinni er afar falleg.
Tillaga: Engin tillaga.
7.
Allir vilja koma með góða leiki á bakinu inn á heimsmeistaramót.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er eitt kjánalegasta orðalag sem sést hefur í íslenskum fjölmiðlum í langan tíma.
Í heimild blaðamannsins, vef TV2 í Danmörku, segir viðmælandi:
Man vil have gode oplevelser og kompetente kampe med ind til VM.
Annað hvort er blaðamaðurinn sérlega illa að sér í dönsku eða hörmulega slæmur í íslensku. Enginn kemur með neitt á bakinu, hvorki í eiginlegri né óeiginlegri merkingu.
Tillagan er skárri þó eflaust megi betur gera.
Tillaga: Mikilvægt er að koma á heimsmeistaramótið með góða reynslu og baráttuanda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.