Gjóska niður að Reykjaneshæð - hraungos myndaði Laugaveg í Landmannalaugum - beita hungri almennra borgara
21.8.2023 | 14:19
Orðlof
Tvö nöfn
Það hefur færst í vöxt á 20. öld að fólki séu gefin tvö nöfn frekar en eitt og sumir eru jafnvel svo ríkir að þeir heita þremur nöfnum.
Í slíkum tilvikum beygjast auðvitað bæði nöfnin eftir því sem við á, bæði það fyrra og síðara, og öll ef þau eru fleiri.
Maður segist því sakna Ólafar Sifjar og fara til Jóns Karls.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Þá sendi gosið gjósku til vesturs og þakti svæðið frá Torfajökli að Barðaströnd og alveg niður að Reykjaneshæð.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Hvað er Reykjaneshæð? Blaðamaðurinn veit ekkert, skrifar það sem hann heldur að viðmælandinn segi. Þetta er svo vitlaust sem mest má vera og fréttin er ekki leiðrétt, enginn á Vísi, hvorki fréttastjóri né aðrir blaðamenn lesa fréttina.
Í fréttinni segir ennfremur:
Þá varð annað gos um 1447, hraungos, sem myndaði Laugaveg í Landamannalaugum.
Þetta er ótrúleg della. Ég hef komið í Landmannalaugar en aldrei séð þennan Laugaveg sem myndaðist í gosinu 1477. Blaðamaðurinn hefur þetta eftir einum virtasta eldfjallafræðingi landsins og er útilokað að hann hafi sagt þetta. Blaðamaðurinn leggur honum orð í munn og fréttinni er skellt framan í lesendur. Fjölmargir vita betur.
Fréttin birtist 16. ágúst og fimm dögum síðar hafði henni ekki verið breytt. Hvað er hægt að segja um svona bull?
Staðreyndin er þessi eins og fram kom í hér í þættinum 16.8.23:
Þá varð mikið gos á eldsprungu sem kennd er við Veiðivötn og nær langt fyrir norðan þau. Síðan teygði hún sig inn í Torfajökulsöskjuna og þar urðu eldgos og hraun rann.
Syðsti gígurinn á Veiðivatnasprungunni er á öxlinni við Brennisteinsöldu, sunnan Landmannalauga. Þá rann Laugahraun og enn er hiti í sprungunni, heitt vatn kemur undan jaðri þess og er notað til baða.
Í gosinu urðu Veiðivötn til í þeirri mynd sem við þekkjum þau í dag.
Mikilvægt er að gera greinarmun á öskjunni sem kennd er við Torfajökul og honum sjálfum. Það að auki er afar brýnt að blaðamenn hafi að minnsta kosti örlitla þekkingu í landafræði og jarðfræði.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Hann sagði Asera beita hungri almennra borgara í hernaðarlegum tilgangi.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta skilst ekki. Hvað merki að beita hungri? Er átt við að verið sé að svelta almenning? Sé svo af hverju er það ekki sagt?
Í fyrirsögn á forsíðu vefsins stendur:
Segir Asera beita hungursneyð í hernaðarlegum tilgangi.
Ekki er þetta skárra.
Tillaga: Hann sagði Asera svelta almennra borgara í hernaðarlegum tilgangi.
3.
Yfirvöld á kanaríeyjunni Tenerife segja gróðurelda sem kviknuðu í fyrrakvöld orðna stjórnlausa.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Yfirleitt er eldur stjórnlaus. Hins vegar er hægt að hafa heimil á útbreiðslu þeirra.
Blaðamaðurinn notar orðið eldarnir tólf sinnum í stuttri frétt. Hann virðist ekki þekkja nástöðu. Orðalagið er stjórnlaust, það er stíllaust.
Tillaga: Yfirvöld á Tenerife á Kanaríeyjum segjast ekki ráða við gróðurelda sem kviknuðu í fyrrakvöld.
4.
Ríkið aðstoðar það við brottförina og fram að henni, sýni það brottfararvilja, en sýni það ekki brottfararvilja virðist málið fara í mikla flækju.
Forystugrein Morgunblaðsins 21.8.23.
Athugasemd: Málgreinin er tóm flækja, illa skrifuð, stirð og flöt af nástöðu. Tillagan er skárri.
Tillaga: Ríkið aðstoðar fólk sem sættist á að fara. Sé svo ekki virðist málið fara í mikla flækju.
5.
Reykkafarar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu komust ekki inn í alla hluta húsnæðisins sem brann í Hafnarfirði í gær sökum þess hvað eldurinn var orðinn mikill þegar slökkvilið bar að garð
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Færri orð duga oft betur. Orðalagið sökum þess er slakt, betra er orðið því. Tilgerðarlegt er að segja að slökkvilið beri að garði, það einfaldlega kemur.
Tillaga: Reykkafarar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu komust ekki inn í alla hluta húsnæðisins sem brann í Hafnarfirði í gær því eldurinn var orðinn of mikill .
6.
Við lækkuðum í lóninu og sáum að það var talsvert mikið af þörungagróðri sem var að sjá í lóninu
Frétt á visi.is.
Athugasemd: Þetta er ljót málsgrein. Blaðamaðurinn hefur ekki verið með fullri meðvitund, annars hefði tekið eftir nástöðinni. Hún er meira að segja tvöföld.
Annað hvort hefði hann átt að umskrifa það sem viðmælandinn sagði eða hafa það í óbeinni frásögn. Tillagan er skárri.
Vandmál margra blaðamanna eru upptökutækin, þeir hljóðrita allt sem viðmælandinn segir og skrifa allt upp gagnrýnislaust jafnvel þó hann reki í vörðurnar eða hefði getað komist betur að orði. Þetta er ekki blaðamennska.
Tillaga: Við lækkuðum í lóninu og í ljós kom talsvert mikið af þörungagróðri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.