Langtímatrendið - kennslustundir fara fram - peppaður fyrir stórmótum

Orðlof

Að vera að gera eitthvað

Orðalagið vera að gera eitthvað vísar til verknaðar sem stendur yfir eða dvalarmerkingar sem afmörkuð er í tíma. Hún er að skrifa bréf. Þau eru að leika sér. 

Samkvæmt málvenju eru nokkrar hömlur á notkun þessa orðasambands. Það er t.d. ekki notað til að vísa til þess sem er tímalaust, t.d. ekki með sögnum sem tákna eiginleika né ástand sem varir. 

Ekki: „hún er að skrifa vel“ heldur: hún skrifar vel. 

Ekki: „hún er að sofa“ heldur: hún sefur. 

Ekki: „kennarinn er að sitja í stólnum“ heldur: kennarinn situr í stólnum. 

Ekki: „Ég er ekki að skilja þetta“ heldur: Ég skil þetta ekki o.s.frv. 

Það væri því í ósamræmi við þessa málvenju að segja „markmaðurinn er að verja vel í þessum leik“, „fyrirtækið er að hagnast vel á þessu ári“ o.s.frv. Fremur: markmaðurinn ver vel í þessum leik, fyrirtækið hagnast vel á þessu ári.

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

28. loftslagsráðstefnan verður haldin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í árslok.“

Aðsend grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 22.8.23. 

Athugasemd: Jafnvel reyndustu stjórnmálamenn sem skrifað hafa ótal greinar þekkja ekki regluna: Aldrei byrja málsgrein á tölustaf. 

Tillaga: Tuttugusta og áttunda loftslagsráðstefnan verður haldin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í árslok.

2.

„Í morgun var þoka en nú hefur henni lyft.

Viðmælandi í útvarpsþætti 24.8.23. 

Athugasemd: Akureyringurinn var nokkuð kátur með að þokunni hafði létt og sólin skein. Vel má vera að hann hafi verið óstyrkur í viðtali í beinni útsendingu og vafist tunga um höfuð. Slíkt gerist.

Tillaga: Í morgun var þoka en nú hefur henni létt.

3.

Langtímatrendið er það að hann sé að hopa meira og meira en það er auðvitað breytileiki á milli ára.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Ekki finnst orðið „langtímatrendið“ í orðabókum. Vera má að orðið sé vitlast stafsett hjá blaðamanni Ríkisútvarpsins. Vera má að „trend“ sé útlenska.

Eitt ráð vil ég gefa blaðamönnum á Ríkisútvarpinu og það er að láta íslenska þýðingu á útlendum orðum fylgja í sviga. Ekki gera ráð fyrir að allir skilji slettur. Best er þó að sleppa þeim enda eru þær sóðaskapur.

Fyrirsögn fréttarinnar er þessi:

Drangajökull hopar meira og meira.

Hér hefði mátt segja að jökullinn hörfi sífellt eða sífellt meira.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Enn hafa engar kennslustundir á vegum Háskóla Íslands farið fram í Eddu, nýju húsi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við Arngrímsgötu í Reykjavík.“

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 28.8.23. 

Athugasemd: Þetta er svakaleg málsgrein. Skilja má fréttina þannig að ekkert hafi enn verið kennt í húsinu sem nefnt er Edda. Sé það rétt skilið af hverju er verið að segja að „engar kennslustundir hafi farið fram“ í húsinu?

Núorðið þarf allt að „fara fram“. Í stað þess að kenna er talað um kennslustundir. Blaðamaðurinn étur gagnrýnislaust upporðalag viðmælanda síns og útkoman verður tóm vitleysa. Einhvers konar kanselístíll eða nafnorðasíbylja.

Fréttin er ekki góð, gagnslaus upprifjun. Allt gamlar og ómerkilegar fréttir.

Tillaga: Enn hefur ekki verið kennt í Eddu, nýju húsi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við Arngrímsgötu í Reykjavík.

5.

Ég er alltaf peppaður fyr­ir þess­um stór­mót­um og að spila fyr­ir ís­lenska landsliðið.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Við erum fjölmargir sem skiljum ekki útlensku. Því ber blaðamanni að lagfæra málfar viðmælanda síns, útrýma slettum. Svo uppgötvaði ég að sögnin að peppa er rammíslensk enda segir í nútímavæddri útgáfu Njálu:

Nú er að segja frá Otkatli að hann ríður rosalega mikið peppaður. Hann hefir spora á fótum og hleypir neðan um sáðlandið og sér hvorgi þeirra Gunnars annan. Og í því er Gunnar stendur upp ríður Otkell á hann ofan og rekur sporann við eyra Gunnari og rístur hann mikla ristu og blæðir þegar mjög. Grét þá Gunnar sárlega en Otkell hló.

Er Otkell þarna peppaður eins og viðmælandi Moggans. Yndislegt.

Orðið er til í ensku en á því máli er til dæmis sagt: „He was an enthusiastic player, full of pep.“ Íslenskir blaðamenn sem hafa lært ensku en minna í íslensku myndu þýða þetta svona: „Hann var ákafur leikari, fullur af peppum.“

Tillaga: Ég er alltaf í stuði fyrir stórmót og vera í landsliðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband