Skrúfan lá niðri - mæta þörf fyrir húsnæði - 34 manns handteknir

Orðlof

Orð leidd af öðrum

Á hinn bóginn geta orð verið skyld, þ.e. leidd af sömu rót, þótt þau séu frábrugðin hvert öðru. 

Málfræðingar þekkja ýmiss konar aðferðir til að leiða orð af öðrum, t.d. hljóðskipti (bera – bar), hljóðvarp (bar – bæri) og klofningu (berg – bjarg). 

Slík ferli eru tiltölulega einföld. Hins vegar virðast orð eins og á og ægir við fyrstu sýn of ólík til þess að vera skyld. Þó hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því að þau séu leidd af sömu rót … 

 Þórhallur Eyþórsson. Tungutak. Morgunblaðið 25.11.23. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Grind­vík­ing­ar hafa mátt yf­ir­gefa heim­ili sín vegna yf­ir­vof­andi hættu á eld­gosi og framtíðin myrkr­um hul­in.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er nokkuð tilgerðaleg málsgrein og hefði að ósekju mátt vera einfaldari enda er það alltaf farsælla í fréttaskrifum.

Tillaga: Grind­vík­ing­ar hafa þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín vegna hættu á eld­gosi og framtíðin er óviss.

2.

„… kom í ljós að bil­un væri í skrúf­búnaði skips­ins. Önnur skrúfa skips­ins ligg­ur því niðri.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Skrýtið orðalag, skrúfan „liggur niðri“. Strandaði skipið? Nei, skrúfan er óvirk, líklega bilaður öxull eða eitthvað þaðan af verra.

Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki hafa áttað sig á þessu.

Tillaga: … kom í ljós að bil­un væri í skrúf­búnaði skips­ins. Önnur skrúfa skips­ins bilaði.

3.

„Stytta séra Friðriks verður tekin niður.

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 24.11.23. 

Athugasemd: Þetta er rétt svo langt sem það nær. Varla verður hún lögð á hliðina þegar hún er komin „niður“. Líklegast verður hún fjarlægð og ekkert að því að orða það þannig.

Þegar sagt er frá því að styttum hafi verið steypt af stalli vegna stjórnmála eða voðaverka segir yfirleit á ensku: „The statue was taken down.“ Eða „removed“.

Hins vegar er þetta ekki stytta Friðriks heldur styttan af séra Friðriki en það skiptir þó ekki öllu máli.

Tillaga: Styttan af séra Friðriki verður fjarlægð.

4.

Rútuslys varð á Holtavörðuheiði.“

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 25.11.23. 

Athugasemd: Gott hjá blaðamanni Moggans, vel skrifað. Slakir skrifarar hefðu sagt að slysið hefði „átt sér stað“ á Holtavörðuheiði. Slys verða, slysstaðurinn er á Heiðinni. Lögguelskir blaðamenn tala um „vettvang“.

Lakara er þó að blaðamaðurinn notar draslorðið „viðbragðsaðili“ um þá sem koma til aðstoðar. Líklega á hann við lögreglu, sjúkraflutningamenn, Landhelgisgæsluna og björgunarsveitir. Allra þessara er getið í fréttinni en engu að síður eytt plássi í að kalla þá öðru hvoru „viðbragðsaðila“. Til hvers? Hvorki í lögum, reglugerðum eða annars staðar er þetta orð nefnt. Það er aðeins til í hausnum á blaðamönnum.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Mæta þörf fyrir húsnæði.“

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 25.11.23. 

Athugasemd: Þarna hefði mun betur farið á því að segja að þörfin verði uppfyllt.

Í enskri orðabók segir: 

„to meet demand(s)" means to be supply enough products and/or services to satisfy the desire of people who wish to buy them. 

Í íslenskri orðabók segir að ’mæta’ geti verið sögn og einnig atviksorð:

Sagnorð: Hitta einhvern á ferð: Ég mætti henni í dyrunum. Hann mætir snemma í vinnuna.

Atviksorð: Þetta er mæta gott. Mér líður mæta vel.

Grundvallarmunur er á notkun og beitingu þessara sagna á íslensku mæta og á ensku „to meet“. 

Nokkuð langt er síðan ég sat á skólabekk utan Íslands og lærði markaðsfræði á ensku. Eitt af grundvallaratriðunum var að greina þarfir og óskir og leitast við að uppfylla þær. Þeim var aldrei „mætt“. Það var ekki fyrr en löngu síðar að blaðamenn og aðrir skrifarar (útlærðir á ensku) fóru að þýða ensk orð beint yfir á íslensku. Síðar hafa margir stuðst við Google-Translate sem er afar ófullkomið þýðingarforrit, hefur engan skilning á blæbrigðum íslenskunnar.

Sé ofangreind tilvitnun í ensku orðabókina þýdd með aðstoð Google-Translate er eftirfarandi niðurstaðan:

„að mæta eftirspurn(um)“ þýðir að bjóða upp á nægilega mikið af vörum og/eða þjónustu til að fullnægja löngun fólks sem vill kaupa þær.

Þar höfum við það.

Svo má láta GT þýða íslenskuna yfir á ensku og fæst þá allt annað orðalag. Líklega má endalaust halda áfram slíkum leik en GT skilur ekki íslensku heldur þýðir vélrænt. Slíkt má ekki henda þá sem eru afskaplega góðir í ensku.

Tillaga: Uppfylla þörf fyrir húsnæði.

6.

„Alls 34 manns hafa verið hand­tekn­ir í Dyfl­inni …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Manns er eignarfallið að maður. Eiríkur Rögnvaldsson skýrir þetta út í ítarlegum pistli á vefsíðu sinni.

Hann segir að töluorð sem ekki eru nafnorð geta tekið með sér manns; átta, tólf, tuttugu og svo framvegis.

Eiríkur segir:

En það er ekki hægt að nota manns með hvaða tölum sem er. 

Ég get ekki sagt *tveir / þrír / fjórir manns, og ekki heldur *tuttugu og einn / tveir / þrír / fjórir manns. 

Aftur á móti finnst mér eðlilegt að segja fimm / sex / sjö manns o.s.frv.

Eiríkur Rögnvaldsson nefnir í pistli sínum háu tölurnar sem að vísu eru beygjanlegar en taka með sér ’manns’. Hann segir:

Niðurstaðan er því sú að sé litið fram hjá hundrað er í máli margra – e.t.v. flestra – eingöngu hægt að nota manns með óbeygjanlegum tölum og tölum sem líta út fyrir að vera óbeygjanlegar (þúsund) eða eru hafðar óbeygðar (milljón).

Afskaplega fróðlegt.

Tillaga: Alls hafa 34 menn verið hand­tekn­ir í Dyfl­inni …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband