Keppni snigla snýr aftur - nemarnir þau mæla gosið - fréttin kýldi mig í magann

Orðlof

Ávinningur og ávæningur

Oft rugla menn saman orðum sem hljóma líkt og segja þá t.d. „Ég hef heyrt ávinning af þessu“ í staðinn fyrir „ávæning“. Merking orðanna er þó alls óskyld og þau geta því aldrei komið hvort í annars stað. 

Ávinningur merkir ’gróði, ábati’, en ávæningur er hins vegar orðrómur og það er að sjálfsögðu hann sem menn geta heyrt.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Hægt hafi verið að flytja hana sitjandi niður.“

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Kona slasast á fjalli og hún er „flutt sitjandi niður“. Blaðamaðurinn er að flýta sér og má ekki vera að því að þjónusta lesendur. Auðvelt er að ímynda sér að konan hafi verið flutt niður á „gullsstóli“. Þeir sem ekki vita hvað það er eru í vanda líkt og þeir sem ekki skila „sitjandi flutning“ björgunarsveitar.

Í frétt á öðrum fjölmiðli kemur fram að konan hafi verið ekið í burtu á fjórhjólatæki og því getað setið upprétt.

Blaðamaðurinn hefur þetta eftir viðmælanda sínum sem er björgunarsveitarmaður og sá segir þetta um útkallið:

Þegar þetta er utandyra er þetta alltaf hækkaður forgangur þó það sé svona gott veður.

Málgreinin skilst ekki. Ótrúlegt er að blaðamaðurinn láti þetta fara svona frá sér. Fréttin fjallar um slys uppi á fjalli og því óþarfi að segja það utandyra. „Hækkaður forgangur“ er furðulegt orðalag sem eflaust björgunarsveitarmaðurinn skilur en ekki almennir lesendur.

Fréttin er ekki vel skrifuð.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Heimsmeistarakeppni snigla snýr aftur.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Fór þessi makalausa „heimsmeistarakeppni“ eitthvað? Nei, hún var felld niður. Getur hún þá „snúið aftur?“ Nei, hún er haldin á ný, aftur.

Heimild Moggans er auðvitað á ensku og margir blaðamenn kunna ensku en margir eru lakari í íslensku.

Snail Racing World Championships make post-pandemic return.

Rétt er að enska orðið „return“ getur að sjálfsögðu þýtt að snúa til baka, koma til baka. 

Hér er lítið dæmi sem sýnir hversu enskan getur verið snúin: 

The voters returned him to office by a landslide. 

Nei, kjósendurnir „snéru honum ekki til baka“ eins og merking orðanna bendir til. Á íslensku er sagt að kjósendur hafi kosið hann á ný í starfið sem hann hafði áður gengt.

Sá sem þýðir fyrir lesendur Moggans verður að hafa huga að þúsundir þeirra hafa ágæta þekking á íslensku og ensku, jafnvel betri en blaðamaðurinn. Þá er vissara að vanda til verka, jafnvel þó ekkert sé kvartað. Hneykslunarandvarpið berst hvorki til blaðamannsins né útgáfunnar.

Krafa lesenda er einföld: Frétt á að vera vel skrifuð jafnvel þó hún sé ómerkileg.

Tillaga: Heimsmeistarakeppni snigla hefst á ný.

3.

For­stjóri NTÍ fór á íbúa­fund í Grinda­vík til þess að hvetja fólk til þess að tryggja inn­búið sitt ef það vill vera ör­uggt ef að yrðu ham­far­ir.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Málsgreinin er illa skrifuð, raunar viðvaningslega. Þarna stendur: „ef það vill vera“ í stað vilji það vera. Viðtengingarhátturinn er að týnast úr málinu. Tillagan er mun skárri.

Í fréttinni segir:

Miðað við lík­lega staðsetn­ingu goss­ins, sem sér­fræðing­ar spá að verði á Reykja­nesskaga á næstu dög­um, er ekki lík­legt að tjón verði sem kalli á viðbragð Nátt­úru­ham­fara­trygg­inga Íslands (NTÍ)

Ekki er þessi samsuða góð. Eftirfarandi er skárra:

Ekki er líklegt að hugsanlegt gos á Reykjanesskaga valdi tjóni sem Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) hafi áhyggjur af.

Tillaga: For­stjóri NTÍ fór á íbúa­fund í Grinda­vík og hvatti fólk til að tryggja inn­búið vegna hamfara.

4.

Nemarnir dást að gosinu meðan þau mæla það í bak og fyrir.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þetta er rangt. Nefndir eru nemar og þeir mæla. Í fréttinni er talað um nemendur og sagt að „þau mæla“. Með sömu rökum er þetta rangt.

Tillaga: Nemarnir dást að gosinu meðan þeir mæla það í bak og fyrir.

5.

Við Ytrafjall eru gamlir grjótgarðar áberandi.“

Frétt á blaðasíðu 34 í Morgunblaðinu 13.7.23. 

Athugasemd: Hvort er bæjarnafnið ritað Ytrafjall eða Ytra-Fjall? Í athyglisverðri og vel skrifaðir frétt, viðtali, í Mogganum er hið fyrrnefnda notað. Stundum finnst mér nauðsynlegt að líta á kort Landmælinga, Örnefnasjá, til að glöggva mig á aðstæðum sem ég þekki ekki vel. Hægt er að láta vefinn leita að örnefnum. 

Undir Fljótsheiði í Aðaldal er bærinn Ytra-Fjall merktur á Atlaskorti sem er prentað kort, skannað. Á því stendur Ytrafjall. Þó er hægt að varpa tölvugerðri örnefnaskrá yfir kortið og þá birtist bæjarheitið Ytra-Fjall ofan í prentaða textann.

Draga má þá ályktun að Ytrafjall sé upprunalegra en af einhverjum ástæðum hefur það ekki flust yfir í örnefnaskrána. Á svipuðum slóðum er bæjarnafnið Syðrafjall, skrifað Syðra-Fjall í örnefnaskránni. 

Tillaga: Engin tillaga.

6.

Þetta kýldi mig í mag­ann þegar ég sá þetta í frétt­un­um.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Fólk hefur mismunandi orð yfir það sem kemur því á óvart eða mislíkar. Segja má að þetta sé lítið skárra en blauta tuskan sem sífellt er slengt framan í fólk því til mikillar skelfingar.

Svo má fullyrða að best sé að tala hreint út, sleppa furðulegum frösum.

Tillaga: Mér varð flökurt þegar ég sá þetta í fréttunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband