Framsýna leiðsögnin - labba upp að Glym - framkvæma loftárásir

Orðlof

Elska

Sögnin elska er einhver dýrmætasta sögn í íslenskri tungu. Allir vita hvað hún merkir, ’að bera ástarhug til einhvers’. Almennt hefur hún bara verið notuð um manneskjur eða í hæsta lagi dýr þótt vissulega hafi Hannes Hafstein (1861-1922) ort:

Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Þetta er þó líkingamál en ekki dæmi um venjulega málnotkun.

Á síðari tímum hafa verið brögð að því að elska sé ekki einungis höfð um lifandi verur heldur líka dauða hluti og jafnvel ýmislegt annað.Um leið sljóvgast merkingin og verður nánast ’líkar (vel) við"; hef ánægju af’.

Því er ekki að neita að nokkuð dregur úr gildi yfirlýsingarinnar „Ég elska þig“ þegar í ljós kemur að sá sem það segir elskar líka tölvuna sína og það að syngja í kór.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hvaða skemmtiferðaskip passar best við þitt stjörnumerki?

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Þetta er án efa furðulegasta „frétt“ sem birst hefur á vefsíðu Moggans. Hverjum dettur í hug að skrifa svona?

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Dró eigin­manninn út í jóla­­brasið sem tímir nú varla að selja verslunina.

Frétt á visi.is. 

Athugasemd: Þetta er illa skrifuð málsgrein en verður örlítið skárri í tillögunni. Bras getur merkt erfiði, fyrirhöfn og umstang.

Bras er nafnorð í hvorugkyni en sést sjaldnast með greini en er ekki verra fyrir vikið. 

Orðið er líka til í fleirtölu, brös. Hægt er að láta sér detta í hug þetta dæmi: Bras er stundum erfitt en brös eru verri. Brösin valda mörgum vanda. Hann er vanur brösunum.

Tillaga: Dró eigin­manninn út í jóla­­brasið en hann tímir nú varla að selja verslunina.

3.

„Þá hefur vakið athygli að framsýna leiðsögnin nú er nokkuð frábrugðin þeim fyrri, að því leyti að ekki reyndist kveðið jafn fast að orði um þörfina á frekara aðhaldi að þessu sinni.

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 23.3.23.

Athugasemd: Þessi málsgrein skilst ekki. Fréttin fjallar um stýrivaxtahækkanir Seðlabankans. Hvað er „framsýn leiðsögn“? Um það segir ekki frekar í fréttinni.

Fréttin byrjar á þessum orðum:

Líkt og alkunna er ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um eitt prósentustig í gær. 

Hvernig í ósköpunum er hægt að byrja frétt á þessa leið. Fá nýliðar á Mogganum enga tilsögn í fréttaskrifum? Aðalatriði fréttar á að koma fyrst. Á eftir er fjallað nánar um þau. Vaðall á borð við tilvitnunina er ekki þess fallinn að vekja athygli lesenda.

Í fréttinni segir

Á fundinum impraði Seðlabankastjóri á því að leiðni peningastefnunnar væri góð, hún hefði miðlast vel. 

Þetta er ótrúlega skrýtin málsgrein. Sögnin að impra merkir að nefna eitthvað lauslega en af fréttinni að dæma gerði hann það ekki, heldur fjallað nokkuð ítarlega um peningastefnuna. 

Hvað merkir „leiðni peningastefnunnar“? Það kemur ekki fram í fréttinni og hugsanlega veit blaðamaðurinn það ekki heldur.

Hvernig „miðlast peningastefnan“? Hér er komið annað tyrfið hugtak sem ekki er víst að lesendur skilji. Skilur blaðamaðurinn það?

Blaðamaðurinn endurtekur það sem stjórnendur Seðlabankans segja en gerir enga tilraun til að skýra út fyrir lesendum hvað þeir eiga við. Slíkt er engu að síður það kjarninn í blaðamennsku, ekki að vera einkaritari viðmælenda.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Langspilsspilari Jón Ásbjörnsson (1821- 1905), hann var goskall í Borgarnesi.“

Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 23.3.23.

Athugasemd: Í myndatexta segir að Jón hafi verið goskall, rétt eins og allir viti hvað orðið merkir. Svo er alls ekki. Á málinu.is segir að goskarlvinnumaður eða húskarl. 

Blaðamaðurinn hefði nú átt að afla sér upplýsinga um orðið en ekki gefa sér það að allir þekki það. 

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Ferðamálastjóri segir að koma þurfi í veg fyrir að fólk labbi upp að Glym yfir vetrartímann.

Frétt á vísi.is.

Athugasemd: Enginn „labbar“ upp að Glym, menn ganga þangað. Litlu börnin labba, fullorðið fólk gengur. Ótrúlegt að blaðamaður skuli ekki skilja muninn á að labba og ganga. 

Fólk fer í gönguferðir ekki „labbiferðir“, ekki eru til „labbistígar“ en göngustígar eru víða. Gangbraut liggur yfir götu, ekki „labbibraut“. nokkrar gönguleiðir eru upp með Botnsárglúfri, engar „labbileiðir“.

Hef ekki trú á að ferðamálastjóri hafi notað orðið labba.

Tillaga: Ferðamálastjóri segir að koma þurfi í veg fyrir að fólk gangi upp að Glym yfir vetrartímann.

6.

„… greindi frá því í fyrrakvöld að Bandaríkjaher hefði framkvæmt loftárásir …

Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 25.3.23.

Athugasemd: Núorðið „framkvæma“ menn allan andskotann jafnvel þó aðrar sagnir séu tiltækar. Getur verið að orðasjóður blaðamanna sé orðinn svona rýr. Tillagan er mun skárri.

Tillaga: … greindi frá því í fyrrakvöld að Bandaríkjaher hefði gert loftárásir …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband