Orðlof
Billjón
Orðið billjón merkir: milljón milljónir. Í Bandaríkjunum, Kanada og Frakklandi merkir billion hins vegar þúsund milljónir sem við köllum milljarð.
Athugasemdir við bálfarir í fjölmiðlum
1.
Fjögurra er leitað eftir að bílar sem þau voru í sukku undir yfirborð vatnsins.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Sögnin að sökkva merkir að fara í kaf, oftast vatn. Það sem sekkur fer að sjálfsögðu undir yfirborð vatnsins, ekki þarf að taka það fram.
Á vef CNN sem er líklega heimild fréttarinnar stendur:
The two missing children were passengers in a vehicle that became submerged under water in West Hants
Á góðri íslensku þýðir þetta að bíll hafi farið á kaf ekki að hann hafi sokkið undir yfirborð vatnsins. Annað hvort er blaðamaðurinn ekki betur að sér í íslensku eða hann hafi verið að flýta sér.
Fréttin er illa skrifuð. Hér eru dæmi:
Rýmingu var hrint af stað í nágrenni
Hann segir vart hægt að ímynda sér þær skemmdir sem hafa orðið á heimilum.
Mikið hefur borið á rafmagnsleysi
Svona fréttaskrif eru slæm.
Tillaga: Fjögurra er leitað eftir að bílar lentu í flóðinu.
2.
Téð atvik var eitthvað sem ekki hefur sést áður
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Ansi er þetta nú tilgerðarlega orðað. Téður er lýsingarorð sem merki umræddur, umtalaður, fyrrgreindur og svo framvegis. Skárra er að orða þetta svipað og í tillögunni.
Orðalagið bendir til að blaðamaðurinn sé óreyndur skrifum. Hann gerir ekki greinarmun á talmáli og ritmáli. Hvað merkir; eitthvað sem ?
Fréttin er hroðvirknislega skrifuð, þrisvar er sagt frá sama atviki eins og það er orðað.
Tillaga: Þetta hefur ekki sést áður
3.
Lokað verður fyrir aðgengi að gosstöðvunum við Litla-Hrút klukkan sex í kvöld eftir að erfiðlega gekk að hafa stjórn á fólki á svæðinu í gær.
Frétt á Vísi.is.
Athugasemd: Eðlilegra er að orða þetta eins og segir í tillögunni.
Tillaga: Lokað verður fyrir aðgengi að gosstöðvunum við Litla-Hrút klukkan sex í kvöld því erfiðlega gekk að hafa stjórn á fólki á svæðinu í gær.
4.
Það eru ennþá þrjár eða fjórar vikur í að tímabilið hefjist, það eiga hlutir eftir að gerast þangað til þá, klárlega
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Blaðamenn á DV verða að vanda sig, gera greinarmun á rituðu máli og töluðu. Berum saman tilvitnaða málsgrein við tillöguna. Hún er skárri.
Orðið það getur verið persónufornafn, nafnorð og jafnvel samtengin. Stundum er það nefnt aukafrumlag sem mörgum þykir ferlega ljótt og forðast sem heitan eldinn.
Ritað mál getur batnað mikið ef sleppt er að notað það. Skrifarinn þarf þá að umorða sem er oft til mikilla bóta hafi hann á annað borð þokkalegan skilning á íslensku máli.
Atviksorðið klárlega er klárlega ofnotað í fjölmiðlum. Í málsgreininni í DV er hægt að sleppa því án þess að merking hennar breytist.
Tillaga: Enn eru þrjár eða fjórar vikur þangað til tímabilið hefst og örugglega á margt eftir að gerast þangað til.
5.
Gildi þess að starfa í björgunarsveit.
Aðsend grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 25.7.23.
Athugasemd: Svona slæm fyrirsögn eyðileggur annars ágæt grein. Þetta er flatneskja, ekki lýsandi fyrir efni hennar og vekur ekki áhuga lesandans. Tillagan er skárri, ætti að vekja athygli sem hlýtur að vera áhugamál allra höfunda.
Svo er það orðalagið: Gildi hvers? Þetta er önnur útfærsla á alræmdu orðalagi: Mikilvægi þess er oft sagt og skrifað í fjölmiðlum. Mikilvægi hvers?
Hér skal fullyrt að svona er letihaugaorðalag, notað þegar skrifarinn nær ekki að lýsa umræðuefninu og dettur ofan í það sem nefna má afbrigði af kansellístíl, og það er ekki hól.
Fjölmargir eldri blaðamenn vita að fyrirsögn er eitt af aðalatriðunum í frétta- og greinaskrifum. Hitt sem skiptir máli er upphaf greinar, millifyrirsagnir og mynd. Færri og færri kunna listina að skrifa grípandi fyrirsögn.
Tillaga: Rjóminn þeyttur í björgunarsveit.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.