Löggan sækir samkomustaði, gerandi líkamsárásar og háréttur dómur

Orðlof

Málfræðilegt kyn eða líffræðilegt

Í íslenskri tungu vill svo til að öll fallorð (orð, sem fallbeygjast) hafa málfræðilegt kyn; eru karlkyns-, kvenkyns- eða hvorugkynsorð. […]

Á allra síðustu árum virðist vera einhver, trúlegast óskipuleg hreyfing, sem vinnur að því að breyta þessu einfalda og rótgróna kerfi.[…] 

Nú er augljóst að þar sem margir koma saman er ekki sjálfgefið að einstaklingarnir séu allir af sama kyni. Og í því virðist þessi meinta breyting liggja. Svo er að sjá að uppi sé krafa um að þegar talað er um hóp skuli líffræðilegt kyn þeirra sem hópinn mynda ráða för en ekki málfræðilegt.[…]

- Í viðtali sagði dómsmálaráðherra að hún … Já, allir vita að dómsmálaráðherra er kona. - Einn þingmaður sagði að hann … Hér kemur ekki fram hver umræddur þingmaður er og líffræðilegt kyn hans er því óþekkt. - Karlalandsliðið í blaki segir leikinn hafa verið góðan. Þeir voru allir sammála um … Hér leikur enginn vafi á kyni tilvitnaðra. - Keppendur á Íslandsmótinu í samkvæmisdönsum sögðu að þeir/þau væru … Hér er okkur vandi á höndum. Téðir keppendur eru eðli málsins samkvæmt af fleiri en einu kyni. […]

Lykilspurningin í mínum huga er þessi: Er þorri málnotenda sáttur við þessa meintu breytingu? Sé svo er fátt fleira um þetta að segja. Málvísindamenn framtíðarinnar hafa þá eitthvað til að rannsaka og skrifa um; hvenær og hvernig kyngreining nafnorða í íslensku leið undir lok.

Haukur Svavarsson, kennari. Morgunblaðið 23.2.20, blaðsíða 16.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Lögregluþjónar sóttu fimmtán samkomustaði í miðborg Reykjavíkur og könnuðu sóttvarnir, fjölda gesta og opnunartíma.

Frétt á visir.is.                                        

Athugasemd: Hér er sagnorðið að sækja rangt notað. Að vísu má nota það á afar fjölbreytilegan hátt. Hér eru dæmi:

  1. Sækja fund
  2. Sækja hlut
  3. Sækja mál
  4. Sækja að marki andstæðinga
  5. Áhyggjur, minningar sækja á huga manns
  6. Sækja fram
  7. Þegar fram í sækir
  8. Sækja heim
  9. Sækja í sætindi
  10. Sækja um starf
  11. Sækja skóla

Hins vegar er ekki rétt að lögreglan hafi sótt fimmtán samkomustaði. Líklega hefur hún heimsótt þá eða kannað ástandið á þeim. Hér fer betur á því að nota sögnina að fara, kanna eða skoða.

Tillaga: Lögregluþjónar fóru á fimmtán samkomustaði í miðborg Reykjavíkur og könnuðu sóttvarnir, fjölda gesta og opnunartíma.

2.

Gerandi líkamsárásar neitaði að nota grímu.

Fyrirsögn á mbl.is.                                        

Athugasemd: Þetta er hræðileg fyrirsögn en sem betur fer var henni breytt nokkru síðar sem bendir til að einhver er vakandi á mbl.is og lesi fréttirnar. Fyrirsögnin er nú svona:

Árás­armaður­inn neitaði að nota grímu.

Í fréttinni er ekki talað um menn eða fólk heldur „aðila“. í Málfarsbankanum segir:

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: „tveir aðilar voru í bílnum“. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: „rekstraraðili verslunarinnar“.

Mér finnst hins vegar betra að sleppa orðinu aðili og nema þegar talað er um fyrirtæki eða stofnanir. Virkar svo ári stofnanalegt.

Yfirleitt eru löggufréttir alltof ítarlegar og má sleppa flestum þeirra enda er fréttagildið ekkert. Í fréttinni er þetta sagt:

Þá var til­kynnt um­ferðaró­happ þar sem vespu hafði verið ekið á ljósastaur. Ökumaður var flutt­ur með sjúkra­bíl á bráðamót­töku til aðhlynn­ing­ar.

Flestir myndu nú telja svona minniháttar og varla ástæða til að segja frá í frétt.

TillagaEngin tillaga.

3.

„39 létust úr sjálfsvígi 2019.

Fyrirsögn á frettabladid.is.                                        

Athugasemd: Hægt er að orða það þannig að fólk látist úr Covic-19 eða öðrum veikindum en varla úr sjálfsvígi. Í orðabókinni segir að víg sé haft um það að drepa mann. Enginn lifir af né heldur sjálfsvíg.

Í fréttinni segir réttilega:

féllu fyrir eigin hendi árið 2019.

Hefð er fyrir því að orða það þannig um að fólk falli fyrir eigin hendi eða látist vegna sjálfsvígs.

Tillaga: Þrjátíu og níu sjálfsvíg á árinu 2019

4.

„Sagði víta­spyrnudóminn á Anfield háréttan dóm.

Fyrirsögn á visir.is.                                        

Athugasemd: Vont er að skrifa orð rangt en verra er að skrifa ýmist rétt eða rangt með nokkurra lína millibili. Það ber vott um kæruleysi þess sem skrifar.

Sé eitthvað hárrétt er það ritað með tveimur errum.

Í meginmáli fréttarinnar segir réttilega:

… segir að Chris Kavanagh hafi gert hárrétt með að dæma víti …

Þá má spyrja, hver skrifar fyrirsögnina, blaðamaður eða einhver flautaþyrill úti í bæ í skoðunarferð.

Þeir sem skrifa fréttir og fyrirsagnir verða að nota forritin sem leita að  rangt stafsettum orðum í textanum. Annað er bölvað kæruleysi og jafnvel dónaskapur við lesendur. 

Hins vegar leysa þessi forrit ekki allan vanda. Orðavalið getur verið hestur þó rétt sé skrifað. Jú, alveg rétt. Þarna á orðið hestur ekki heima en þegar ég læt villuleitarforritið í tölvunni minni eða það sem fylgir Moggablogginu leita að villum gerir það enga athugasemd. Það er nefnilega rétt skrifað. Af þessari ástæðu þarf blaðamaðurinn að vera vel skrifandi og eiga góðan orðaforða í höfði sér.

Tillaga: Sagði víta­spyrnudóminn á Anfield hárréttan dóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband